Undirstöður

Ummæli:

  1. Handhafar ríkisvalds

    Alþingi fer með löggjafarvaldið í umboði þjóðarinnar.

    Ráðherrar, ríkisstjórn og önnur stjórnvöld, í umboði Alþingis, fara með framkvæmdarvaldið ásamt forseta Íslands.

    Hæstiréttur Íslands og aðrir dómstólar fara með dómsvaldið

  2. Yfirráðasvæði

    Íslenskt landsvæði er eitt og óskipt. Mörk íslenskrar landhelgi, lofthelgi og efnahagslögsögu skulu ákveðin með lögum.

  3. Frelsi fjölmiðla

    Frelsi fjölmiðla, ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra og gegnsætt eignarhald skal tryggja með lögum.

    Vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara skal tryggja í lögum. Óheimilt er að rjúfa nafnleynd án samþykkis þess sem veitir upplýsingar nema við meðferð sakamáls og samkvæmt dómsúrskurði.

  4. Þjóðkirkja

    Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.

    Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.

Upplýsingar

16. ráðsfundur: Kafli til kynningar

Skoða eldri útgáfur.

Skýringar frá nefnd

  1. Handhafar ríkisvalds
    Tillaga nefndar B er í takt við tillögur nefndarinnar sem hafa þegar verið lagðar fram varðandi Alþingi, ráðherra og ríkisstjórn og forseta Íslands. Alþingi fer eitt með löggjafarvaldið og ráðherrar og ríkisstjórn fara með framkvæmdarvaldið. Þá er að tillögu stjórnlaganefndar Hæstiréttur Íslands nefndur sérstaklega sem fer með dómsvaldið ásamt öðrum dómstólum. Um þessar breytingar er nánar fjallað í köflum um Alþingi, ráðherra og ríkisstjórn, forseta Íslands og dómstóla.
    Í nefndinni var rætt að tilgreina einnig fjárstjórnarvaldið sérstaklega, enda felst fjárstjórnarvaldið ekki í löggjafarvaldinu. Sveitarstjórnir heyra undir önnur stjórnvöld.
  2. Yfirráðasvæði
    Tillaga nefndar B er samhljóða hugmynd stjórnlaganefndar dæmi A. Ákvæðið er nýmæli þar sem lýst er afmörkum íslensks yfirráðasvæðis þótt ljóst sé hver mörk Íslands eru, þar sem landið er umlukið hafi og er ásamt nærliggjandi eyjum langt frá öðrum löndum. Þó þykir rétt að mæla svo fyrir í stjórnarskrá að landið sé eitt og óskipt. Í því felst að landinu verður ekki skipt i fleiri ríki eða hluti þess skilinn frá íslenska ríkinu nema með stjórnarskrárbreytingu.
    Hugmynd kom upp hvort hægt væri að nota aðeins orðið auðlindalögsaga, en það þarf frekari lögfræðilega yfirlegu hvort hugtakið nái yfir land- og lofthelgi sem og efnahagslögsögu.
  3. Frelsi fjölmiðla
    Nýtt ákvæði.
    Lagt er til að ákvæðið færist úr mannréttindakafla í undirstöðukafla stjórnarskrárinnar, þar sem auk grundvallar stjórnskipunar verði tilteknar ákveðnar grundvallarstofnanir þjóðfélagsins. Vörn nafnleyndar byggist á valkosti 2 á s. 88 í skýrslu stjórnlaganefndar.Aflétting nafnleyndar geti verið með leyfi bæði heimildarmanns og blaðamanns, ef nauðsyn krefur.Skilgreining úr lögum nr. 38/2011 um fjölmiðla:
    „Fjölmiðill er hvers konar miðill sem með reglubundnum hætti miðlar til almennings efni er lýtur ritstjórn. Til fjölmiðla teljast m.a. dagblöð og tímarit, ásamt fylgiritum þeirra, netmiðlar, hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar."
  4. Þjóðkirkja
    Lagt er til að ákvæðið færist úr mannréttindakafla í undirstöðukafla stjórnarskrárinnar, þar sem auk grundvallar stjórnskipunar verði tilteknar ákveðnar grundvallarstofnanir þjóðfélagsins.Áður hafa verið kynntar tvær útgáfur af þjóðkirkjuákvæðinu. Hér eru báðar fyrri útgáfurnar felldar brott. Í staðinn kemur nýtt ákvæði, þar sem er m.a. brugðist við umræðum á ráðsfundi og innsendum erindum.
    Eftir samráð við aðra fulltrúa í Stjórnlagaráði á 39. fundi A-nefndar varð sá kostur ofan á að leggja til að þjóðkirkjan njóti ekki lengur sérstakrar verndar í stjórnarskrá, en löggjafanum sé heimilt að setja um hana lög. Breytingar á slíkum lögum, sem hefðu í för með sér breytingar á sambandi ríkis og kirkju, þyrfti að bera undir atkvæði þjóðarinnar, líkt og er í núgildandi stjórnarskrá.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.