Störf Alþingis

Ummæli:

  1. Skilgreining á hlutverki Alþingis

    Alþingi sækir vald sitt til þjóðarinnar. Það fer með löggjafarvald og fjárstjórnarvald ríkisins og hefur eftirlit með framkvæmdarvaldinu svo sem nánar er mælt fyrir um í stjórnarskrá þessari og öðrum lögum.

  2. Aukið vægi þingforseta

    Alþingi kýs sér forseta með 2/3 hlutum atkvæða í upphafi hvers kjörtímabils. Sitji forseti ekki út kjörtímabil skal sami háttur hafður á við kosningu nýs forseta.

    Forseti stýrir störfum Alþingis. Hann ber ábyrgð á rekstri þingsins og hefur æðsta vald í stjórnsýslu þess. Með forseta starfa varaforsetar og mynda ásamt honum forsætisnefnd.

    Forseti Alþingis lætur af almennum þingstörfum og hefur ekki atkvæðisrétt. Varamaður hans tekur sæti á þingi á meðan hann gegnir embættinu.

  3. Þingnefndir og hlutverk þeirra

    Frumvörp og önnur þingmál eru undirbúin og um þau fjallað í þingnefndum. Alþingi kýs [fjárlaganefnd, eftirlits- og stjórnskipunarnefnd, utanríkismálanefnd og aðrar] nefndir til þess að fjalla um þingmál. Um störf þingnefnda skal mælt fyrir í lögum.

  4. Frumkvæðisréttur

    Alþingsmenn hafa einir rétt til að flytja frumvörp til laga, tillögur til ályktana og önnur mál.

  5. Ráðherrar víki af þingi

    Ráðherrar svara fyrirspurnum og taka þátt í umræðum á Alþingi eftir því sem þeir eru til kvaddir, en gæta verða þeir þingskapa.

    Ráðherrar hafa ekki atkvæðisrétt á Alþingi.

    Sé alþingismaður skipaður ráðherra víkur hann úr þingsæti á meðan hann gegnir embætti og tekur varamaður þá sæti hans.

  6. Upplýsingaréttur fjárlaganefndar

    Fjárlaganefnd Alþingis getur krafið stofnanir ríkisins, ríkisfyrirtæki og þá aðra, sem fá framlög úr ríkissjóði, um upplýsingar sem tengjast ráðstöfun þess fjár.

  7. Upplýsingaskylda ráðherra

    Ráðherra er skylt að veita Alþingi eða þingnefnd umbeðnar upplýsingar, skjöl og skýrslur um málefni sem undir hann heyra, nema leynt skuli fara samkvæmt lögum. Þingmenn eiga rétt á upplýsingum frá ráðherra samkvæmt nánari fyrirmælum í lögum.

  8. Árleg skýrsla ríkisstjórnar til Alþingis

    Árlega leggur ríkisstjórn fyrir Alþingi skýrslu um störf sín og framkvæmd ályktana þingsins.

    Ráðherra getur gert grein fyrir málefni sem undir hann heyrir með skýrslu til Alþingis.

  9. Skipun embættismanna

    [Forseti Íslands,] ráðherrar og önnur stjórnvöld veita þau embætti er lög mæla.

    Við skipun manna í embætti skal einungis líta til hæfni og málefnalegra sjónarmiða.

    Í lögum má kveða á um að í tiltekin embætti megi einungis skipa íslenska ríkisborgara. Krefja má embættismann um eið eða drengskaparheit við stjórnarskrána.

  10. Meðferð þingmála

    Ekkert lagafrumvarp má samþykkja fyrr en það hefur verið rætt við þrjár umræður á Alþingi. [Sama á við um heimild til fullgildingar þjóðréttarsamnings sem kallar á breytingu á lögum eða er af öðrum ástæðum mikilvægur.]

    Þingsályktunartillögu má ekki samþykkja fyrr en hún hefur verið rædd við tvær umræður.

    Tillögur um vantraust á ríkisstjórn eða ráðherra og tillögur um skipun sjálfstæðra rannsóknarnefnda eru ræddar og afgreiddar við eina umræðu.

    Þingmál sem hafa ekki hlotið lokaafgreiðslu falla niður við lok kjörtímabils.

    Að öðru leyti skal kveðið á um meðferð þingmála í lögum.

  11. Þingrof

    [Forseti Íslands] getur rofið Alþingi að ósk þess. Skal þá efnt til nýrra kosninga eigi fyrr en sex vikum og eigi síðar en níu vikum frá þingrofi. Alþingi kemur saman eigi síðar en tíu vikum eftir þingrof. Alþingismenn halda umboði sínu til kjördags.

  12. Eftirlits - og stjórnskipunarnefnd

    Eftirlits- og stjórnskipunarnefnd Alþingis kannar hvers kyns athafnir og ákvarðanir ráðherra eða stjórnsýslu þeirra eftir því sem hún telur efni til. Skylt er nefndinni að hefja slíka athugun að kröfu þriðjungs þingmanna.

  13. Rannsóknarnefndir þings

    Alþingi getur skipað nefndir til að rannsaka mikilvæg mál er almenning varða.

    Nánari reglur um hlutverk, rannsóknarheimildir og skipan rannsóknarnefnda skulu settar með lögum.

  14. Ríkisendurskoðun

    Alþingi kýs ríkisendurskoðanda til fimm ára. Hann endurskoðar fjárreiður ríkisins, stofnana þess og fyrirtækja í umboði Alþingis eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum.

    Endurskoðaðan ríkisreikning næstliðins árs ásamt athugasemdum ríkisendurskoðanda skal leggja fyrir Alþingi til samþykktar samhliða frumvarpi til fjárlaga.

  15. Hagsmunaskráning og vanhæfi þingmanna

    Alþingismanni er óheimilt að taka þátt í meðferð þingmáls sem varðar sérstaka og verulega hagsmuni hans eða honum nákominna. Um hæfi þingmanna skal mælt fyrir í lögum. Vanhæfi þingmanns hefur ekki áhrif á gildi settra laga.

    Í lögum skal kveðið á um skyldu þingmanna til að veita upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína.

  16. Hagsmunaskráning ráðherra og opinber störf

    Ráðherra er óheimilt að hafa með höndum önnur launuð störf á meðan hann gegnir embætti. Sama gildir um störf í þágu einkafyrirtækja og opinberra stofnana þó ólaunuð séu.

    Í lögum skal kveðið á um skyldu ráðherra til að veita upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína.

Upplýsingar

: Kafli til kynningar

Skoða eldri útgáfur.

Skýringar frá nefnd

 

  1. Hlutverk Alþingis er ekki skilgreint með berum orðum í núverandi stjórnarskrá, að öðru leyti en að það fari með löggjafarvaldið ásamt forseta sbr. 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins nr. 33/1944. Í tillögu stjórnlaganefndar er lagt til að hlutverk þjóðþingsins sé skilgreint í kaflanum um hlutverk og störf Alþingis, sem fyrsta grein þess kafla. Tillaga B-nefndar byggist að mestu leyti til á þeirri tillögu, og sækir jafnframt innblástur til sænsku stjórnarskrárinnar þar sem fram kemur að þing landsins sé skipað fulltrúum þjóðarinnar.
  2. Núverandi stjórnarskrá er fáorð um forseta Alþingis. Í 52. gr. segir aðeins að Alþingi kjósi sér forseta sem stýrir störfum þess. Tillaga B-nefndar er sett fram í anda þess að auka veg og virðingu Alþingis og ein leið til þess sé m.a. að þingforseti njóti víðtækari stuðnings en aðeins frá stjórnarmeirihluta hverju sinni. Nefnd B telur að slíkt fyrirkomulag geti eflt Alþingi í störfum sínum og aukið samstöðu, að ekki sé ágreiningur um störf forsetans. Tillagan byggist að hluta til á tillögu stjórnlaganefndar, en núverandi tillaga gengur aðeins lengra þar sem forseti þingsins hefur samkvæmt 3. málsgrein tillögunnar ekki lengur atkvæðisrétt, en slíkt fyrirkomulag sækir fyrirmynd sína til Svíþjóðar. Enn fremur má benda á að í löndum sem byggja á engilsaxneskum hefðum er venjan sú að þingforseti segi sig frá stjórnmálum og sinni aðeins hlutverki sínu við rekstur þingsins. Hér er þó ekki gengið svo langt, en engu að síður er markmiðið að friður skapist um störf forseta þingsins þjóðinni til heilla.
    Til hliðsjónar má nefna að 1. gr. laga um þingsköp Alþingis nr. 55/1991 hljóðar svo: Þegar Alþingi kemur saman við þingsetningu að loknum alþingiskosningum skal sá þingmaður, sem hefur lengsta þingsetu að baki, stjórna fundinum þangað til forseti þingsins er kosinn og standa fyrir kosningu hans. Hafi tveir þingmenn eða fleiri setið jafnlengi á þingi skal sá teljast aldursforseti sem eldri er.
    Ef svo fer að ekki næst að kjósa með auknum meirihluta myndi starfsaldursforseti stýra störfum Alþingis. Ef sett yrði einhvers konar viðlagaákvæði þar sem hægt væri að fara framhjá meginreglunni er hætt á að það yrði venjan.
  3. Í núverandi stjórnarskrá er ekkert minnst á nefndir þingsins og má telja það óheppilegt fyrirkomulag.
    Tillagan byggist á hugmyndum B-nefndarinnar um að sterkari þingnefndir séu mikilvæg leið til þess að styrkja þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu. M.a. hafa komið fram hugmyndir um að ráðherrar geti ekki flutt mál á Alþingi, heldur ætti að færa það hlutverk til fastanefnda þingsins. Aukið vægi þingnefnda væri leið til þess að draga úr ríkisstjórnarræði og færa löggjafarvaldið og frumkvæði að lagasetningu í auknum mæli til þingsins.
    Ætlun nefndarinnar er að styrkja stefnumótun á vegum þingnefnda án þess að tvöfalda þann hóp sérfræðinga sem kemur að undirbúningi þingmála hjá stjórnsýslu og þingi.
    Tillaga B-nefndar, sem byggist að hluta til á tillögum stjórnlaganefndar, gerir ráð fyrir að mál séu undirbúin í þingnefndum og að formenn nefnda mæli fyrir þeim. Ráðherrar leggi þannig ekki fram frumvörp, heldur komi þeim á framfæri við þingnefndir sem hengur saman við tillögu hér á eftir, að ráðherrar víki af þingi og séu því ekki alþingismenn samhliða ráðherrastörfum.
    Fram komu athugasemdir um að ekki ætti að veita sumum nefndum þingsins stjórnskipunarstöðu umfram aðrar nefndir, sbr. upptalningu ákvæðisins. Sleppa ætti þeirri upptalningu m.a. þar sem það kynni að vera að nefndarskipulag Alþingis yrði breytt en þá yrðu hendur þingsins bundnar. Ekki var tekin afstaða til athugasemdarinnar að svo stöddu og er upptalning nefndanna innan hornklofa. Hins vegar eru allar þessar nefndir orðaðar í öðrum ákvæðum í væntanlegri stjórnarskrá, þar sem þær hafa stjórnskipulegt hlutverk, sem aðrar nefndir hafa ekki.
  4. Tillaga nefndar B um frumkvæðisrétt gerir ráð fyrir að alþingismenn einir hafi rétt til að flytja frumvörp til laga, tillögur til þingsályktana og önnur mál. Þessi tillaga er í samhengi við hugmyndir um aukið vægi þingnefnda og að ráðherrar sitji ekki á þingi, í þeim tilgangi að skilja betur á milli löggjafar- og framkvæmdarvalds og auka vægi þingsins. Tillagan er samhljóða dæmi B frá stjórnlaganefnd, 66. grein um frumkvæðisrétt, nema hvað bætt er við orðinu „einir" til að hnykkja á því að ráðherrar flytji ekki mál á þingi heldur komi þeim á framfæri við þingnefndir.
  5. Tillagan byggist á hugmyndum þjóðfundar sem og umræðum á fundum nefndar B sem leið til þess að styrkja þingið og skilja að löggjafar- og framkvæmdarvald. Það er hugmynd nefndarinnar að opnað sé frekar fyrir það að ráðherrar komi ekki úr hópi þingmanna.
    Í þeim tilvikum er ráðherrar koma úr hópi þingmanna víkja þeir úr þingsæti meðan þeir gegna embætti sínu styrkist bæði ríkisstjórnin og þingið. Ráðherrar geta þá helgað sig verkefnum framkvæmdarvaldsins. Varamenn taka sæti ráðherra á þingi á meðan þeir gegna embætti sínu. Slíkt fyrirkomulag er m.a. í Noregi og í Svíþjóð.
    Tillagan byggist að hluta til á tillögu stjórnlaganefndar en réttur ráðherra til að mæla fyrir frumvörpum er afnuminn. Hins vegar svara þeir fyrirspurnum og taka þátt í umræðum eftir sem áður eftir því sem þeir eru kallaðir til.
  6. Tillagan byggist á tillögu stjórnlaganefndar en með smávægilegum orðalagsbreytingum. Um er að ræða nýtt ákvæði sem lýtur að eftirlitshlutverki Alþingis og fjárlaganefndar og er ætlað að styrkja fjárstjórnarvald þingsins. Slíkt ákvæði sækir sér ekki stoð í stjórnarskrám annarra landa að öðru leyti en fjallað er um víðtækan rétt þingsins til upplýsinga frá ríkisstjórn í bæði finnsku og sænsku stjórnarskránni.
    Umræða kom fram meðal ráðsfulltrúa að aðrar þingnefndir ættu að hafa sambærileg eða sömu úrræði þ.e. að ákvæðið gilti almennt. Hins vegar var bent á slíkar óskir gætu komið frá nefndum til fjárlaganefndar. Þá er annað ákvæði sem veitir þinginu, þingnefndum svo og þingmönnum víðtækari upplýsingarétt frá ráðherrum en núverandi skipan sbr. næsta.
  7. Tillaga nefndarinnar byggist á því að Alþingi eigi víðtækan rétt á upplýsingum um störf framkvæmdarvaldsins, en það er stór þáttur í eftirlitshlutverki þingsins gagnvart því. Framkvæmdarvaldinu beri því skylda til að afhenda þinginu ýmiss konar upplýsingar sem tengjast m.a. meðferð opinbers fjár og eftirfylgni laga og þingsályktana. Tillagan byggist að mestu leyti á tillögu stjórnlaganefndar en nýmæli er í ákvæðinu um að mælt sé fyrir um upplýsingaskyldu ráðherra gagnvart þinginu sem er ekki að finna í núverandi 54. gr. Þá er enn fremur tekið út orðalagið að rétturinn taki til „opinbers málefnis" en hætt er við því að það þrengi rétt þingmanna. Þá byggist tillaga nefndarinnar að hluta til á tillögum vinnuhóps á vegum forsætisnefndar Alþingis, sem lagði fram umfangsmikla skýrslu árið 2009 sem ber heitið, Eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu, m.a. um ýmsar breytingar á stjórnarskrá eða lagaákvæðum um störf Alþingis.
    Þá er eðlilegt að upplýsingaskylda ráðherra sé skráð í stjórnarskrá, enda er reglan mikilvæg lýðræðinu og eðlilegri kröfu að starfsemi stjórnvalda sé opin og gegnsæ.
    Í ákvæðinu er enn fremur nýmæli um að þingnefndir hafi jafnan rétt á við þingið sjálft, þ.e. meirihluta þess, til að óska slíkra upplýsinga. Réttur þingmanna er þrengri og skal ákveðinn í lögum, enda geta upplýsingar varðað mikilvæga almannahagsmuni eða um þær gilt trúnaður t.d. í ljósi persónuverndar. Taka verður tillit til þessara þátta þegar fjallað er um upplýsingaréttinn.
    Þá kom til umræðu nefndarinnar hvort að bæta ætti inn í ákvæðið sannleiksskyldu auk upplýsingarskyldunnar.
    Sambærilega tillhögun má finna í finnsku stjórnarskránni og þeirri sænsku.
  8. Nýtt ákvæði er skyldar ríkisstjórn til að gera skipulega grein fyrir því hvernig hún hefur staðið að störfum sínum og framkvæmt ályktanir þingsins. Í umræðum nefndarinnar kom fram að slíkt fyrirkomulag geri þinginu betur kleift að sinna eftirlits- og rannsóknarhlutverki sínu gagnvart framkvæmdarvaldinu og slík skylda auki aðhald með framkvæmdarvaldsinu.
    Hér er jafnframt lagt til að ráðherra hafi rétt til að gera grein fyrir málefni sem undir hann heyrir með skýrslu, þ.e. ákveðinn frumkvæðisrétt, og byggist því tillagan að meginstefnu til á tillögu stjórnlaganefndar.
    Finna má áþekk ákvæði í finnsku stjórnarskránni.
  9. Tillaga nefndar B, sem byggð er á því að ákvæði um að hæfni og málefnaleg sjónarmið ráði við embættisveitingar, spornar við því að framkvæmdarvaldið ráði sér handgengið fólk að geðþótta í embætti innan stjórnsýslu. Litlar breytingar eru gerðar á tillögu stjórnlaganefndar aðrar en að í stað þess að málsgreinin um hæfni og málefnaleg sjónarmið sé númer þrjú er hún númer tvö.
    Nú er gefinn möguleiki á því að skipa erlenda menn í embætti með lögum sem er mikil breyting frá fortakslausu ákvæði í núgildandi stjórnarskrá.
    Sambærileg ákvæði er að finna í bæði finnsku og sænsku stjórnarskránni.
  10. Lagt er til að ákvæði sem nú stendur í 44. gr. stjórnarskrárinnar verði gert mun ítarlegra. Einnig er lýst reglum sem gilda um meðferð þingályktana sem þurfa að meginstefnu aðeins tvær umræður enda ekki um lagasetningu að ræða. Þá gilda sérreglur um vantrausttillögur og ákvarðanir um skipun rannsóknarnefnda. Í tillögu stjórnlaganefndar er lagt til að heimildir til fullgildingar þjóðréttarsamninga sem kalla á breytingu á lögum eða eru af öðrum ástæðum mikilvægir séu ræddir við þrjár umræður á Alþingi. Samkvæmt tillögum frá nefnd A er lagt til að mannréttindasamningar skuli fá sjálfkrafa gildi sem landslög (sbr. tillögur nefndar A). Sökum þessa er nauðsynlegt sé að heimildir til fullgildingar fái sömu þinglegu meðferð og lagafrumvörp þar sem þjóðréttarsamningar fá samkvæmt þessu sjálfkrafa gildi sem landslög. Ákvæðið er í hornklofum þar sem ekki hefur verið tekin afstaða til gildis þjóðréttarsamninga að landslögum í nefnd C.
    Minnst er á fleiri tegundir þingmála í stjórnarskránni, t.d. skýrslur ráðherra og árlega skýrslu ríkisstjórnar. Rætt var hvort taka þyrfti fram að slík mál væru rædd við eina umræðu, eða hvort nóg væri að þingið útfærði það sjálft í þingsköpum.
    Í 4. mgr. kemur fram mikilvægt nýmæli sem byggir á tillögu stjórnlaganefndar. Það felur í sér að þótt meðferð þingmáls sé ekki lokið við lok löggjafarþings verði unnt að halda meðferð þess áfram á næsta löggjafarþingi frá því stigi sem það er þá statt í málsmeðferð. Í dag falla þingmál niður við hvert löggjafarþing sem má telja óheppilegt fyrirkomulag, og leiðir til þess að mál þarf að endurflytja við upphaf hvers löggjafarþings, en tillagan girðir fyrir það óhagræði. Hins vegar er tekið skýrt fram að þingmál sem ekki er lokið við lok kjörtímabils falla niður við það tímamark.
    Ekki er talin ástæða til að breyta ákvæðum um meðferð þingmála að öðru leyti, ef frá eru taldar smávægilegar orðalagsbreytingar.
  11. Meginbreyting á núgildandi ákvæði er að þingrof er bundið við ósk eða tillögu þingsins sjálfs. Þingrofsheimildin er því alfarið hjá Alþingi sjálfu en ekki á hendi ráðherra. Tillagan er að mestu komin frá stjórnlaganefnd.
    Nefndin leggur hins vegar til breytingar á tímamörkum þingrofs og kosninga í kjölfar þess. Í umræðu nefndarinnar kom fram að það gæti verið ólýðræðislegt að sitjandi stjórnarmeirihluti boði til kosninga með stuttum fyrirvara. Í slíkum aðstæðum hefði stjórnarandstaða og eftir atvikum nýir flokkar og frambjóðendur takmarkaðan tíma til undirbúnings og til að kynna málstað sinn. Nefndinni þótti því rétt að setja lágmarksfrest og hámarksfrest vegna boðunar þingkosninga í kjölfar þingrofs. Hæfilegt lágmark í þessu skyni þótti vera sex vikur (42 dagar) en hámark níu vikur (63 dagar). Í öllu falli kemur nýtt Alþingi saman eigi síðar en tíu vikum (70 dögum) eftir þingrofið. Sitjandi ríkisstjórn situr sem starfsstjórn uns nýtt þing kemur saman og ný stjórn er mynduð í kjölfarið.
    Þá kom einnig til umræðu nefndarinnar hvort forseti gæti átt aðkomu að þingrofi sem öryggisventill ef tiltekin efnisskilyrði væru fyrir hendi. Á hinn bóginn var nefndin sammála um að þingrofsréttur ætti ekki að vera hjá forsætisráðherra eins og nú er, heldur hjá þinginu sjálfu. Óeðlilegt þykir að framkvæmdarvaldið geti rofið þing án þess að ljóst sé að vilji meirihluta þingsins standi til þess.
    Eftirfarandi viðbótartillaga var lögð fram sem yrði 2. mgr. við tillöguna:
    Með sama hætti getur [forseti Íslands] rofið Alþingi ef þingið er óstarfhæft.
    Tillagan er háð því hvaða ákvörðun verður tekin um embætti forseta Íslands og slíka hugmynd þyrfti að útfæra nánar, en hugmyndin er m.a. sú að slíkur réttur forseta skapi þrýsting á þingið til samstarfs. Ókosturinn væri á hinn bóginn sá að forseti gæti tekið upp á að misnota slíka heimild.
  12. Um er að ræða nýtt stjórnarskrárákvæði, í samræmi við tillögu stjórnlaganefndar. Stjórnlaganefnd byggði sína tillögu á niðurstöðum vinnhóps sem skipaður var af forsætisnefnd Alþingis til að fara yfir núgildandi lagareglur um eftirlit þingsins með framkvæmdarvaldinu. Hópurinn skilaði af sér umfangsmikilli skýrslu þar sem m.a. er lagt til stofnun nefndarinnar auk þess sem fleiri tillögur til að efla þingeftirlit eru reifðar.
    Eftirlits- og stjórnskipunarnefnd verður ein fastanefnda þingsins en gegni jafnframt stjórnskipulegu hlutverki í eftirliti með störfum ráðherra á grundvelli þess sem stjórnskipunarlög krefjast. Markmið með starfsemi nefndarinnar er að styrkja og þétta umhverfi þingeftirlits og setja eftirlit í faglegt ferli.
    Nefndin á sér hliðstæðu í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Í tilögu starfshópsins er m.a. vísað til þess að reynsla nágranna okkar af þróun og framkvæmd reglna og lagaákvæða um þingeftirlit sé um margt áhugaverð og eðlilegt að litið sé til þessara landa við endurskoðun á lagaumhverfinu hér á landi. Miðað er við að verkefni og störf nefndarinnar verði sambærileg við það sem er í Noregi að tillögu starfshópsins. Verkefni nefndarinnar yrðu í samræmi við það; yfirferð fundargerða ríkissráðs og álitsgjöf til þings, yfirferð skýrslu ríkisstjórnar um fyrirmæli þingsins (sem helst í hendur við nýtt ákvæði sem leggur til að ríkisstjórn gefi þinginu skýrslu). Ennfremur sjái nefndin um yfirferð gagna frá eftirlitsaðilum þings svo sem skýrslu Umboðsmanns Alþingis og skjöl frá ríkisendurskoðun. Þá sjái nefndin um undirbúning ákvörðunar þegar þingið þarf að taka afstöðu til þess hvort reyna þurfi á stjórnskipulega ábyrgð. Nefndin geti jafnframt hafið rannsókn í stjórnsýslunni sem hún telur nauðsynlega til að sinna þingeftirliti að eigin frumkvæði , eða að ósk þriðjungs þingmanna sem tryggir ákveðin réttindi minnihlutans.
  13. Núgildandi stjórnarskrárákvæði gerir ráð fyrir rannsóknarnefndir skipuðum Alþingsmönnum. Slík nefnd hefur ekki verið skipuð síðan árið 1956. Ef nauðsyn er á að skipa rannsóknarnefnd utanþingsmanna, eru þær skipaðar með lögum þar sem heimildir og verksvið nefndar er jafnframt afmarkað nánar t.d. Rannsóknarnefnd Alþingis og nefnd um Breiðavíkurmál. Í núverandi tillögum eru öll tvímæli tekin af um að nánari reglur um störf slíkra nefnda séu settar með lögum.
    Í nefndinni var m.a. rætt hversu langt Alþingi megi ganga til að veita mönnum yfirgripsmiklar rannsóknarheimildir sem hafa í för með sér valdbeitingu og mögulega íhlutun í mannréttindavernd einstaklinga. Þá var jafnframt rætt hvort að afnema ætti heimildina í 39. gr. alfarið en talið var réttara að skipan rannsóknarnefnda þyrfti stjórnskipulega vernd og eðlilegra væri að lágmarksferli væri afmarkað í stjórnarskrá fyrir slíkar nefndir m.a. vegna valdheimilda þeirra.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að sett verði almenn lög um opinberar rannsóknarnefndir þar sem m.a. verði kveðið nánar á um rannsóknarheimildir svo sem að heimta skýrslu af embættismönnum og einstökum mönnum.
  14. Tillaga nefndar byggir að mestu á tillögu stjórnlaganefndar, dæmi B. Talið er að heppilegt sé jafnframt að skipunartími ríkisendurskoðanda séu fimm ár, líkt og umboðsmanns. Til að tryggja festu í fjárstjórnarvaldi ríkisins og sem þáttur í eftirlitsvaldi Alþingis er lagt til að samhliða frumvarpi til fjárlaga sé lagður fyrir þingið endurskoðaður ríkisreikningur síðasta árs. Alþingi fer með fjárstjórnarvaldið en fjárlög hafa séreðli og eru fremur fjárhagsáætlun ríkisins heldur en almenn löggjöf.
  15. Nefnd B tekur undir skýringar stjórnlaganefndar og telur eðlilegt að stjórnarskrá kveði á um sérstakt hæfi þingmanna, þ.e. skyldu þeirra til að víkja sæti, hvort heldur er í þingnefnd eða í almennri meðferð, þegar mál snertir þá persónulega. Ljóst er að nánari reglur um þetta atriði verður að setja með almennum lögum, t.d. í þingskaparlögum, og er þá unnt að líta til fyrirmynda úr stjórnsýslurétti. Þá er mikilvægt að vafaatriði um hæfi þingmanna leiði ekki til óvissu um stjórnskipulegt gildi laga.
    Ákvæðið er því nýmæli og gerir jafnframt ráð fyrir að að settar séu nánari reglur í lögum um sérstakt hæfi þingmanna og skyldu þeirra til að veita upplýsingar um fjárhagsleg tengsl sín og hagsmuni. Í samræmi við almennar reglur er þó gert ráð fyrir að þingmenn gæti að hæfi sínu sjálfir en Alþingi taki ákvörðun um hvort þeim beri að víkja sæti. Valkosturinn gerir ráð fyrir að tekin séu af tvímæli um að brot gegn þessum reglum geti ekki valdið stjórnskipulegu ógildi laga. Þessi regla myndi einnig gera það mjög ólíklegt að menn ættu lögvarða hagsmuni af dómsmáli byggðri á málsástæðu um vanhæfi þingmanns þótt ákvæðið sjálft útiloki ekki slíkt mál.
  16. Í tillögum stjórnlaganefndar er ekki vikið að almennu hæfi ráðherra en rétt þykir nefndinni að bæta við slíku ákvæði um ráðherra sem komi inn í kaflann um ríkisstjórn, ráðherra og framkvæmdarvald. Talið er að á meðan ráðherra gegnir embætti skuli hann ekki sinna öðrum ýmsum störfum sem geta ollið hagsmunaárekstrum. Hins vegar gilda sérstakar hæfisreglur stjórnsýslulaga engu að síður um ákvarðanir ráðherra innan stjórnsýslunnar, sem endranær.
    Nefnd B leggur því til nýmæli þess efnis að ráðherrum verði óheimilt að hafa með höndum nokkur störf í þágu opinberra stofnana eða einkafyrirtækja (sbr. orðalag úr lögum um Umboðsmann Alþingis), launuð sem ólaunuð, né heldur launuð störf fyrir aðra, t.d. félagasamtök. Ráðherrum verður þó heimilt að hafa með höndum ólaunuð störf fyrir félagasamtök.
    Sambærileg ákvæði má finna í þýsku og finnsku stjórnarskránni bæði hvað varðar hagsmunaárekstra og bann við að ráðherrar sinni störfum öðrum en tengdum embættinu.
    Nefnt var í umræðu í nefndinni að ákvæði um launuð og ólaunuð störf ráðherra ættu hugsanlega að gilda með sama hætti um alþingismenn.
    Sömu reglur gilda hvað varðar hagsmunaskráningu ráðherra og þingmanna og vísast því í skýringu þar.

 

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.