Kaflar um utanríkismál og lýðræðislega þátttöku afgreiddir á 13. ráðsfundi

16.06.2011 16:33

Kaflar um utanríkismál og lýðræðislega þátttöku afgreiddir á 13. ráðsfundi

Stjórnlagaráð afgreiddi tillögur C-nefndar um utanríkismál og lýðræðislega þátttöku almennings inn í áfangaskjal ráðsins á 13. ráðsfundi í dag. Í kafla um utanríkismál er m.a. mælt fyrir um heimild til að gera alþjóðasamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Slíka samninga þurfi að bera undir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Þá kemur fram að ákvörðun um stuðning við hernaðaraðgerðir skuli háð samþykki Alþingis.  Í kaflanum um lýðræðislega þátttöku kemur m.a. fram að Alþingi skuli bera nýsamþykkt lög undir þjóðaratkvæði ef 10% kjósenda krefjast þess. B-nefnd Stjórnlagaráðs kynnti á fundinum nýjan kafla um sveitarfélög. Þar er m.a. kveðið á um að sveitarfélög skuli sjálf sjá um þá þætti opinberrar þjónustu sem betur sé komið fyrir í héraði og um rétt íbúa til að óska eftir atkvæðagreiðslu um málefni þess. Hægt er að gera athugasemdir við allar tillögur ráðsins í áfangaskjali.

 

Fara í fréttalista