Tillögur afgreiddar og stefnuræður fulltrúa á 7. ráðsfundi

06.05.2011 12:36

Tillögur afgreiddar og stefnuræður fulltrúa á 7. ráðsfundi

Tillögur frá  A- og C-nefndum Stjórnlagaráðs voru afgreiddar inn í áfangaskjal ráðsins á 7. ráðsfundi. Tillögur A-nefndar sem voru afgreiddar, fjölluðu um aðfaraorð stjórnarskrárinnar og um að færa mannréttindakafla hennar fremst. Nefndin kynnti enn fremur tillögu sína um mannréttindi í ellefu liðum en þar kom m.a. fram ný grein um réttindi barna og um að herskyldu skuli aldrei í lög leiða. Stjórnlagaráð afgreiddi jafnframt tillögu C-nefndar um dómstóla. Þar er m.a. kveðið á um að sjálfstæði dómstóla skuli tryggja með lögum. Tillagan er í sex liðum en í núverandi stjórnarskrá er fjallað sérstaklega um dómstóla í þremur greinum. Nefndin kynnti enn fremur tillögu sína um Lögréttu sem væri sérstakt ráðgefandi ráð, skipað til að meta stjórnskipunarlegt gildi laga við löggjafarstarfið. Freyja Haraldsdóttir, fulltrúi í Stjórnlagaráði flutti stefnuræðu sína í Stjórnlagaráði á fundinum. Hún lagði áherslu á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar þ.e. að allir skuli jafnréttháir fyrir lögum, þ.á.m. fatlað fólk og aðrir minnihlutahópar. Almenn löggjöf hafi enn ekki tryggt þessum hópum þessi réttindi að fullu og úr því þurfi að bæta. Ómar Ragnarsson flutti enn fremur stefnuræðu sína. Hann lagði áherslu á jafnrétti, aukna valddreifingu og sjálfbæra þróun í sinni ræðu. Auk þess að varpa fram hugmyndum um kjördæmaskipan og kosningalög. Hægt er að hlusta á upptöku af fundinum á vef Stjórnlagaráðs.

Fara í fréttalista