Tillögur á 7. ráðsfundi
05.05.2011 11:25
A- og C-nefndir Stjórnlagaráðs leggja fram tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins á 7. ráðsfundi sem hefst kl. 13 í dag. Tillögur ráðsins geta tekið breytingum allt þar til frumvarp að nýrri stjórnarskrá verður lagt fram til samþykkis.
A-nefnd, sem fjallar m.a. um mannréttindi, leggur fram eina tillögu til kynningar og tvær til afgreiðslu inn í áfangaskjal ráðsins. C-nefnd ráðsins leggur jafnframt fram eina tillögu til kynningar og aðra til afgreiðslu. Þau Freyja Haraldsdóttir og Ómar Ragnarsson flytja stefnuræður á fundinum.
Tillögur nefnda eru birtar í sérstöku áfangaskjali á vefnum stjornlagarad.is. Í áfangaskjalinu er hægt að fylgjast jafnt og þétt með undirbúningi Stjórnlagaráðs að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Áfangaskjalið er uppfært vikulega á ráðsfundum og þar eru lagðar fram tillögur um breytingar á skjalinu. Tillögurnar eru ýmist lagðar fram til kynningar eða afgreiðslu og geta tekið breytingum allt þar til frumvarp að nýrri stjórnarskrá verður lagt fram til samþykkis.
Viðtal við Silju Báru Ómarsdóttur um tillögur A-nefndar.