Fylgiskjal

Tekið fyrir: 7. ráðsfundur

Stefnuræða Ómars Þorfinns Ragnarssonar

NOKKUR STEFNUMIÐ VARÐANDI STJÓRNARSKRÁ

Formaður, gott stjórnlagaráðsfólk og aðrir sem á þennan fund horfa og hlusta.

Nú eru liðnar rúmar fjórar vikur síðan fyrsti fundur okkar var haldinn og klukkan tifar.

Nokkrar útlínur verks okkar sem byggjast á meginhugmyndum Þjóðfundar 2010 eru farnar að líta dagsins ljós, þeirra á meðal hugmynd að aðfaraorðum, þar sem nokkur helstu atriðin, sem þjóðfundur setti fram eru nefnd.

Ég tel mikilvægt að þau séu sett fram sem bein stjórnarskrárákvæði og ef einhverju þyrfti að bæta við þyrftu það ekki að vera mörg atriði, til dæmis frelsi, menning, tunga.

Svona gildi er nauðsynlegt að setja á blað og af þeim, sem nefnd yrðu, eru tvö þeirra þess eðlis, að þau ein urðu mér ástæða síðastliðið haust til að gefa kost á mér til þess að berjast fyrir þeim í starfi okkar.

Þessi gildi eru nátengd, jafnrétti og sjálfbær þróun, því að í hugtakinu sjálfbær þróun felst jafnrétti kynslóðanna.

Þau eru ekki aðeins brýn nauðsyn á 21. öldinni þegar gengi þeirra munu ráða úrslitum um velferð mannkyns, heldur myndi það eitt að setja þau í stjórnarskrá Íslands núna nægja til að halda þessari stjórnarskrá á lofti um alla framtíð, þótt engu öðru yrði breytt eða við bætt.

Nokkur stefnumið -2-

Sem elsti maðurinn í hópi okkar finn ég til sérstakra tengsla við komandi kynslóðir sem mér finnst að ég þurfi að sinna og vinna í þágu milljóna Íslendinga sem eiga eftir að byggja þetta land.

Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem okkar gjörðir snerta, eru nefnilega ófæddir - við höfum fengið þetta land að láni frá þeim.

Engar kynslóðir í sögunni hafa fengið í hendur meira vald en þær kynslóðir sem nú lifa, vald um athafnir sem geta haft gríðarlegar afleiðingar fyrir kynslóðir framtíðarinnar. Dæmi:

Kjarnorkuvopnin.
Fyrir hendi eru kjarnorkuvopnabúr sem fyrir mistök gætu hvenær sem er komið af stað eyðingarstyrjöld.

Offjölgunin:
Í Biblíunni stendur: „Verið frjósöm og uppfyllið jörðina" en það stendur hvergi: „Verið frjósöm og yfirfyllið jörðina", en offjölgunin er ein helsta ógnin við velferð og framtíð mannkynsins.

Við Íslendingar erum að vísu ekki fleiri en svo að við kæmumst fyrir í hluta af úthverfi í einhverri af þúsundum borga heimsins.

Samt höfum við fengið í hendur meira vald á hvern íbúa en þekkist í nokkru öðru landi. Ástæðan er tvíþætt:

Nokkur stefnumið -3-

Annars vegar er vægi okkar meira á hvern íbúa landsins í alþjóðlegu samstarfi en hjá hinum stærri þjóðum, oft höfum við jafnan atkvæðisrétt á við þúsund sinnum stærri þjóðir -

og síðan er hugtak sem hefur verið nefnt sjálftökuvald bæði á landsvísu og heimsvísu, af þessu sjálftökuvaldi höfum við meira á hvern íbúa en dæmi eru um annars staðar hvað varðar ráðstöfun og varðveislu einstæðra náttúruverðmæta og orkulinda.

Með þessum orðum mínum er ég að höfða til einstaklingsábyrgðar okkar gagnvart mannkyninu öllu og kynslóðum framtíðarinnar.

Það er ekki sama hvernig við högum okkur á þessu útskeri við ysta haf.

Þess vegan er krafan um sjálfbæra þróun svo mikilvæg, svo mikilvægt að við forðumst rányrkju eða gjörðir sem hafa óafturkræf neikvæð áhrif um alla framtíð.

Það er ekki aðeins mikils um vert að við verðum sjálf sæmilega ánægð með það verk sem við stefnum að að skila frá okkur.

Meira er um vert hvaða mat kynslóðir framtíðarinnar eiga eftir að leggja á það.

Nokkur stefnumið -4-

Ekki mun ég tíunda það í upptalningu sem ég legg áherslu á í starfi mínu hér. Það fer flest vel saman við það sem við erum sammála um að til bóta horfi.

Ég ætla aðeins að drepa á eitt atriði sem ég nefndi í greinargerð minni fyrir framboði mínu á sínum tíma en það er að forðast að bera fyrir borð hagsmuni einstakra landshluta og þjóðfélagshópa , svo sem hvað varðar kosningalög og kjördæmaskipan.

Í uppleggi þjóðfundar var áberandi krafan um stóraukið lýðræði og áhrif kjósenda, svo sem með aukinni áherslu á persónukjör.

Einnig nýtur hugmyndin um landið sem eitt kjördæmi mikils fylgis og einnig það að jafna vægi atkvæða.

Á hinn bóginn tel ég að enda þótt líta megi á það sem minnihlutasjónarmið að hafa kjördæmin fleiri, sé æskilegt að meirihlutinn valti ekki yfir minnihlutann, sé þess kostur að sætta sjónarmið minnihluta og meirihluta.

Raunar sér þess stað á nokkrum stöðum í vinnu okkar nú þegar við stjórnarskrána, að réttur minnihluta verði efldur frá því sem verið hefur.

Má sem dæmi nefna rétt minnihluta Alþingis og minnihluta þjóðarinnar til að skjóta málum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nokkur stefnumið -5-

Svipað tel ég mega athuga hvað varðar kosningalög og kjördæmaskipan.

Þar tel ég athugandi að fara svipaða leið og farin er í ýmsum löndum, blandaða leið, þar sem annars vegar verði þorri þingmanna kosnir af landslistum þar sem landið er eitt kjördæmi, til dæmis 40 - 50 þingmenn, -
en hins vegar kosnir til 11-22 þingmenn í einmennings- eða tvímenningskjördæmum.

Ég hef allt frá unga aldri velt þessu fyrir mér.
Ef svona fyrirkomulag yrði tekið hér upp má telja líklegt að stjórnmálaflokkarnir muni bjóða fram í einmenningskjördæmunum og fá þar kosna þingmenn, en þó getur þetta fyrirkomulag gefið sterkum einstaklingum, sem ekki vilja spyrða sig við neinn flokk, tækifæri til að bjóða sig fram og komast á þing algerlega upp á eigin spýtur.

Þegar þingsætum yrði síðan úthlutað yrði tekið tillit til þess hve marga þingmenn í einmennings/tvímenningskjördæmunum flokkarnir fengu, og heildarfjöldi þingmanna þeirra reiknaður út frá því svo að heildar þingmannafjöldi hvers flokks verði í samræmi við heildarfylgi hans.

Flestir munu sammála um að núverandi kjördæmi séu of stór, of erfitt fyrir þingmenn að komast yfir þau og auk þess eigi fólk á jöðrum kjördæmanna oft fátt sameiginlegt sem réttlæti það að það sé saman í kjördæmi.

Nokkur stefnumið -6-

Dæmi: Kjósandi á Höfn í Hornafirði á fátt sameiginlegt með kjósanda í Reykjanesbæ eða Vogum á Vatnsleysuströnd,

kjósandi á Siglufirði á fátt sameiginlegt með kjósanda á Djúpavogi

og kjósendur í Vesturbyggð, Bolungarvík og Fljótum í Skagafirði eiga fátt sameiginlegt með kjósendum á Akranesi, sem er á atvinnusvæði höfuðborgarsvæðisins.

Í stað 6 kjördæma mætti hafa þau 9, og í grófum dráttum með tiltölulega litlum breytingum notast við kjördæmaskipanina frá 1959 og þá lítur dæmið svona út:

Vesturland, 1 þingmaður,
Vestfirðir 1 "
Norðurland vestra 1
Norðurland eystra 1 eða 2
Austurland 1
Suðurland 1 eða 2
Suðurnes 1 eða 2
Suðvesturkjördæmi 2 eða 3
Reykjavík 2 eða 3

Alls 11 til 16 þingmenn.

Nokkur stefnumið -7-

Ekkert kosningakerfi getur tryggt að þingmenn raðist þannig eftir búsetu að vægi atkvæða sé jafnt.

Ókosturinn við núverandi kerfi er hins vegar sá að fyrirfram er innbyggt í kerfið að vægið verði ójafnt, allt að tvöfalt ójafnt.

Í kerfinu, sem ég varpa upp, er hins vegar tryggt að fyrirfram verður ekki byggt ójafnt atkvæðavægi inn í það.

Á Vestfjarðakjálkanum búa nú 7.300 manns en að meðaltali á öllu landinu eru eins og nú er komið málum, 5.000 manns á bak við hvern þingmann.

6.400 manns búa á Vestfjörðum, ef Reykhólasveit fellur til Vesturlands og Strandasýsla til Norðurlands vestra í samræmi við breyttar samgöngur.

Fjöldinn á bak við hugsanlega kjördæmiskjörinn þingmann fámennustu kjördæmanna yrði vel yfir meðaltalinu. Ekki fyrirfram innbyggt misvægi atkvæða því að síðan ræðst það af kosningu í landinu öllu sem einu kjördæmi hver búseta þingmanna verður að öðru leyti.

Höfuðkostur kerfis á borð við þetta er sá að tryggt er að allir landshlutar eigi fulltrúa á Alþingi. Það er ekki tryggt ef landið er eitt kjördæmi.

Og þá er spurt: Þurfa landshlutar að geta eignað sér ákveðna fulltrúa á Alþingi ?
(nokkur stefnuatriði - 8 )

Vel má vera að meirihluti landsmanna telji að svo þurfi ekki að vera - allir þingmenn eigi að skoða sig sem fulltrúa allra landsmanna, ekki einstakra svæða.

Aðstöðumunur vegna búsetu verði ekki jafnaður með misvægi atkvæða í kjöri þingmanna heldur með því að veita landshlutunum aukið fjárstjórnarvald, bæta samgöngur og skapa fjölbreytilegri samfélög um allt land.

Tveir þriðju hlutar þjóðarinnar búa nú á einu atvinnusvæði í skilgreindu borgarsamfélagi sem nær frá Borgarnesi um Reykjavík og Suðurnes og austur að Þjórsá.

Annað skilgreint borgarsamfélag tæplega 20 þúsund manna er á milli Tröllaskaga og Skjálfandafljóts.

Aðeins fjórðungur landsmanna er utan þessara tveggja svæða.

Engu að síður er það staðreynd að stór hluti þjóðarinnar telur nauðsynlegt að mismunandi landshlutar eigi kost á að velja sér fulltrúa, líkt og gert er í öllum löndum sem við þekkjum í okkar heimshluta nema í Hollandi og Ísrael.

Ég tel að meirihlutinn eigi ekki að geta skipað svo fyrir að minnihlutinn skipti um skoðun, heldur sé það fyrirhafnarinnar virði að sjá, hvort hægt sé að sætta sjónarmiðin.

Nokkur stefnumið -9- 

Menn hafa séð fyrir sér að átök og ágreiningur yrði um þessi mál hjá okkur og stjórnlaganefnd hefur varpað því fram að gefinn verði tveggja ára frestur, þá væntanlega á vegum Alþingis, til að ganga frá þeim.

Ég tel hins vegar að við eigum ekki að óreyndu að víkja þessu viðfangsefni frá okkur og set þessar hugmyndir mínar fram nú en ekki síðar til þess að meiri tími gefist til að skoða þær eða aðrar hugmyndir sem gætu náð fram málamiðlun í þessu máli án þess að þær tefji fyrir úrlausn annarra viðfangsefna okkar.

Í ljósi reynslunnar af 67 ára árangursleysi alþingismanna við að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá sýnast mér vera litlar líkur á því að þeir muni finna lausn á þessu máli frekar en við, heldur þvert á móti.

Lokaorð mín felast í tveimur tilvitnunum í ólíkt fólk.

Margrét Sigurðardóttir, Manga með svartan vanga, aldin förukona og niðursetningur í Langadalnum forðum daga, sagði við mig barnungan: „Það stekkur enginn lengra en hann hugsar. Vertu ekki hræddur við að eiga þér draum."

Harley Earl, frægasti bílahönnuður Bandaríkjanna, gaf starfsmönnum sínum þessa leiðsögn við verk þeirra: „Go all the way, - then back off."

Nokkur stefnumið -10-

Sem sagt; að hugsa fyrst alla leið og hörfa þá fyrst til baka þegar það er óhjákvæmilegt.

Horfum fram á hamingjudag!
Hress við skulum nú taka þann slag!
Fylkjum liði, fólkinu í hag!
Frelsi - jafnrétti - samkomulag.