Fylgiskjal
Tekið fyrir: 7. ráðsfundur
Breytingartillaga nr. 3 á 7. ráðsfundi – IJ, KO, ÞG
Tillaga Illuga Jökulssonar, Katrínar Oddsdóttur og Þorvalds Gylfasonar að breytingu á tillögu nefndar C um nýja stjórnarskrárgrein um Lögréttu
Forseti Íslands skipar í Lögréttu fimm menn til fjögurra ára, þar af einn án tilnefningar, einn að tillögu Alþingis, einn að tillögu Hæstaréttar og tvo þjóðkjörna fulltrúa. Alþingismenn, ráðherrar og dómarar eru ekki kjörgengir til Lögréttu.
Álit Lögréttu skulu vera rökstudd og ræður meirihluti Lögréttu niðurstöðu þess hverju sinni.
Ef vafi leikur á hvort frumvarp til laga samrýmist stjórnarskrá þessari [eða þjóðréttarskuldbindingum ríkisins] getur forseti Alþingis, sú þingnefnd sem fjallað hefur um frumvarpið, þriðjungur þingmanna eða sjöttungur kjósenda samkvæmt kjörskrá borið það álitaefni undir Lögréttu eftir að frumvarpið hefur verið afgreitt til annarrar umræðu, sbr. [44.] gr. Telji Lögrétta að frumvarpið brjóti í bága við stjórnarskrána [eða þjóðréttarskuldbindingar ríkisins] má ekki samþykkja það nema því sé breytt í samræmi við álit Lögréttu.
Ef vafi leikur á hvort athöfn eða athafnaleysi einhvers af handhöfum framkvæmdarvalds, þar með talin útgáfa bráðabirgðalaga, sbr. [28.] gr., eða setning stjórnvaldsfyrirmæla, samrýmist stjórnarskrá þessari [eða þjóðréttarskuldbindingum ríkisins] getur forseti Íslands, ráðherra, forseti Alþingis eða þriðjungur þingmanna borið það álitaefni undir Lögréttu. Handhafar framkvæmdarvalds eru bundnir af áliti Lögréttu og er þeim skylt að breyta í samræmi við það. Um viðurlög við brotum gegn stjórnarskrá þessari skal kveðið á í lögum.
Ef alþingismenn greinir á um hvort þingmaður sé löglega kosinn eða hafi misst kjörgengi, sbr. [46.] gr., getur sérhver þingmaður borið það ágreiningsefni undir Lögréttu sem sker endanlega úr þeim ágreiningi.