Fylgiskjal
Tekið fyrir: 7. ráðsfundur
Tillögur nefndar A frá 6. fundi til afgreiðslu á 7. fundi
Tillaga 1 - ný grein
Nýrri 1. grein verði bætt fremst í áfangaskjal.
Greinargerð: Nefnd A leggur til að stjórnarskráin hefjist á inngangsorðum, þar sem tiltekin eru þau gildi sem liggja stjórnarskránni til grundvallar. Verði sérstaklega litið til niðurstöðu þjóðfundar, þar sem áhersla var m.a. lögð á lýðræði, frið, frelsi, sjálfbærni, jafnrétti, menningu, valddreifingu og ábyrgð. Texti 1. greinar verði unninn sameiginlega af öllum fulltrúum Stjórnlagaráðs, eftir því sem starfinu vindur fram.
Hér hefur verið tekið tillit til umræðu á 6. ráðsfundi og orðunum „frelsi" og „menningu" bætt við upptalninguna. Þó skal ekki líta svo á að um tæmandi upptalningu sé að ræða.
Tillaga 2 - mannréttindakafli færður
VII. kafli núgildandi stjórnarskrár færist fremst í áfangaskjal.
Greinargerð: Lagt er til að vægi mannréttinda sé aukið til muna, með því að færa aftasta kafla stjórnarskrárinnar fremst í áfangaskjalið. Með þessu telur nefnd A komið til móts við skýra kröfu þjóðfundar og að betur endurspeglist sú frumskylda ríkisvaldsins að verja þá einstaklinga sem í landinu búa gegn hvers kyns misrétti. Uppröðun og efnislegt innihald kaflans mun taka breytingum á síðari stigum.