Fylgiskjal

Tekið fyrir: 4. ráðsfundur

Tillaga nefndar skipaðrar á fundi Stjórnlagaráðs 13. apríl 2011 um niðurröðun verkefna á nefndir

Nefndin fékk tvö verkefni, annars vegar að gera tillögu um grunn að áfangaskjali skv. 14. gr. starfsreglna og hins vegar að gera tillögu um tölu nefnda skv. 2. mgr. 4. gr. sömu reglna svo og um skiptingu starfa á milli þeirra. Hér verður gerð grein fyrir niðurstöðu nefndarinnar um seinna atriðið.

Nefndin leggur til að nefndirnar verði þrjár og a.m.k. í byrjun fái þær ekki önnur auðkenni en bókstafina A, B og C, þannig að nöfn þeirra verði ekki gildishlaðin. Þá leggur nefndin til að í upphafi verði einungis þeim verkefnum sem tilgreind eru í ályktun Alþingis skipt á milli nefndanna enda eru þetta þau atriði sem Stjórnlagaráði ber sérstaklega að fjalla um.

Þessum verkefnum verði skipt sem hér segir (upptalningin er í stafrófsröð undir hverri nefnd):

Nefnd A

  • Framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála.
  • Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar.
  • Umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda.

Nefnd B

  • Hlutverk og staða forseta lýðveldisins.
  • Skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra.

Nefnd C

  • Ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan.
  • Lýðræðisleg þátttaka almennings, m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag.
  • Sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds.

Nefndin bendir á að eftirfarandi kaflar í núgildandi stjórnarskrá falla utan efnisupptalningar þingsályktunarinnar. (Undirheiti kafla eru nefndarinnar, en finnast ekki í stjórnarskránni sjálfri):

IV. kafli:

  • Störf Alþingis

VI. kafli:

  • Trúmál

VII. kafli:

  • Mannréttindi
  • Sveitarfélög
  • Breytingar á stjórnarskrá

Vilji Stjórnlagaráð taka einhverja eða alla þessa efnisþætti – eða enn aðra þætti – til efnislegrar meðferðar þarf fyrst að taka ákvörðun þar um áður en unnt er að gera tillögu um niðurröðun þeirra á nefndir.