4. ráðsfundur

14.04.2011 13:00

Dagskrá:
 1. Fundargerðir fyrri ráðsfunda lagðar fram.
 2. Tillaga um tölu verkefnanefnda og skiptingu málefna með þeim.

Fylgiskjöl:

  Fundargerð

  4. ráðsfundur - haldinn 14. apríl 2011, kl. 13.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

  Mættir voru eftirtaldir fulltrúar: Ari Teitsson, Arnfríður Guðmundsdóttir, Dögg Harðardóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson, Erlingur Sigurðarson, Freyja Haraldsdóttir, Gísli Tryggvason, Guðmundur Gunnarsson, Illugi Jökulsson, Katrín Fjeldsted, Katrín Oddsdóttir, Lýður Árnason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson, Pawel Bartoszek, Pétur Gunnlaugsson, Salvör Nordal, Silja Bára Ómarsdóttir, Vilhjálmur Þorsteinsson, Þorkell Helgason, Þorvaldur Gylfason, Þórhildur Þorleifsdóttir og Örn Bárður Jónsson.

  Forföll höfðu boðað eftirtaldir fulltrúar: Andrés Magnússon, Ástrós Gunnlaugsdóttir og Íris Lind Sæmundsdóttir.

  Þá sat fundinn Þorsteinn Fr. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Stjórnlagaráðs.

  Fundurinn var opinn fyrir gesti og sýndur í beinni útsendingu á vefnum stjornlagarad.is.

  Til fundarins var boðað af hálfu stjórnar með tölvupósti miðvikudaginn 13. apríl 2011 og dagskrá í samræmi við fundarboð.

  1. Setning fundar
  Formaður, Salvör Nordal, setti fundinn og stýrði honum.

  2. Fundargerðir fyrri ráðsfunda lagðar fram
  Drög að fundargerðum 1. og 2. ráðsfundar voru sendar fulltrúum í gær með tölvupósti og lagðar fram á fundinum til kynningar einungis.

  Þegar svokallað innra net Stjórnlagaráðs væri komið upp myndu fundargerðir verða settar þar inn. Fulltrúar myndu fá tilkynningu um þetta hverju sinni og gefinn frestur til athugasemda.

  3. Tillaga um tölu verkefnanefnda og skiptingu málefna með þeim
  Á ráðsfundi í gær var skipuð nefnd til að gera tillögur um tölu verkefnanefnda og skiptingu málefna með þeim. Niðurstöður nefndarinnar um tvö aðskilin atriði lágu nú fyrir, nánar tiltekið tillaga um niðurröðun verkefna á nefndir og tillaga um svokallað áfangaskjal. Tillögur þessar höfðu verið sendar fulltrúum og lágu fyrir fundinum. Þær eru fylgiskjöl með fundargerð þessari.

  Stjórn lagði til að fyrst yrði fjallað um tillögu varðandi áfangaskjal. Tillagan yrði kynnt, um hana rætt og hún væntanlega afgreidd að því loknu. Þessu næst yrði fjallað um fjölda nefnda og málefnaskiptingu. Tillagan yrði kynnt, um hana rætt og hún væntanlega afgreidd að því loknu.

  Formaður spurði hvort gerðar væru athugasemdir við þessa málsmeðferð. Svo var ekki og formaður gaf talsmönnum hópsins, þeim Pawel Bartoszek og Eiríki Bergmann Einarssyni, orðið.

  3.1 Tillaga um áfangaskjal
  Tillagan var send fulltrúum í gær með tölvupósti.

  Pawel Bartoszek tók til máls og kynnti tillöguna. Í máli hans kom meðal annars fram að tvær skoðanir hefðu verið í nefndinni um hvernig ætti að hefjast handa. Annars vegar hefði verið það sjónarmið að fyrsta gerð áfangaskjals ætti að vera núverandi stjórnarskrá. Það væri sjónarmið hans sjálfs. Hins vegar hefði verið það sjónarmið að byrja ætti að einhverju leyti frá grunni. Fyrir því hefði Eiríkur Bergmann Einarsson mælt hvað harðast.

  Niðurstaðan væri málamiðlun. Tillagan fæli því í sér ákveðna byrjun og gæfi möguleika á því að hefjast handa og taka svo ákvörðun um einstök mál og uppröðun þeirra þegar að því liði.

  Í skjalinu væri gerð tilraun til að sætta þessi tvö sjónarmið með myndrænni framsetningu. Kaflaheiti miðist við núverandi stjórnarskrá en því væri hægt að breyta eins og öðru í skjalinu. Þar á eftir kæmu jafngildir valkostir, nánar tiltekið A og B. Valkostur A væri texti úr núverandi stjórnarskrá en valkostur B ný ákvæði. Hið síðarnefnda gæfi til kynna að ráðið áskildi sér rétt til að skrifa nýjan texta. Ráðið þyrfti að samþykkja annað hvort texta úr valkosti A eða B. Í lokin væru tveir auðir kaflar sem stæðu fyrir auðlindir og utanríkismál. Þetta væru þeir kaflar sem þingsályktunin reiknaði með að ráðið tæki fyrir og þessir auðu kaflar settir inn til marks um að hægt væri að ákveða að bæta við slíkum köflum og finna þeim stað síðar meir.

  Eiríkur Bergmann Einarsson tók til máls og kynnti tillöguna. Hann ítrekaði að skjalið fæli í sér málamiðlun, eftir miklar umræður.

  Formaður þakkaði fyrir útskýringar á tillögunni og gaf orðið laust.

  Eftirtaldir fulltrúar tóku til máls: Illugi Jökulsson, Katrín Oddsdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir, Pawel Bartoszek, Eiríkur Bergmann Einarsson, Gísli Tryggvason, Pawel Bartoszek, Katrín Fjeldsted, Vilhjálmur Þorsteinsson, Eiríkur Bergmann Einarsson, Þórhildur Þorleifsdóttir, Örn Bárður Jónsson, Þorkell Helgason, Eiríkur Bergmann Einarsson, Pawel Bartoszek, Ómar Þorfinnur Ragnarsson, Lýður Árnason, Erlingur Sigurðarson, Arnfríður Guðmundsdóttir og Illugi Jökulsson.

  Guðmundur Gunnarsson vék af fundi kl. 13.28.

  Formaður lýsti því að mælendaskrá væri tæmd og bar tillöguna upp til atkvæðagreiðslu.

  Við atkvæðagreiðslur á fundinum var skráð niður hvernig hver fulltrúi varði atkvæði sínu.

  Samþykkir: 15
  Á móti: 1
  Sitja hjá: 5
  Fjarverandi: 4

  Tillagan var því samþykkt.

  3.2 Tillaga um niðurröðun verkefna á nefndir
  Tillagan var send fulltrúum seint í gær með tölvupósti.

  Formaður varpaði fram þeirri hugmynd að næstu þrjá vinnudaga skiptu fulltrúar sér upp í þrjá vinnuhópa (A, B og C) sem dregið yrði um setu í. Fyrir fundinum lægi tillaga sem Þorkell Helgason myndi kynna en það væri bráðabirgðatillaga. Í hugmyndinni um vinnuhópana fælist að ekki yrði tekin afstaða til málefnaskiptingar nefnda fyrr en á þriðjudag.

  Formaður bauð fulltrúum að tjá sig um þetta og eftirtaldir tóku til máls: Gísli Tryggvason, Silja Bára Ómarsdóttir, Þorvaldur Gylfason og Þorkell Helgason.

  Í máli Þorkels komu fram skýringar á tillögu um skiptingu verkefna á milli nefnda. Niðurstaðan hefði verið sú að leggja til að nefndirnar yrðu þrjár. Fyrir lægi að starfsfólk gæti annað 3-4 nefndum. Á milli nefndanna hefði verið skipt átta atriðum. Hópurinn liti svo á að ekki væri fært að fjalla um fleiri atriði en nefnd væru í ályktun Alþingis nema ráðsfundur ákvæði svo. Síðar mætti færa verkefni á milli nefnda og bæta inn efnisatriðum, kæmu fram tillögur um slíkt.

  Umræðan hélt áfram og eftirtaldir tóku til máls: Gísli Tryggvason, Pawel Bartoszek, Vilhjálmur Þorsteinsson, Silja Bára Ómarsdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir, Ari Teitsson, Dögg Harðardóttir, Katrín Oddsdóttir, Silja Bára Ómarsdóttir, Gísli Tryggvason, Þorvaldur Gylfason, formaður, Þorkell Helgason, Katrín Oddsdóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson, Pétur Gunnlaugsson, formaður, Pawel Bartoszek, Freyja Haraldsdóttir og Gísli Tryggvason.

  3.3 Breytingartillögur við tillögu um niðurröðun verkefna á nefndir

  Fram komu fjórar breytingartillögur:

  I. Flutningsmaður: Silja Bára Ómarsdóttir
  • Ég legg hér með til að afgreiðslu tillögu um fjölda nefnda verði frestað þar til á þriðjudag.

  II. Flutningsmaður: Silja Bára Ómarsdóttir
  • Ég legg til að nefndirnar verði fjórar.

  III. Flutningsmaður: Gísli Tryggvason
  • „Starfshópur til bráðabirgða" komi í stað „verkefnanefnd" - sem ákveðnar verða í næstu viku er ný málefni og fjöldi nefnda verði ákveðin.

  IV. Flutningsmenn: Katrín Oddsdóttir, Katrín Fjeldsted og Þorvaldur Gylfason
  • Eftirfarandi efnisleg breyting verði gerð á efnistökum nefnda:
  • „Mannréttindi" færist yfir sem efnisatriði í nefnd A.
  • Efnisatriðið „Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunntök hennar" færist frá nefnd A og yfir í nefnd B.
  • Skipan nefnda og efnistök verða þá:
  • Nefnd A:
  • Framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála
  • Umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda
  • Mannréttindi
  • Nefnd B:
  • Hlutverk og staða forseta lýðveldisins
  • Skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra
  • Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar
  • Nefnd C:
  • [Óbreytt]

  Formaður gerði stutt fundarhlé.

  3.4 Sáttatillaga stjórnar

  Að fundarhléi loknu lagði formaður fram eftirfarandi sáttatillögu:

  Skipaðir verða þrír óformlegir starfshópar, sem starfa fram að næsta ráðsfundi. Þeir fjalli um eftirfarandi málefni:

  Hópur A:
  • Framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála.
  • Umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda
  • Mannréttindi

  Hópur B:
  • Hlutverk og staða forseta lýðveldisins
  • Skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra
  • Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar

  Hópur C:
  • Ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan
  • Lýðræðisleg þátttaka almennings, m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag
  • Sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds

  Hlutkesti ráði því hvernig fulltrúar skipist í starfshópa. Á næsta ráðsfundi verður fjallað nánar um skiptingu málefna í fastar verkefnanefndir og stefnt að því að ljúka skipan fólks í nefndir.

  Ekki komu fram athugasemdir við þetta en eftirtaldir fulltrúar tóku til máls: Dögg Harðardóttir, formaður, Dögg Harðardóttir, varaformaður, Þorvaldur Gylfason, formaður, Silja Bára Ómarsdóttir, Lýður Árnason, Þórhildur Þorleifsdóttir, Þorkell Helgason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson, formaður, Vilhjálmur Þorsteinsson, Erlingur Sigurðarson, Ómar Þorfinnur Ragnarsson, Pawel Bartoszek, Eiríkur Bergmann Einarsson og Katrín Oddsdóttir.

  Sáttatillaga stjórnar var borin undir atkvæðagreiðslu.

  Samþykkir: 19
  Á móti: 0
  Sitja hjá: 2
  Fjarverandi: 4.

  Tillagan var því samþykkt.

  Gísli Tryggvason fékk orðið og tók til máls.

  4. Næsti fundur

  Fundarstjóri gerði grein fyrir því að næsti fundur Stjórnlagaráðs yrði haldinn þriðjudaginn 19. apríl, kl. 13.00.

  Fjarverandi fulltrúar voru dregnir í starfshópa svo sem hér segir:
  • Andrés: Hópur C
  • Ástrós: Hópur B
  • Guðmundur: Hópur A
  • Íris Lind: Hópur A

  Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.15.

  Fundargerð ritaði Sif Guðjónsdóttir.