Mannréttindi

Ummæli:

  1. Öllum skal tryggður réttur til lífs og til að lifa með mannlegri reisn í réttlátu samfélagi. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.

  2. Allir eru jafnir fyrir lögum og skulu njóta mannréttinda án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.

    Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

  3. Allir skulu njóta mannhelgi og verndar gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi, innan heimilis og utan.

  4. Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.

    Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

  5. Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst og skulu ráðstafanir yfirvalda í málum sem varða börn taka mið af því sem þeim er fyrir bestu.

    Barni skal tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í öllum málum sem það varðar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana í samræmi við aldur þess og þroska.

  6. Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.

    Hver maður á rétt á að tjá hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.

    Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum til verndar öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

  7. Fræðafrelsi

    Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða, lista og menntunar.

  8. Trúfrelsi

    Sérhver maður á rétt á að vera frjáls hugsana sinna, sannfæringar og lífsskoðunar. Felur sá réttur í sér frelsi hvers og eins til að iðka trú sína, einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi.

    Öllum er frjálst að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga.

    Stjórnvöldum ber að vernda öll skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.

  9. Þjóðkirkja

    Valkostur 1:
    Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi.

    Valkostur 2:
    [Ákvæðið falli brott.]

  10. Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi.

    Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

  11. Rétt eiga menn á að safnast saman vopnlausir. Lögreglunni er heimilt að vera við almennar samkomur.

  12. Rétt til íslensks ríkisfangs öðlast þeir sem eiga foreldri með íslenskt ríkisfang. Ríkisborgararéttur verður að öðru leyti veittur samkvæmt lögum. Engan má svipta íslenskum ríkisborgararétti.

    Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi. Með lögum skal skipað rétti útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér, svo og fyrir hverjar sakir sé hægt að vísa þeim úr landi.

    Engum verður meinað að hverfa úr landi nema með ákvörðun dómstóla. Stöðva má þó brottför manns úr landi með lögmætri handtöku.

    Allir, sem dveljast löglega í landinu, skulu ráða búsetu sinni og vera frjálsir ferða sinna með þeim takmörkunum sem eru settar með lögum.

  13. Engan má svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum.

    Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi á rétt á að fá að vita tafarlaust um ástæður þess.

    Hvern þann sem er handtekinn vegna gruns um refsiverða háttsemi skal án undandráttar leiða fyrir dómara. Sé hann ekki jafnskjótt látinn laus skal dómari, áður en sólarhringur er liðinn, ákveða með rökstuddum úrskurði hvort hann skuli sæta gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhaldi má aðeins beita fyrir sök sem fangelsisvist liggur við. Með lögum skal tryggja rétt þess sem sætir gæsluvarðhaldi til að skjóta úrskurði um það til æðra dóms. Maður skal aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur.

    Hver sá sem er af öðrum ástæðum sviptur frelsi á rétt á að dómstóll kveði á um lögmæti þess svo fljótt sem verða má. Reynist frelsissvipting ólögmæt skal hann þegar látinn laus.

    Hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skal hann eiga rétt til skaðabóta.

  14. Engum verður gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð þegar hún átti sér stað. Viðurlög mega ekki verða þyngri en þá voru leyfð í lögum.

  15. Í lögum má aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu.

    Engan má beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

    Nauðungarvinnu skal engum gert að leysa af hendi.

  16. Herskyldu má aldrei í lög leiða.

  17. Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Dómþing skal háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta öryggis eða réttinda málsaðila.

    Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.

  18. Heilbrigðisþjónusta

    Öllum skal tryggður með lögum réttur til heilbrigðisþjónustu sem miðar að líkamlegri og andlegri heilsu að hæsta marki sem unnt er.

  19. Menntun

    Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar.

    Öllum skal standa til boða grunnskólamenntun án endurgjalds.

    Menntun skal miða að fullum þroska hvers og eins, gagnrýnni hugsun og vitund um réttindi og skyldur.

  20. Atvinna

    Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum ef almannahagsmunir krefjast.

    Í lögum skal kveða á um rétt til mannsæmandi vinnuskilyrða, sanngjarnra launa og til að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu.

  21. Félagslegt öryggi

    Öllum skal tryggður réttur til lífsviðurværis og félagslegs öryggis.

    Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til félagslegrar aðstoðar og almannatrygginga, svo sem vegna atvinnuleysis, elli, fátæktar, fötlunar, veikinda, örorku eða sambærilegra aðstæðna.

  22. Eignarréttur

    Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

    Eignarrétti fylgja lögbundnar takmarkanir og skyldur. Nýting eignarréttar skal ekki ganga gegn almannahag.

  23. Menningarleg verðmæti

    Þjóðareignir sem heyra til íslenskum menningararfi, svo sem þjóðminjar og fornhandrit, má hvorki eyðileggja né afhenda til varanlegrar eignar eða afnota, selja eða veðsetja.

  24. Náttúruauðlindir

    Náttúruauðlindir Íslands eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Þær ber að nýta á sjálfbæran hátt til hagsbóta öllum landsmönnum. Enginn getur fengið þær til varanlegrar eignar eða afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja.

    Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds vernda auðlindirnar og geta veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra gegn fullu gjaldi og til hóflegs tíma í senn. Slík leyfi leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

    Auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu eru þjóðareign. Til auðlinda í þjóðareign teljast jafnframt náttúrugæði, sem ekki eru í einkaeigu, svo sem nytjastofnar, landsvæði, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi.

  25. Náttúra Íslands

    Náttúra Íslands er friðhelg. Hverjum og einum ber að virða hana og vernda.

    Nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar skal haga svo að þær skerðist ekki til langframa og réttur komandi kynslóða sé virtur.

    Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni og óspilltri náttúru til lands, lofts og sjávar þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið og fyrri spjöll bætt eftir föngum.

    Almenningi er frjálst að fara um landið eins og lög leyfa.

  26. Upplýsingaskylda og samráð

    Stjórnvöldum ber að upplýsa almenning um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það.

    Með lögum skal tryggja almenningi rétt til þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem hafa áhrif á umhverfið.

    Réttur almennings til aðildar að dómsmálum varðandi mikilvægar ákvarðanir um sameiginlegar auðlindir og umhverfi Íslands skal tryggður með lögum.

  27. Dýravernd

    Með lögum skal kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð og dýrategunda gegn útrýmingu.

    Við nýtingu dýrastofna og annars lífríkis skal gæta virðingar fyrir öllum lifandi verum.

  28. Skyldur samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum

    Öllum handhöfum ríkisvalds ber að virða mannréttindareglur sem bindandi eru fyrir ríkið að þjóðarétti og tryggja með lögum að eftir þeim sé farið.

    Reglur um mannréttindi njóta stjórnarskrárverndar þegar þær skuldbinda ríkið samkvæmt staðfestum milliríkjasamningi.

Upplýsingar

11. ráðsfundur: Kafli til kynningar

Skoða eldri útgáfur.

Skýringar frá nefnd

  1. Ný grein.
    Byggist m.a. á samningi um réttindi fatlaðs fólks (UN Convention on the Rights of People with Disabilities).
    Er ætlað að tryggja einstaklingum möguleika til fullrar þátttöku og virkrar aðildar í samfélaginu.
    Réttur til lífs skv. 2. grein mannréttindasáttmála Evrópu.
  2. Er 65. grein núgildandi stjórnarskrár.
    „Manngreinarálit“ er sett inn til samræmis við 26. grein alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (e. discrimination).
    Atriðum raðað í stafrófsröð á eftir orðinu „kynferði“.
    Við bætist „aldurs,“ „búsetu,“ „fötlunar“ og „kynhneigðar“ skv. tillögu í skýrslu stjórnlaganefndar. „Aldur“ og „búseta“ voru í hornklofa í skýrslu stjórnlaganefndar, hér eru orðin sett inn til umræðu.
    Við bætist „arfgerð,“ m.a. vegna erindis til nefndarinnar.
    Við bætist „stjórnmálatengsla“ til að bregðast við stöðu í þjóðfélaginu.
    „Þjóðernisuppruni“ verður „uppruni“.
    „Kynþáttur“ fellur út, enda hugtakið ekki notað lengur meðal fræðimanna.
  3. Ný grein.
    Undirstrikað hversu mikið samfélagsmein ofbeldi er.
    Var kynnt sem hluti af grein um friðhelgi einkalífs á ráðsfundi 6. maí, er nú sjálfstæð grein.
  4. Er 71. grein núgildandi stjórnarskrár, efnislega óbreytt.
    Málsgrein um mannhelgi, sem var kynnt sem hluti þessarar greinar á ráðsfundi 6. maí, gerð að sjálfstæðri grein.
  5. Er 73. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegra breytinga.
    „Öryggi“ ætlað að ná til ríkis og almennings.
    Skoða þarf hvort orðin „siðgæði“ og „allsherjarregla“ séu nauðsynleg.
  6. Er 3. mgr. 76. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Gert að sjálfstæðri grein skv. tillögu í skýrslu stjórnlaganefndar.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 3. og 12. greinar samnings um réttindi barnsins.
    Efnisbreytingar frá því sem kynnt var á ráðsfundi 6. maí, til að bregðast við innsendu erindi
    Unicef.
  7. Fræðafrelsi
    Var hluti af grein um menntun í síðustu útgáfu áfangaskjals.
    Fært úr menntagrein og gert að sjálfstæðri grein.
  8. Trúfrelsi
    Er 64. grein í núgildandi stjórnarskrá.
    Tillaga nefndar byggir á dæmi A í skýrslu stjórnlaganefndar (s. 184).
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 18. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu
    þjóðanna og 9. grein mannréttindasáttmála Evrópu, sem Ísland er þegar aðili að:
    Vernd trú- og lífsskoðunarfélaga miði að umburðarlyndi og virðingu í samfélaginu.
    Með lífsskoðunarfélagi er átt við félag sem löggjafinn hefur viðurkennt á einhvern
    hátt, byggist á frjálsri aðild félaga og hefur eftirfarandi að markmiðum sínum og
    starfsvettvangi:
    Siðferði og siðfræði: Umræða um siðferðisgildi og hvernig best er að leysa
    siðferðileg álitamál.
    Fjölskyldan og félagslegar athafnir: Framkvæmd félagslegra athafna
    fjölskyldunnar (ferming, gifting, nafngjöf og útför) á tímamótum samkvæmt
    lífssýn félaga.
  9. Þjóðkirkja:
    Er 62. grein í núgildandi stjórnarskrá.
    Tillagan byggir á dæmi B í skýrslu stjórnlaganefndar (s. 201).
    Valkostur settur fram með það í huga að þjóðin greiði sérstaklega atkvæði um þessa
    grein þegar tillögur Stjórnlagaráðs eru lagðar fyrir hana.
  10. Er 1. og 2. mgr. 74. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Félagafrelsi gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí.
  11. Er 3. mgr. 74. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Fundafrelsi gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí.
    Fellt brott, í samræmi við umræður við áfangaskjal: „Banna má mannfundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir.“
  12. Er 66. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Í samræmi við núverandi löggjöf er felld brott setningin „Með lögum má þó ákveða að maður missi þann rétt ef hann öðlast með samþykki sínu ríkisfang í öðru ríki.“
    Bætt við skilgreiningu á veitingu ríkisborgararéttar, í samræmi við umræður á ráðsfundi 6. maí og við áfangaskjal. Sú tillaga er sett fram til að fá fram frekari umræðu, sem nefndin getur tekið tillit til á síðari stigum.
  13. Er 67. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Varðhald fellt út, þar sem það hefur verið aflagt sem refsiúrræði.
    Heimild dómara til að láta menn lausa gegn tryggingu felld út í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí. Heimildin þyki bjóða upp á misskilning um réttarstöðu og mismunun á grundvelli efnahags – en henni hefur aldrei verið beitt.
  14. Er 1. mgr. 69. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegrar breytingar.
    Kanna þarf hvort þörf sé á að hverfa að einhverju leyti aftur til fyrri texta, sérstaklega hvað varðar hina fullkomnu lögjöfnun sem er sterkari í þessu ákvæði en almennum lögum.
  15. Er 68. grein og 2. mgr. 69. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Bann við herskyldu fært úr þessari grein í kjölfar umræðu á ráðsfundi 6. maí.
  16. Ný grein.
    Bætt er við banni við herskyldu, m.a. til að bregðast við kröfu þjóðfundar og innsendum erindum.
    Bann við herskyldu gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðu á ráðsfundi 6. maí.
  17. Er 70. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegrar breytingar.
    „Öryggi“ nær til ríkis og almennings.
    Skoða þarf hvort orðin „velsæmi“ og „allsherjarregla“ séu nauðsynleg.
  18. Litið hefur verið á að 1. mgr. 76. greinar í núgildandi stjórnarskrá hafi tryggt fólki réttinn til heilbrigðisþjónustu.
    Brugðist við kröfu þjóðfundar:
    Skýrsla stjórnlaganefndar, s. 83: „Þá koma fram viðhorf um verndun velferðarkerfisins, jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu óháð tekjum og búsetu [...]".
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 12. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til þess að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er."
  19. Byggir á 2. mgr. 76. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 13. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „skuli barnafræðsla vera skyldubundin og öllum tiltæk án endurgjalds."
    Skyldu til að veita menntun án endurgjalds á ekki að skilja sem bann við einkaskólum.
  20. Byggir á 75. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 6. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt manna til vinnu, sem felur í sér rétt sérhvers manns til þess að hafa tækifæri til þess að afla sér lífsviðurværis með vinnu sem hann velur sér eða tekur að sér af frjálsum vilja, og munu ríkin gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja þennan rétt."
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 7. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til þess að njóta sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða sem tryggja sérstaklega [...] sanngjarnt kaup og jafnt endurgjald fyrir jafnverðmæta vinnu án nokkurrar aðgreiningar."
    Sambærilegt ákvæði er í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er þegar aðili að.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 23. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Allir eiga rétt til atvinnu að frjálsu vali, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða og til verndar gegn atvinnuleysi."
    Vernd gegn atvinnuleysi er í sömu grein, en er ekki sett í áfangaskjalið að sinni: „Allir eiga rétt til atvinnu að frjálsu vali, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða og til verndar gegn atvinnuleysi."
  21. Byggir á 1. mgr. 76. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 25. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra."
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 9. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til félagslegs öryggis, þar á meðal til almannatrygginga"
    Færir stjórnarskrá til samræmis við Félagsmálasáttmála Evrópu , sem Ísland er þegar aðili að.
  22. Byggir á 72. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Litið til 14. gr. þýsku stjórnarskrárinnar, sem tengir saman eignarétt og skyldur sem honum fylgja.
    Þess eru mörg dæmi að eignarétti fylgi skyldur, svo sem á grundvelli byggingar- og skipulagslaga, vatnalaga og nábýlisréttar. Það er ekki verið að breyta inntaki eignaréttar frá því sem nú er heldur endurspegla núverandi réttarástand.
    Dregið úr mismunun á grundvelli þjóðernis, með því að fella brott sérstaka heimild til að takmarka eignarhald erlendra aðila. Ný 2. mgr. tryggir stjórnvöldum áfram þann möguleika að takmarka eignarhald.
  23. Nýtt ákvæði.
    Byggir m.a. á 1. grein þjóðminjalaga nr. 107/2001.
    Menningarverðmætum veitt sambærileg vernd þeirri sem veitt er náttúruauðlindum í tillögum nefndarinnar.
    Nánar þarf að skoða hvernig greinin snerti handritagjöf Dana.
  24. Nýtt ákvæði.
    Brugðist við kröfu þjóðfundar:
    Skýrsla stjórnlaganefndar, s. 75: „Það viðhorf var áberandi á þjóðfundi að mæla bæri fyrir um auðlindir þjóðarinnar í stjórnarskrá. Náttúruauðlindir hvort heldur í lofti, láði eða legi, skuli skilgreina sem „eign þjóðarinnar". Reglur um nýtingu auðlinda verði skýrar og horfi til komandi kynslóða og arður af nýtingu auðlinda renni að meginhluta til þjóðarinnar."
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 2. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Allar þjóðir mega, í sínu eigin markmiði, ráðstafa óhindrað náttúruauðæfum og auðlindum sínum brjóti það ekki í bága við neinar skuldbindingar sem leiðir af alþjóðlegri efnahagssamvinnu, byggðri á grundvallarreglunni um gagnkvæman ábata, og þjóðarétti. Aldrei má svipta þjóð ráðum sínum til lífsviðurværis."
  25. Nýtt ákvæði.
    Umhverfisvernd bætt við í samræmi við tillögur stjórnlaganefndar, líkt og gert er með náttúruauðlindir.
  26. Ákvæði bætt inn í mannréttindakaflann í samræmi við tillögu stjórnlaganefndar.
    Gengið lengra en stjórnlaganefnd leggur til, að því leyti að lögð er frumkvæðisskylda á hið opinbera.
    Tekið tillit til innsendra erinda.
    Þarf að skoða í samhengi við ákvörðun nefndar B um almenna samráðsskyldu stjórnvalda, að sænskri fyrirmynd.
  27. Nýtt ákvæði þar sem brugðist er við innsendum erindum og athugasemdum á heimasíðu Stjórnlagaráðs.
  28. Nýtt ákvæði í samræmi við tillögur stjórnlaganefndar.
    Þarf að skoða í samhengi við ákvörðun nefndar C um fullgildingarákvæði í utanríkismálakafla stjórnarskrárinnar.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.