Dómsvald

Ummæli:

  1. Skipan dómstóla

    Skipan dómstóla, þar á meðal dómstig og fjöldi dómara, skal ákveðin með lögum.

  2. Sjálfstæði dómstóla

    Sjálfstæði dómstóla skal tryggt með lögum. Dómstólar mega hvorki sinna störfum sem samkvæmt venju eða eðli sínu heyra undir aðra valdþætti ríkisins né má fela þeim slíkt með lögum.

  3. Lögsaga dómstóla

    Dómstólar skera endanlega úr um réttindi og skyldur að einkarétti, svo og um sök um refsiverða háttsemi og ákveða viðurlög við henni.

    Dómstólar skera úr um hvort lög standist stjórnarskrá.

    Dómstólar skera úr um lögmæti almennra kosninga.

    Dómstólar skera úr um hvort stjórnvöld hafi farið að lögum. Hjá ákvörðun stjórnvalds verður ekki komist í bráð með því að bera lögmæti hennar undir dóm.

  4. Hæstiréttur Íslands

    Hæstiréttur Íslands er æðsti dómstóll ríkisins og hefur hann endanlegt vald til að leysa úr öllum málum sem lögð eru fyrir dómstóla.

    Þó má ákveða með lögum að sérstakur dómstóll leysi endanlega úr ágreiningi um kjarasamninga og lögmæti vinnustöðvana, þó þannig að ákvörðunum hans um refsingu verði skotið til annarra dómstóla.

  5. Skipun dómara

    Dómarar eru þeir sem skipaðir hafa verið ótímabundið í embætti dómara eða settir til að gegna því um tiltekinn tíma. Til dómstarfa geta dómstólar ráðið eða kvatt aðra eftir því sem mælt er fyrir í lögum.

    [Forseti Íslands] skipar dómara eða setur þá í embætti og veitir þeim lausn [án tillögu ráðherra]. Tryggt skal að með lögum að hæfni og málefnaleg sjónarmið ráði við veitingu embætta dómara. Lögbundin nefnd skal meta hæfi umsækjenda. Velji forseti ekki í embætti dómara einn þeirra sem nefndin telur hæfasta er skipun háð samþykki Alþingis.

    Dómara verður ekki vikið endanlega úr embætti nema með dómi, og þá aðeins ef hann hefur glatað skilyrði til að gegna embættinu eða sinni ekki skyldum sem starfanum tengjast.

  6. Sjálfstæði dómara

    Dómarar skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögum.

  7. [...]

    Þegar Hæstiréttur dæmir um ráðherraábyrgð eða hvort lög eða hvort athafnir eða athafnaleysi stjórnvalda samrýmast stjórnarskrá, skal hann skipaður þannig að auk sjö dómara Hæstaréttar sitji þar átta menn valdir af Alþingi.

    [Nánar skal kveðið á um málsmeðferð og val dómara í lögum.]

Upplýsingar

9. ráðsfundur: Kafli

Skoða eldri útgáfur.

Skýringar frá nefnd

Kaflaheiti skýring:
Nefndin taldi rétt að vísa til þess þáttar ríkisvalds sem um er fjallað í stað þess að nefna handhafa valdsins á þessum stað.

 

  1. Óbreytt.
  2. Óbreytt
  3. Tengist nýrri 7. gr. um sérskipaðan Hæstarétt í hlutverki stjórnlagadómstóls. Þetta á ekki að breyta kröfum um lögvarða hagsmuni sem einstaklingur eða lögaðili verður að sýna fram á í dómsmáli.
    Vald fært frá Alþingi til dómstóla varðandi almennar kosningar, þjóðaratkvæðagreiðslur og aðrar atkvæðagreiðslur sem haldnar eru á vegum hins opinbera. Tengist viðbótarhlutverkum Hæstaréttar. Löggjafanum falið vald til að ákveða með lögum hvert skuli sækja mál á fyrsta stigi.
  4. Nefndin vill skerpa á að um algera undantekningu sé að ræða frá lögsögu Hæstaréttar.
  5. Ætlunin er að nefndin sé skipuð í samræmi við lög en ekki með lögum.
  6. Óbreytt
  7. Þessi grein er ný og kemur inn í stað kafla um stjórnlagaráð eða Lögréttu eins og nefndin hafði áður unnið með. Greinin fjallar um skipan Hæstaréttar þegar hann fjallar um ákveðin mál sem nánar eru nefnd, þ.e. um ráðherraábyrgð og mat á stjórnskipulegu gildi laga og stjórnarathafna.
    Lagt er í hendur Alþingis að ákveða nánar hvernig stofnunin velur einstaklinga í fjölskipaðan Hæstarétt, en ekki er gert ráð fyrir að þeir þurfi að uppfylla almenn hæfisskilyrði dómara, en hafa yfir að búa þekkingu sem nýtist.
    Ekki var samstaða um heiti greinarinnar.

 

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.