Stjórnlagaráð samþykkir kafla um utanríkismál og kafla um stjórnarskrárbreytingar
27.07.2011 15:45
Stjórnlagaráð hefur samþykkt 8. kafla um utanríkismál í drögum að nýrri stjórnarskrá. Þar er m.a. kveðið á um að heimilt sé að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal ríkisvalds skuli ávallt vera afturkræft. Með lögum skuli afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felist. Þá kemur fram að samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem feli í sér framsal ríksivalds skuli ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkra þjóðaratkvæðagreiðslu skuli vera bindandi. Þá er kveðið á um að stuðning Alþingis þurfi til að lýsa yfir stuðningi við beitingu vopnavalds.
Þá hefur 9. kafli verið samþykktur en hann fjallar um stjórnarskrárbreytingar þar m.a. kemur fram að Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarp til breytinga á stjórnarskrá skuli það borið undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.