Stjórnlagaráð samþykkir kafla um ráðherra og ríkisstjórn

27.07.2011 11:59

Stjórnlagaráð samþykkir kafla um ráðherra og ríkisstjórn

Stjórnlagaráð samþykkti rétt í þessu 5. kafla um ráðherra og ríkisstjórn í síðari umræðu um drög að nýrri stjórnarskrá. Kaflinn telur alls 12 ákvæði. Meðal nýmæla í kaflanum er að enginn getur gegnt sama ráðherraembætti lengur en í átta ár. Alþingi kýs forsætisráðherra.Kveðið er á um skyldu ráðherra til að veita upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína. Ráðherrar hafa ekki atkvæðisrétt á þingi. Sé alþingismaður skipaður ráðherra víkur hann úr þingsæti á meðan hann gegnir embættinu og varamaður tekur sæti hans. Þá er kveðið á um upplýsinga-og sannleiksskyldu ráðherra.Ráðherrar og önnur stjórnvöld veita embætti er lög mæla og við skipan í embætti skuli hæfni og málefnaleg sjónarmið ráða. Þegar ráðherra skipar í embætti dómara og ríkissaksóknara skal skipun borin undir forseta Íslands til staðfestingar. Synji forseti Íslands skipun staðfestingar þarf Alþingi að samþykkja skipunina með 2/3 atkvæða til að hún taki gildi. Loks er kveðið á um að ráðherra sé veitt lausn úr embætti ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á hann. Ríkisstjórn er veitt lausn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á forsætisráðherra.

 

Fara í fréttalista