Stjórnlagaráð samþykkir kafla um Alþingi í drögum að nýrri stjórnarskrá

26.07.2011 19:11

Stjórnlagaráð samþykkir kafla um Alþingi í drögum að nýrri stjórnarskrá

Stjórnlagaráð samþykkti í dag kafla um Alþingi í drögum að nýrri stjórnarskrá. Kaflinn telur alls 39 ákvæði. Mörg nýmæli koma fram í kaflanum sem miðar m.a. að því að styrkja störf löggjafarvaldsins og efla eftirlitshlutverk Alþingis. Áhersla er lögð á aukna lýðræðislega þátttöku almennings en samkvæmt drögunum geta tíu af hundraði kjósenda krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt og tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi. Þá geta tíu af hundraði kjósenda lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Meðal nýmæla í kaflanum er að kveðið er á um að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vegi jafnt. Kveðið er á um að kjósandi geti með persónukjöri valið frambjóðendur þvert á lista en heimilt sé að mæla fyrir um í lögum að valið sé einskorðað við kjördæmalista eða landslista sömu samtaka. Kveðið er á um að forseti Alþingis sé kosinn með 2/3 hlutum atkvæða í upphafi hvers kjörtímabils. Þá er hlutverk umboðsmanns Alþingis  stjórnarskrárbundið.  Málskotsréttur forseta Íslands verður í óbreyttu formi en ráðið féll frá fyrri tillögum um takmarkanir á málskotsrétti forsetans.

 

Fara í fréttalista