Stjórnlagaráð samþykkir kafla um mannréttindi og náttúru í drögum að nýrri stjórnarskrá
26.07.2011 16:31
Stjórnlagaráð samþykkti rétt í þessu kafla um mannréttindi og náttúru í drögum að nýrri stjórnarskrá. Kaflinn heitir nú mannréttindi og náttúra og er alls 31 ákvæði eða rúmlega helmingi fleiri ákvæði en í núgildandi stjórnarskrá. Margar nýjungar koma fram í kaflanum. Þar má telja ákvæði um náttúru Íslands og umhverfi, auðlindaákvæði þar sem kemur fram að auðlindir sem ekki eru í einkaeigu séu sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn geti fengið auðlindirnar eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota. Aldrei megi selja þær eða veðsetja. Þá kemur fram ný grein um að stjórnvöldum beri að upplýsa almenning um ástand umhverfis og náttúru og áhrif framkvæmda þar á. Jafnræðisreglan er ítarlegri en í núgildandi stjórnarskrá og sérstaklega er kveðið á um að öllum skuli tryggður réttur til að lifa með reisn. Kveðið er á um að öllum börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefjist. Sérstaklega er kveðið á um að öllum sé frjálst að safna og miðla upplýsingum og að stjórnsýsla skuli vera gegnsæ. Í nýju ákvæði um frelsi fjölmiðla kemur m.a. fram að frelsi þeirra, ritstjórnarlegt sjálfstæði og gegnsætt eignarhald skuli tryggja með lögum. Þá skuli tryggja vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara með lögum. Ný grein kemur fram um menningarverðmæti þar sem segir að dýrmætar þjóðareignir sem heyra til íslenskum menningararfi svo sem þjóðminjar og fornhandrit megi hvorki eyðileggja né afhenda til varanlegrar eignar eða afnota, selja eða veðsetja. Í kaflanum kemur enn fremur fram nýtt ákvæði um dýravernd.