17. ráðsfundur Stjórnlagaráðs

20.07.2011 11:08

Stjórnlagaráð lagði fram í vikunni fyrstu drög að nýrri stjórnarskrá. Drögin telja alls 111 stjórnarskrárákvæði og eru í níu köflum. Leiðarstefin sem ráðið hefur haft í störfum sínum eru einkum þrjú: Valddreifing, gegnsæi og ábyrgð. Frumvarpstillögurnar miða m.a. að því að bæta stjórnkerfi landsins, auka valddreifingu innan ríkisvaldsins og lýðræðislega þátttöku almennings.Einnig að efla upplýsingaskyldu opinberra aðila, tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum, jafna atkvæði allra landsmanna, tryggja frelsi fjölmiðla og efla hlutverk sveitarstjórna.

Stjórnlagaráð hefur fyrstu umræðu sína um frumvarpsdrögin á opnum ráðsfundi sem hefst kl. 13 í dag í beinni útsendingu á vef ráðsins og á vefnum ruv.is. Á fundinum verða jafnframt lagðar fram breytingartillögur við frumvarpsdrögin.  

Almenningur getur eftir sem áður gert athugasemdir við ákvæði í frumvarpsdrögunum. Margir hafa nýtt sér þennan möguleika síðustu mánuði og eru athugasemdir við svokallað áfangaskjal og frumvarpsdrögin nú orðnar tæplega 3.200.

Stjórnlagaráð afhendir frumvarp til nýrrar stjórnarskrár föstudaginn 29. júlí.

Fara í fréttalista