Stjórnlagaráð leggur fram fyrstu drög að nýrri stjórnarskrá
18.07.2011 14:36
Stjórnlagaráð hefur lagt fram fyrstu drög að nýrri stjórnarskrá á grundvelli svokallaðs áfangaskjals og hafa þau verið birt á vef ráðsins, stjornlagarad.is. Drögin sem nú liggja fyrir eru afrakstur vinnu ráðsins frá því það hóf störf 6. apríl síðastliðinn. Fram undan eru umræður um breytingartillögur á ráðsfundum um drögin og má gera ráð fyrir að frumvarpið taki nokkrum breytingum við þær. Stefnt er að því að skila verkinu til forseta Alþingis 29. júlí.
Leiðarstefin sem Stjórnlagaráð hefur haft í störfum sínum eru einkum þrjú: Valddreifing, gegnsæi og ábyrgð. Leitast hefur verið við að auka valddreifingu innan ríkisvaldsins með skýrari aðgreiningu valdþáttanna. Þá má finna í tillögunum mun meiri aðkomu almennings að ákvörðunum, sem tryggir valddreifingu enn frekar. Með áherslu á aukið gegnsæi og upplýsingaskyldu opinberra aðila er leitast við að tryggja mun betur rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum. Réttur fjölmiðla er settur í stjórnarskrá og aukið upplýsingafrelsi. Loks hefur við endurskoðun á valdþáttum og valdmörkum ríkisins verið lögð áhersla á að öllu valdi fylgi óhjákvæmilega ábyrgð. Jafnframt hefur verið verið lögð áhersla á að bæta mannréttindakafla stjórnarskrárinnar og telur hann nú 31 ákvæði sem er rúmlega helmingi fleiri ákvæði en í núverandi stjórnarskrá. Síðast en ekki síst eru í tillögum ráðsins ný ákvæði um náttúru og auðlindamál, eitt mesta deiluefni síðustu ára.
Frumvarpsdrög Stjórnlagaráðs samanstanda af 111 stjórnarskrárákvæðum í tíu köflum og hefur uppbyggingu hennar verið breytt nokkuð frá því sem nú er. Mikilvægasta breytingin felst í því að drögin hefjast á aðfaraorðum, mannréttindakaflinn hefur verið færður framar, eða næst á eftir undirstöðum. Með því er lögð áhersla á mikilvægi þess að tryggja vernd borgaranna fyrir ofríki stjórnvalda en ekki síður undirstrikað að allt vald komi frá þjóðinni. Þá hefur kaflinn um Alþingi verið færður fram með hliðsjón af áherslu ráðsins á að styrkja störf löggjafarvaldsins.
Auk ofangreindra atriða hefur í vinnu Stjórnlagaráðs verið lögð áhersla á skýra framsetningu, bæði hvað varðar málfar á einstökum greinum og heildaruppbyggingu. Til að ná því markmiði hefur verið leitast við að gera greinar skýrari en í núgildandi stjórnarskrá og óljósar vísanir milli greina hafa verið teknar út. Þá hefur uppsetning verið einfölduð til að auðvelda aðgengi almennings að textanum.
Í þingsályktunartillögu um skipun ráðsins var því falið ,,að fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar og gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands". Sérstaklega var tiltekið að ráðið skyldi fjalla um undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar. Má þar nefna skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra, hlutverk og stöðu forseta lýðveldisins, sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds, ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan, lýðræðislega þátttöku almennings, m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnarskipunarlaga, framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála og umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda. Í þingsályktuninni var jafnframt tekið fram að ráðinu væri heimilt að taka fleiri atriði til umfjöllunar í starfi sínu. Meðal fulltrúa í Stjórnlagaráði kom strax í upphafi fram eindreginn vilji til að taka mannréttindakaflann til endurskoðunar og jafnframt var ákveðið að taka fyrir nokkur önnur efni sem fjallað var um í skýrslu stjórnlaganefndar, s.s. stöðu þjóðkirkjunnar og sveitarfélaga. Stuttu eftir að ráðið hóf störf skipti það með sér verkum milli þriggja nefnda og eru nú heildstæðar tillögur um öll ofangreind atriði að líta dagsins ljós.
Stjórnlagaráð hefur haft skýrslu stjórnlaganefndar til hliðsjónar í starfi sínu, niðurstöður Þjóðfundar 2010, erindi sem borist hafa frá almenningi og athugasemdir við tillögur ráðsins í áfangaskjali á vefnum. Þá hefur ráðið kallað til sín sérfræðinga í ýmsum málaflokkum.
Almenningi verður áfram boðið að gera athugasemdir við ákvæði Stjórnlagaráðs í frumvarpsdrögunum.