Breytingartillögur B-nefndar samþykktar inn í áfangaskjal Stjórnlagaráðs
13.07.2011 15:05
Stjórnlagaráð samþykkti breytingartillögur B-nefndar á framlögðum köflum nefndarinnar á 16. ráðsfundi. Samþykktar voru breytingar á meðferð löggjafarmála og nú er kveðið á um að frumvörp fari beint til nefnda áður en efnisleg umræða fer fram í þingsal. Samkvæmt tillögunni eru frumvörp aðeins rædd við tvær umræður í stað þriggja. Slíkt fyrirkomulag er m.a. í Svíþjóð og Finnlandi. Nefndin vonast til að umræður í þinginu verði í kjölfarið markvissari og málefnalegri. Heildartillögur nefndarinnar um störf Alþingis miða að því að þingið verði í auknum mæli vinnuþing í ætt við þing á öðrum Norðurlöndum.
Þá eru veigamikil nýmæli lögð til um fjárstjórnarvald Alþingis sem eiga að mati nefndarinnar að stuðla að aukinni festu við meðferð ríkisfjármuna. Lagt er til að fjármálaráðherra þurfi að leita samþykkis fjárlaganefndar fyrirfram fyrir útgjöldum utan fjárlaga. En í dag þarf ráðherra ekki slíkt samþykki. Einnig er fjárlaganefnd veittur sérstakur upplýsingaréttur. Þá er lagt til nýtt ákvæði um að ekki verði veitt ríkisábyrgð vegna fjárhagslegra skuldbindinga einkaaðila nema almannahagsmunir krefjist.
Lagt er til að málskotsréttur forseta Íslands verði með sambærilegum hætti og í núverandi stjórnarskrá, en heimild til synjunar á t.d. ekki við um fjárlög, fjáraukalög og lög um skattamálefni. Í tillögunum kemur fram að við stjórnarmyndun muni Alþingi nú kjósa forsætisráðherra, en forseti Íslands verði eins konar verkstjóri í viðræðum milli þingflokka, líkt og verið hefur. Þá er lögð fram breyting á ákvæði um skipun dómara og ríkissaksóknara. Ráðherra er skipunaraðili eftir sem áður og ábyrgð vegna ráðningar hvílir á honum, hins vegar hefur forseti eins konar málskotsrétt til þingsins um lögmæti ráðningar þ.e. að hún hafi byggt á hæfni og málefnalegum sjónarmiðum. Ef forseti ákveður að synja staðfestingu ráðningar þarf Alþingi í kjölfarið að samþykkja skipunina með ⅔ þingmanna til að hún taki gildi. Nefndin telur mikilvæga forsendu fyrir lýðræðið og réttarríkið að gætt sé að sjálfstæði og hlutleysi dómsvaldsins þannig að almenningur beri fullt traust gagnvart störfum þess. Nefndin telur sömu sjónarmið gilda um ríkissaksóknara sem er æðsti handhafi ákæruvaldsins.