Veigameira hlutverk Alþingis í utanríkismálum
13.07.2011 10:58
Stjórnlagaráð samþykkti breytingar í kafla um utanríkismál í áfangaskjali á 16. ráðsfundi. Nú er tekið fram í 1 .gr. að forseti komi fram fyrir hönd ríkisins sem þjóðhöfðingi í samræmi við utanríkisstefnu stjórnvalda. Ákvörðun um stuðning við aðgerðir sem fela í sér beitingu vopnavalds, aðrar en þær sem Ísland er skuldbundið af samkvæmt þjóðarétti, skuli háð samþykki Alþingis. Þetta er í samræmi við kröfu Þjóðfundar 2010 en þar kom fram að skýr vilji um að þjóðin yrði höfð með í ráðum vegna ákvarðana um meiriháttar utanríkismál þannig að komið yrði í veg fyrir að ráðherrar gætu einhliða tekið ákvarðanir t.d. um stríð. Þá er sett inn í 2. gr. að þjóðréttarsamningar sem fela í sér afsal eða kvaðir á landi, innsævi, landhelgi, efnahagslögsögu eða landgrunni, eða breytingar á landslögum, eða eru mikilvægir af öðrum ástæðum, þurfi samþykki Alþingis. Þrjár greinar fjalla um utanríkismál í áfangaskjali ráðsins en í núverandi stjórnarskrá fjallar aðeins eitt ákvæði um utanríkismál eða 21. grein hennar. Nefndin taldi mikilvægt sökum eðlis málaflokksins hafa í stjórnarskrá sérstakan kafla um utanríkismál. C- nefnd kynnti sér m.a. stöðu utanríkismála, niðurstöður þjóðfundar og skýrslu stjórnlaganefndar í tillögugerð sinni.