Breytingar á kafla um um fyrirkomulag kosninga
12.07.2011 17:03
Stjórnlagaráðs samþykkti á 16. ráðsfundi breytingartillögur C-nefndar í kafla um kosningar til Alþingis og alþingismenn sem áður hafði verið samþykktur inn í áfangaskjal ráðsins. Í breytingartillögu sem samþykkt var er ekki lengur gert að skilyrði að kjósendur geti kosið þvert á lista heldur sett inn nýtt ákvæði sem felur í sér að Alþingi geti heimilað slíkt fyrirkomulag með lagasetningu. Einnig er settur inn 4% þröskuldur við kosningar til Alþingis sem þýðir að framboð verði að ná 4% fylgi til að ná inn þingmönnum. Þetta var gert eftir ábendingar fræðimanna og í því skyni að tryggja stjórnarfestu. Þá er lagt til að Alþingi úrskurði ekki lengur um kjörgengi og kjörbréf þingmanna heldur landskjörstjórn. Loks var samþykkt breytingartillaga um að í stað þess að fjöldi þeirra sæta sem binda má tilteknum kjördæmum verði 2/5 eða 25 þingsæti verði þau 30. Meginmarkmið C-nefndar með kafla um kosningar til Alþingis og alþingismenn eru: Að efla lýðræðið með því að auka bein áhrif kjósenda á val alþingismanna, að jafna vægi atkvæða og gæta þess um leið að raddir sem flestra landsvæða heyrist á Alþingi og stuðla að því að hlutfall karla og kvenna sé sem jafnast á þingi. Stjórnlagaráð telur þessi markmið vera í samræmi við viðhorf Þjóðfundar 2010 sem dregin eru saman í skýrslu stjórnlagarnefndar.