Kirkjuskipan ríkisins færð í almenn lög

12.07.2011 15:41

Kirkjuskipan ríkisins færð í almenn lög

 

Stjórnlagaráð samþykkti breytingartillögur A-nefndar á 16. ráðsfundi inn í áfangaskjal ráðsins. Samþykkt var tillaga um að kirkjuskipan ríkisins verði færð í almenn lög í stað þess að sérstaklega sé kveðið á um þjóðkirkjuna í stjórnarskránni. Enn fremur er lagt til að ef Alþingi samþykkir að breyta kirkjuskipaninni skuli bera það undir þjóðina til samþykktar eða synjunar líkt og í núverandi stjórnarskrá. Þá er lagt til að ákvæðið verði fært úr mannréttindakafla stjórnarskrárinnar í undirstöðukafla hennar. Nefndin hafði áður kynnt tvær útgáfur af þjóðkirkjuákvæðinu og eru þær nú báðar felldar brott. Með þessum breytingum er m.a. brugðist við umræðum á ráðsfundum og innsendum erindum. Jafnframt var haft samráð við fulltrúa úr öðrum nefndum ráðsins og varð þessi kostur ofan á. Þá var samþykkt að færa tillögu nefndarinnar um frelsi fjölmiðla í kafla um undirstöður. Ákvæði um réttindi barna tók breytingum en þar kemur nú m.a. fram að öllum börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefjist. Það sem barni sé fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar ákvarðanir eru teknar í málum sem það varðar. Loks var samþykkt breyting á ákvæði um skoðana- og tjáningarfrelsi og sett inn að óheftur aðgangur að netinu og upplýsingatækni skuli tryggður. Loks var samþykkt breyting í ákvæði um dvalarrétt og ferðafrelsi en þar segir nú að með lögum skuli kveðið á um rétt flóttamanna og hælisleitenda til réttlátrar og skjótrar málsmeðferðar.

 

Fara í fréttalista