Allar nefndir leggja fram breytingartillögur á 16. ráðsfundi
12.07.2011 13:23
Allar nefndir Stjórnlagaráðs leggja fram breytingartillögur í áfangaskjal á 16. ráðsfundi sem hófst kl. 13. í dag í beinni útsendingu hér á vefnum. Fundurinn er síðasti ráðsfundur Stjórnlagaráðs sem fjallar sérstaklega um tillögur í áfangaskjal ráðsins þar sem hægt er að skoða allar framlagðar tillögur. Gert er ráð fyrir að drög að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga verði rædd á næsta ráðsfundi sem verður haldinn innan skamms.
B-nefnd Stjórnlagaráðs kynnir breytingartillögur á framlögðum köflum nefndarinnar á fundinum. Breytingar á meðferð löggjafarmála eru lagðar til. Þar er kveðið á um að frumvörp fari nú beint til nefnda áður en efnisleg umræða fer fram í þingsal. Samkvæmt tillögunni eru frumvörp aðeins rædd við tvær umræður í stað þriggja. Nefndin vonast til að umræður í þinginu verði í kjölfarið markvissari og málefnalegri. Heildartillögur nefndarinnar um störf Alþingis miða að því að þingið verði í auknum mæli vinnuþing í ætt við þing á öðrum Norðurlöndum. Þá eru veigamikil nýmæli lögð til um fjárstjórnarvald Alþingis sem eiga að mati nefndarinnar að stuðla að aukinni festu við meðferð ríkisfjármuna. Lagt er til að heimild til útgáfu fjáraukalaga verði þrengd til muna, fjárlaganefnd verði veittur sérstakur upplýsingaréttur og ríkisábyrgð vegna fjárhagslegra skuldbindinga einkaaðila verði ekki veitt nema almannahagsmunir krefjist. Lagt er til að málskotsréttur forseta Íslands verði með sambærilegum hætti og í núverandi stjórnarskrá, en heimild til synjunar á t.d. ekki við um fjárlög, fjáraukalög og lög um skattamálefni. Í tillögunum kemur fram að við stjórnarmyndun muni Alþingi nú kjósa forsætisráðherra, en forseti Íslands verði eins konar verkstjóri í viðræðum milli þingflokka, líkt og verið hefur. Þá er lögð fram breyting á ákvæði um skipun embættismanna. Ráðherra er skipunaraðili eftir sem áður og ábyrgð vegna ráðningar hvílir á honum, hins vegar hefur forseti eins konar málskotsrétt til þingsins um lögmæti ráðningar þ.e. að hún hafi byggt á hæfni og málefnalegum sjónarmiðum. Ef forseti ákveður að synja staðfestingu ráðningar þarf Alþingi í kjölfarið að samþykkja skipunina með ⅔ þingmanna til að hún taki gildi. Nefndin telur mikilvæga forsendu fyrir lýðræðið og réttarríkið að gætt sé að sjálfstæði og hlutleysi dómsvaldsins og ríkissaksóknara, sem er æðsti handhafi ákæruvalds hér á landi.
A-nefnd Stjórnlagaráðs kynnir á fundinum breytingartillögu um að kirkjuskipan ríkisins verði færð í almenn lög í stað þess að sérstaklega sé kveðið á um þjóðkirkjuna í stjórnarskránni. Enn fremur er lagt til að ef Alþingi samþykkir að breyta kirkjuskipaninni skuli bera það undir þjóðina til samþykktar eða synjunar líkt og í núverandi stjórnarskrá. Þá er lagt til að ákvæðið verði fært úr mannréttindakafla stjórnarskrárinnar í undirstöðukafla hennar. Nefndin hafði áður kynnt tvær útgáfur af þjóðkirkjuákvæðinu og eru þær nú báðar felldar brott. Með þessum breytingum er m.a. brugðist við umræðum á ráðsfundum og innsendum erindum. Jafnframt var haft samráð við fulltrúa úr öðrum nefndum ráðsins og varð þessi kostur ofan á.
C-nefnd Stjórnlagaráðs kynnir breytingartillögu í kafla um kosningar til Alþingis og alþingismenn sem áður hefur verið samþykktur inn í áfangaskjal ráðsins. Nefndin gerir ekki lengur að skilyrði að kjósendur geti kosið þvert á lista heldur setur inn nýtt ákvæði sem felur í sér að Alþingi geti heimilað slíkt fyrirkomulag með lagasetningu. Einnig er settur inn 4% þröskuldur við kosningar til Alþingis sem þýðir að framboð verði að ná 4% fylgi til að ná inn þingmönnum. Þá er lagt til að Alþingi úrskurði ekki lengur um kjörgengi og kjörbréf þingmanna heldur landskjörstjórn.
C-nefnd Stjórnlagaráðs leggur enn fremur fram orðalagsbreytingar í kafla um utanríkismál. Tekið er fram í 1 .gr. að forseti komi fram fyrir hönd ríkisins sem þjóðhöfðingi í samræmi við utanríkisstefnu stjórnvalda. Ákvörðun um stuðning við aðgerðir sem fela í sér beitingu vopnavalds, aðrar en þær sem Ísland er skuldbundið af samkvæmt þjóðarétti, skuli háð samþykki Alþingis. Þá er sett inn í 2. gr. að þjóðréttarsamningar sem fela í sér afsal eða kvaðir á landi, innsævi, landhelgi, efnahagslögsögu eða landgrunni, eða breytingar á landslögum, eða eru mikilvægir af öðrum ástæðum, þurfi samþykki Alþingis.
Stjórnlagaráð hefur boðið almenningi og hagsmunasamtökum að senda inn formleg erindi síðustu mánuði. Alls hafa tæplega 330 erindi borist til ráðsins og hafa þau verið lögð fram og rædd á fundum í þeirri nefnd sem þau heyra undir. Stjórnlagaráð þakkar öll þau góðu erindi sem fram hafa komið. Störf ráðsins eru langt komin og því var tilkynnt á vef ráðsins í gær að ekki væri lengur mögulegt að fjalla um ný erindi á fundum í nefndum ráðsins. Erindi sem berast hér eftir munu þó mögulega verða innlegg í umræður sem tengjast nýrri stjórnarskrá. Almenningi hefur jafnframt verið boðið að gera athugasemdir við tillögur ráðsins í áfangaskjal og við erindin og eru þær nú orðnar rúmlega 2.400. Áfram verður hægt að gera athugasemdir við áfangaskjalið og síðar við drög að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga á vef ráðsins, stjornlagarad.is.