Tillögur um náttúru Íslands, dómstóla og utanríkismál á 15. ráðsfundi

01.07.2011 09:49

Tillögur um náttúru Íslands, dómstóla og utanríkismál á 15. ráðsfundi

Nefndir Stjórnlagaráðs leggja fram tillögur um náttúru Íslands og dómstóla til afgreiðslu inn í áfangaskjal á 15. ráðsfundi sem hófst í beinni útsendingu kl. 9.30 í morgun á vefnum. Þar er jafnframt hægt að nálgast allar tillögur ráðsins. Ráðið býður almenningi að gera athugasemdir við tillögurnar eða senda inn formleg erindi. Allar tillögur geta tekið breytingum þar til frumvarp að nýrri stjórnarskrá verður lagt fram í lok júlí.

A-nefnd Stjórnlagaráðs leggur fram á fundinum þrjár tillögur um náttúru Íslands og umhverfi til afgreiðslu inn í áfangaskjal. Bætt hefur verið við nokkrar tillögur frá því þær voru fyrst kynntar og er til að mynda hnykkt á rétti almennings til að njóta náttúrunnar. Í tillögunum er kveðið á um að auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, skuli vera sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn geti fengið þær eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota. Stjórnvöld beri, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Við nýtingu auðlindanna skuli hafa sjálfbærni að leiðarljósi. Stjórnvöld geti á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi leiði aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum. Í tillögunum er kveðið á um að náttúra Íslands sé friðhelg og hverjum og einum beri að virða hana. Öllum skuli tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru. Í því felist að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og náttúruminjar, ósnortin víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Nýtingu á náttúrugæðum skuli haga þannig að þau skerðist ekki til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur. Með lögum skuli tryggja rétt almennings til að fara um landið. Þá er kveðið á um að stjórnvöldum beri að upplýsa almenning um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það. Í samræmi við Árósasamninginn er jafnframt lagt til að tryggja skuli almenningi aðgang að undirbúningi ákvarðana sem hafa áhrif á umhverfi og náttúru og aðild að málum þeim tengdum. Viðtal við Silju Báru Ómarsdóttur, formann nefndarinnar.

C-nefnd Stjórnlagaráðs leggur fram breytingartillögu að kafla um dómsvaldið til afgreiðslu inn í áfangaskjal Stjórnlagaráðs. Kaflinn telur sjö ákvæði en í núverandi stjórnarskrá eru þrjú ákvæði um dómstóla. Kveðið er á um að sjálfstæði dómstóla skuli tryggja með lögum og að þeim skuli ekki vera falin störf sem samkvæmt venju heyra undir aðra valdþætti ríkisins. Lagt er til að í stjórnarskrá komi fram að Hæstiréttur Íslands sé æðsti dómstóll ríkisins en slíkt ákvæði er ekki í núverandi stjórnarskrá. Lagt er til að forseti Íslands skipi dómara og veiti þeim lausn. Þá skuli tryggja með lögum að hæfni og málefnaleg sjónarmið ráði við veitingu embætta dómara. Loks er lagt til að Landsdómur verði lagður niður og verkefni hans verði færð til almennra dómstóla. Einnig leggur C-nefnd fram breytingartillögu að kafla um utanríkismál. Þar kemur m.a. fram að forseti Íslands skuli fylgja utanríkisstefnu stjórnvalda.

Fara í fréttalista