Málskotsréttur forseta Íslands

27.06.2011 15:48

Málskotsréttur forseta Íslands

B-nefnd Stjórnlagaráðs kynnti tvo valkosti um málskotsrétt forseta Íslands í kafla um störf Alþingis á 14. ráðsfundi. Í fyrri valkostinum er núverandi 26. gr. að mestu óbreytt og forseti heldur sjálfstæðum málskotsrétti. Hins vegar er að finna nákvæma útfærslu á frestum, málsmeðferð og málum sem eru undanþegin þjóðaratkvæðagreiðslu. Forseta er veittur vikufrestur til að taka afstöðu til laga en skilyrði er að hann rökstyðji ákvörðun sína og tilkynni forseta Alþingis með formlegum hætti. Þá er málskotsrétturinn takmarkaður vegna laga um tiltekin málefni, einkum á sviði fjárstjórnar og vegna þjóðréttarskuldbindinga. Í síðari valkostinum er lögð til sambærileg skipun við samþykkt laga og ríkir í Finnlandi. Forsetinn hefur synjunarvald á lögum og getur vísað þeim til þings á grundvelli efnis þeirra, t.d. ef talið er að lögin brjóti í bága við stjórnarskrána. Þingið er því skyldað til að ræða lagafrumvarpið á ný við eina umræðu. Valkostur tvö er settur fram með tilliti til þess að samkvæmt öðrum tillögum Stjórnlagaráðs hefur þjóðinni verið veittur sjálfstæður réttur án milligöngu til að óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Þriðjungur þingmanna hefur sama rétt. Því sé óþarft að stjórnarskráin mæli fyrir um þríþætt inngrip í störf Alþingis. Þá voru afgreiddar  tillögur um nýjan texta í áfangaskjal í kafla um ráðherra og ríkisstjórn. Þar kemur t.d. fram nýr texti um stjórnarmyndun, þingforseta, þingnefndir, meðferð þingmála, náðun og sakaruppgjöf og setutími  ráðherra er takmarkaður við 8 ár. Hægt er að gera athugasemdir við allar tillögur Stjórnlagaráðs í áfangaskjali ráðsins.

 

 

 

Fara í fréttalista