Mannréttindakafli afgreiddur inn í áfangaskjal Stjórnlagaráðs
24.06.2011 14:56
Stjórnlagaráð afgreiddi mannréttindakafla A-nefndar inn í áfangaskjal ráðsins á 14 ráðsfundi í hádeginu. Kaflinn telur alls um þrjátíu ákvæði en í núverandi stjórnarskrá eru 15 ákvæði um mannréttindamál. Ýmsar nýjungar koma fyrir í kaflanum. Þar er m.a. lagt til að ákvæði um mannlega reisn, jafnræðisreglan er mun ítarlegri en í núverandi stjórnarskrá, kveðið er á um að allir skuli njóta mannhelgi og lagt er til ítarlegt ákvæði um upplýsingaskyldu stjórnsýslu. Þá er lagt til nýtt ákvæði um frelsi fjölmiðla. Ný grein kemur fram í ákvæði um tjáningarfrelsi en þar er kveðið á um að stjórnvöld skuli tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu, svo sem óheftan aðgang að netinu og upplýsingatækni. Kveðið er á um frelsi menningar og mennta, um menningarleg verðmæti og að öllum beri að virða mannréttindareglur sem bindandi eru fyrir ríkið að þjóðarrétti. Í ákvæðum kaflans er horfið frá málfræðilegu karlkyni í texta og notast við jafnræðisreglu, þ.e. í stað þess að ákvæði hefjist á ,,allir skulu" hefjast þau á ,,öll erum við". Í kaflanum sem lagður var fyrir fundinn voru tvö ákvæði sett fram til kynningar. Í öðru þeirra er kveðið á um að stjórnvöldum beri að tryggja síaukna vernd mannréttinda og í hinu er lagður fram auka valkostur um þjóðkirkjuna.