Stjórnlög unga fólksins afhenda Stjórnlagaráði niðurstöður sínar

10.06.2011 13:10

Stjórnlög unga fólksins afhenda Stjórnlagaráði niðurstöður sínar

Hildur Hjörvar, formaður ungmennaráðs UNICEF, færði Salvöru Nordal, formanni Stjórnlagaráðs, fyrsta eintak af niðurstöðum úr Stjórnlögum unga fólksins á Austurvelli í dag. Stjórnlög unga fólksins var þing ungmennaráða um stjórnarskrána sem haldið var í vor. Þar ræddu fulltrúar frá flestum virkum ungmennaráðum landsins um hvað bæri að vera í nýrri stjórnarskrá. Margar tillögur um breytingar á stjórnarskránni má finna í skýrslunni. Þar er kafli um forsetann, löggjafar-og framkvæmdarvald, dómsvald, kosningar, lýðræði og mannréttindi. Í skýrslunni má sjá tillögur eins og að þjóðarauðlindir megi aldrei verða eign einstaklinga eða fyrirtækja, að börnum sé tryggð þátttaka í lýðræðislegri umræðu og að forseti skuli vera heiðarlegur, vel menntaður og góð fyrirmynd. Í lok athafnarinnar í dag var hugmyndum Stjórnlaga unga fólksins dreift yfir fulltrúa og viðstadda um breytingar á stjórnarskránni við góðar viðtökur. Hér má nálgast eintak af skýrslu Stjórnlaga unga fólksins.

Fara í fréttalista