Allar nefndir kynna tillögur á 12. ráðsfundi

09.06.2011 11:42

Allar nefndir kynna tillögur á 12. ráðsfundi

Allar nefndir Stjórnlagaráðs kynna tillögur um breytingar á stjórnarskránni á 12. ráðsfundi sem hefst kl. 13 í dag.

C-nefnd Stjórnlagaráðs kynnir tillögur um kosningar til Alþingis og alþingismenn. Nefndin leggur til talsverðar breytingar á fyrirkomulagi kosninga til Alþingis. Lagt er til að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vegi jafnt, sem þjóðfundur lagði mikla áherslu á. Mæla megi þó fyrir um í lögum að tiltekinn fjöldi þingsæta sé bundinn kjördæmum en þó aldrei fleiri en ⅖ hluta þeirra. Lagt er til að þingmenn verði kosnir með persónukjöri á landsvísu, þar sem kjósendum er heimilt að kjósa bæði þvert á lista og merkja við frambjóðendur í öðrum kjördæmum. Kjördæmi eiga að vera eitt til átta en ein hugmynd nefndarinnar gengur út frá að þau verði fimm. Þá er lagt til að setja megi í lög ákvæði um lágmarkshlutfall karla og kvenna á þingi.

C-nefnd kynnir jafnframt tillögur um lýðræðislega þátttöku almennings. Lagt er til að þriðjungur alþingismanna geti ákveðið að bera nýsamþykkt lög undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Enn fremur er lagt til að Alþingi beri nýsamþykkt lög undir þjóðaratkvæði ef 15% kosningabærra manna krefjist þess. Þó sé ekki hægt að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög um skattamálefni, ríkisborgararétt eða lög sem sett eru til að fylgja þjóðréttarskuldbindingum.

B-nefnd Stjórnlagaráðs kynnir fleiri ákvæði um ráðherra og ríkisstjórn. Lagt er til að núverandi stjórnarskrá sé skýr og aðgengileg hvað varðar verkaskiptingu milli forseta og ráðherra og skilgreint er betur hlutverk, vald og ábyrgð ráðherra. Þá er í tillögunum lagt til að kveðið sé sérstaklega á um ríkisstjórnina, sem verulega skortir á í núverandi stjórnarskrá og hlutverk og ábyrgð forsætisráðherra skýrð sem verkstjóri hennar. Samkvæmt tillögum nefndarinnar hefur forsætisráðherra umsjón með störfum ríkisstjórnarinnar og er ábyrgur fyrir meginatriðum stjórnarstefnunnar. Þá er lögð til ítarleg breyting á ákvæði um ráðherraábyrgð, en ráðherrar bera ábyrgð lóðrétt á sínum málaflokki líkt og í dag en lárétt á þeim ákvörðunum sem taldar eru mikilvæg stjórnarmálefni. Í þeim málum ber ríkisstjórnin því sameiginlega lagalega ábyrgð og er skylt að bera þau upp á ríkisstjórnarfundum. Þá er lagt til að það sé eftirlits- og stjórnskipunarnefnd  Alþingis sem ákveði að hefja rannsókn á embættisfærslu ráðherra en í kjölfarið sé skipaður saksóknari sem fari með rannsókn málsins og meti hvort ákæra skuli. Málið sé síðan flutt fyrir Hæstarétti, ef kemur til þess.

A-nefnd Stjórnlagaráðs kynnir ákvæði um rétt almennings til opinberra upplýsinga og frelsi fjölmiðla. Meðal þess sem lagt er til er að stjórnsýsla skuli vera gegnsæ þar sem haldið sé til haga fundargerðum og gögnum. Listi yfir mál og gögn í vörslu hins opinbera skuli vera aðgengilegur almenningi. Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skuli vera öllum tiltæk án undandráttar nema brýnar ástæður knýi á um leynd svo sem á við um sjúkraskýrslur. Afhendingu opinberra gagna eða birtingu megi aðeins setja skorður með lögum svo sem vegna friðhelgi einkalífs eða öryggis ríkisins. Nefndin kynnir einnig tillögu um að frelsi fjölmiðla og gegnsætt eignarhald skuli tryggja með lögum. Vernd blaða- og heimildarmanna skuli jafnframt tryggja með lögum. Óheimilt sé að rjúfa nafnleynd án samþykkis viðkomandi nema við meðferð sakamáls og samkvæmt dómsúrskurði.

Þá leggur A-nefnd fram til kynningar breytta jafnræðisreglu, þar sem horfið er frá málfræðilegu karlkyni í texta. Ef vel tekst til með jafnræðisregluna gæti þessi breyting orðið leiðarljós í frekari orðalagsbreytingum - annaðhvort í mannréttindakaflanum einum, eða í áfangaskjalinu öllu.


Hægt er að nálgast allar tillögur nefnda í áfangaskjali ráðsins, þar er  jafnframt hægt að gera athugasemdir. Fundur Stjórnlagaráðs hefst kl. 13 í dag, hann er opinn fyrir almenning og í beinni útsendingu á vefnum stjornlagarad.is

Fara í fréttalista