11. ráðsfundur

03.06.2011 10:29

11. ráðsfundur

Nefndir Stjórnlagaráðs leggja fram tillögur um forseta Íslands, utanríkismál og trúmál á 11. ráðsfundi sem hófst kl. 10 í morgun.


A-nefnd leggur fram til kynningar tillögur sínar að greinum um trúfrelsi og jafnræði trúfélaga. Tillögurnar skiptast í tvo hluta; annars vegar ítarlegt trúfrelsisákvæði, þar sem er m.a. lagt til að hið opinbera verndi öll skráð trú- og lífsskoðunarfélög. Hins vegar leggur nefndin til einfaldað þjóðkirkjuákvæði, sem lagt verði í dóm þjóðarinnar á sama tíma og atkvæði verða greidd um tillögur Stjórnlagaráðs í heild sinni. Þannig muni þjóðin sjálf kveða úr um það hvort ákvæði um þjóðkirkjuna eigi að standa í stjórnarskránni eða ekki.

B-nefnd Stjórnlagaráðs kynnir tillögur um forseta Íslands. Þar kemur fram að mikilvægt sé að lýsa í stjórnarskránni með skýrum orðum ábyrgð og völdum hvers fyrir sig eins og þau eru í raun og veru þannig að stjórnarskrá sé gegnsæ og skiljanleg. Einhugur er í nefnd B um að forsetinn hafi menningarlegt hlutverk og sé verndari ýmissa gilda. Í samræmi við framangreint miða tillögur B-nefndar við að ,,lepporðalag" um hlutverk ráðherra og forseta sé afnumið en af því leiðir að ekki verði talað um að forseti framkvæmi tiltekna stjórnarathöfn þegar það sé í reynd ráðherra sem það geri og beri  lagalega og pólitíska ábyrgð á athöfninni. Því er m.a. lagt til að 13., 18. og 19. gr. núverandi stjórnarskrár, séu felldar brott ásamt öðrum ákvæðum. Þá eru lagðar til breytingar á forsetakjöri og meðmælendafjölda, þannig að forseti verði kosinn með hreinum meirihluta. Þá er setutími hans jafnframt takmarkaður við þrjú kjörtímabil. Ekki hefur enn verið tekin afstaða til málskotsréttar forseta, hvort hann haldi heimild sinni eður ei og þá með hvaða hætti.
Þá leggur nefndin fram tillögur til afgreiðslu inn í áfangaskjal um störf Alþingis sem kynntar voru í síðustu viku þar sem m.a. kveðið er á um takmörkun á setutíma ráðherra, að Alþingi kjósi forsætisráðherra sem ákveði síðan skipan ráðuneyta og tölu ráðherra og að leggja megi fram á Alþingi tillögu um vantraust á forsætisráðherra eða aðra ráðherra.   

C-nefnd leggur til að settur verði sérstakur kafli um utanríkismál í stjórnarskrá í þremur greinum, um meðferð utanríkismála, um samninga við önnur ríki og um framsal ríkisvalds.
Í tillögum C-nefndar kemur fram að það sé ráðherra en ekki forseti Íslands sem fari með utanríkisstefnu og geri samninga við önnur ríki í umboði og undir eftirliti Alþingis eins og hefð er. Alþingi þurfi að samþykkja samninga sem fela í sér afsal eða kvaðir á landi, landhelgi eða breytingar á landslögum, eða eru mikilvægir af öðrum ástæðum. Aðkoma utanríkismálanefndar er jafnframt tryggð varðandi mikilvæg utanríkismál og ákvarðanir. Lagt er til að heimilt verði að gera samninga sem fela í sér framsal á ríkisvaldi til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Með því verði fylgt fordæmi nágrannaríkjanna og fest að hluta óskráð meginregla sem leidd hefur verið af 21. gr. stjórnarskrár. Slíkir samningar skulu bornir undir þjóðaratkvæði.


Almenningur getur komið með ábendingar og athugasemdir um allar tillögur nefnda í áfangaskjali ráðsins. Þá er hægt að senda ráðinu erindi á vefnum. Erindin eru nú þegar orðin yfir 140 og mikil umræða er um þau og tillögur nefnda á vef ráðsins.

 

Fara í fréttalista