16 greinar afgreiddar inn í áfangaskjal á 9. ráðsfundi

19.05.2011 16:29

16 greinar afgreiddar inn í áfangaskjal á 9. ráðsfundi

 

Stjórnlagaráð afgreiddi níu greinar B-nefndar um störf Alþingis inn í áfangaskjal ráðsins á 9. ráðsfundi í dag. Þar er m.a. lagt til að við skipun embættismanna sé einungis litið til hæfni og málefnalegra sjónarmiða, sem er í samræmi við skýra kröfu á Þjóðfundi 2010. Í skýringu með tillögunni kemur fram að orðin hæfni og málefnaleg sjónarmið vísi til reglna sem mótast hafa í stjórnsýslurétti og í réttarframkvæmd varðandi ráðningu manna í opinber störf og embætti. Lagt er til að vægi þingforseta verði aukið og að ráðherrar víki af þingi. B-nefnd kynnti fleiri greinar um störf Alþingis sem miðast að því að styrkja sjálfstæði þingsins og þingeftirlit gagnvart framkvæmdarvaldinu. Meðal tillagnanna má nefna nýtt ákvæði um eftirlits- og stjórnskipunarnefnd Alþingis, að þingið geti skipað rannsóknarnefndir utanþings og ákvæði um hagsmunaskráningu þingmanna og ráðherra. Þá er lagt til bann við því að ráðherrar sinni öðrum störfum meðfram embættisstörfum sínum bæði fyrir aðrar opinberar stofnanir og einkafyrirtæki.

Stjórnlagaráð afgreiddi enn fremur inn í áfangaskjal sjö breytingartillögur C-nefndar í dómstólakafla stjórnarskrárinnar. Þar er m.a. lagt til að Hæstiréttur dæmi um hvort lög eða stjórnarathafnir samrýmist stjórnarskrá. Einnig er lagt til að Hæstiréttur fái það verkefni að dæma um ráðherraábyrgð. Þegar Hæstiréttur dæmi um slík mál sé hann þannig skipaður að auk sjö dómara Hæstaréttar sitji þar átta menn valdir af Alþingi. Loks er lagt til að dómstólar skeri úr um lögmæti almennra kosninga. Hægt er að nálgast allar tillögurnar í áfangaskjali Stjórnlagaráðs.

 

Fara í fréttalista