21. grein kynnt eða til afgreiðslu í áfangaskjal á 9. ráðsfundi í dag.
19.05.2011 10:51
Alls verða lagðar fram rúmlega tuttugu greinar til kynningar eða afgreiðslu inn í áfangaskjal Stjórnlagaráðs á 9. ráðsfundi í dag sem hefst kl. 13.
Tillögur B-nefndar um störf Alþingis verða lagðar fram til afgreiðslu í áfangaskjal. Þar er m.a. lagt til að við skipun embættismanna sé einungis litið til hæfni og málefnalegra sjónarmiða, vægi þingforseta verði aukið, að ráðherrar víki af þingi og að ríkisstjórnin leggi árlega fyrir Alþingi skýrslu um störf sín og framkvæmd ályktana þingsins.
B-nefnd kynnir fleiri breytingar til að styrkja sjálfstæði þingsins og þingeftirlit gagnvart framkvæmdarvaldinu. Meðal tillagnanna má nefna nýtt ákvæði um eftirlits- og stjórnskipunarnefnd Alþingis, að þingið geti skipað rannsóknarnefndir utanþings, ákvæði um hagsmunaskráningu þingmanna og ráðherra þar sem lagt er til að í lögum skuli kveðið á um skyldu þingmanna til að veita upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína. Þá verður lagt bann við því að ráðherrar sinni störfum meðfram embættisstörfum sínum, bæði fyrir einkafyrirtæki eða aðrar opinberar stofnanir.
C-nefnd Stjórnlagaráðs leggur fram breytingartillögur til afgreiðslu í áfangaskjal um dómstólakafla stjórnarskrárinnar. Þar er m.a. sett inn sú venja að Hæstiréttur dæmi um hvort lög eða stjórnarathafnir samrýmist stjórnarskrá. Enn fremur er lagt til að Hæstiréttur fái það verkefni að dæma um ráðherraábyrgð. Þegar Hæstiréttur dæmir um þessi mál er hann þannig skipaður að auk sjö dómara Hæstaréttar sitji þar átta menn valdir af Alþingi. Loks er lagt til að dómstólar skeri úr um lögmæti almennra kosninga.
Þau Dögg Harðardóttir og Þorkell Helgason, fulltrúar í Stjórnlagaráði, flytja stefnuræður á fundinum.
Allir ráðsfundir Stjórnlagaráðs eru opnir almenningi og sýndir beint á vef ráðsins. Hægt er að fylgjast með störfum ráðsins á stjornlagarad.is, Facebook, Youtube og Flickr.
Hér er að finna viðtal við Vilhjálm Þorsteinsson varaformann B-nefndar m.a. um þær tillögur sem nefndin kynnir í dag.