Tillögur um breytingar á stjórnarskrá afgreiddar eða kynntar á 8. ráðsfundi

12.05.2011 16:49

Tillögur um breytingar á stjórnarskrá afgreiddar eða kynntar á 8. ráðsfundi

 

Fyrstu tillögur í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar voru afgreiddar inn í áfangaskjal ráðsins á 8. ráðsfundi. Kaflinn er í fjórtán liðum en búast má við að það bætist enn frekar við hann á næstu vikum og mánuðum. Þar koma m.a. fram nokkur ný ákvæði um réttindi barna, að allir skuli njóta mannhelgi og verndar gegn hvers kyns ofbeldi og að herskyldu skuli aldrei í lög leiða. Það er A-nefnd ráðsins sem lagði tillögurnar fram en nefndin fjallar m.a. um ríkisborgararétt og þjóðtungu, náttúruauðlindir og umhverfismál og mannréttindi. Á fundinum þakkaði Silja Bára Ómarsdóttir, formaður nefndarinnar, almenningi sérstaklega fyrir þær fjölmörgu athugasemdir sem borist höfðu á vef ráðsins.  Athugasemdirnar hefðu nýst nefndinni vel og nokkrar breytingar hefðu verið gerðar á tillögum í samræmi við þær.

B-nefnd Stjórnlagaráðs kynnti jafnframt fyrstu tillögur sínar um störf Alþingis á fundinum. Þar er m.a. lagt til að ráðherrar víki af þingi sem er í samræmi við hugmyndir á Þjóðfundi 2010. Lagt er til að Alþingi verði styrkt sem löggjafi og eftirlitsaðili gagnvart framkvæmdarvaldinu, að vægi þingforseta verði aukið með 2/3 hluta atkvæða í upphafi hvers kjörtímabils og að ríkisstjórn leggi árlega fram skýrslu um störf sín fyrir Alþingi.  Talsverð umræða varð milli fulltrúa í ráðinu um tillögurnar og tóku nánast allir meðlimir B-nefndar til máls. Hægt er að nálgast upptöku af 8. ráðsfundi á vef ráðsins.

 

Fara í fréttalista