8. ráðsfundur Stjórnlagaráðs

12.05.2011 10:44

8. ráðsfundur Stjórnlagaráðs

B-nefnd Stjórnlagaráðs kynnir fyrstu tillögur sínar á 8. ráðsfundi sem hefst kl. 13 í dag. Þar er m.a. lagt til að ráðherrar víki af þingi, vægi þingforseta verði aukið og að Alþingi verði styrkt sem löggjafi og eftirlitsaðili gagnvart framkvæmdarvaldinu.


A-nefnd Stjórnlagaráðs leggur fyrstu tillögur í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar fram til afgreiðslu inn í áfangaskjal ráðsins. Tillögurnar voru kynntar á ráðsfundi í síðustu viku. Ýmsar athugasemdir bárust frá fulltrúum í ráðinu og almenningi og hefur nefndin tekið tillit til þeirra. Nefndin brást t.d. sérstaklega við innsendu erindi frá Unicef um réttindi barna og gerði efnisbreytingar í samræmi við það.

Ríflega 70 erindi hafa borist til Stjórnlagaráðs frá almenningi og félagasamtökum á vef ráðsins. Þar á sér jafnframt stað lífleg umræða um erindin milli fulltrúa í Stjórnlagaráði og almennings. Um 400 ummæli hafa verið gerð við erindin eða áfangaskjal ráðsins.

Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu frá ráðsfundi sem hefst kl. 13 í dag á vef ráðsins. Ráðsfundir eru opnir fyrir almenning.

Hér er hægt að nálgast viðtal við Katrínu Fjeldsted formann nefndarinnar um tillögurnar.

Fara í fréttalista