Stjórnlög unga fólksins

18.04.2011 10:52

Stjórnlög unga fólksins

Stjórnlög unga fólksins, þing ungmennaráða sveitarfélaga, fór fram í Iðnó um helgina. Markmið þingsins var að rödd barna og ungmenna fengi að heyrast við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Á þinginu mótuðu fulltrúar ungmennaráða 16 sveitarfélaga á landinu tillögur og álit á málum sem tengjast stjórnarskránni. Þátttakendur voru rúmlega 40 og sá yngsti 13 ára. Þingið starfaði í 6 hópum, sem var ætlað að svara gefnum spurningum. Þættirnir sem voru teknir fyrir voru m.a. eftirfarandi:

  • Þarf að breyta stjórnarskránni?
  • Er nauðsynlegt að hafa þjóðhöfðingja?
  • Ráðherrar, sem fara með framkvæmdarvaldið, eru oftast líka alþingismenn. Hverjir eru kostir þess og gallar?
  • Er sjálfstæði dómstóla nægilega tryggt í stjórnarskránni?
  • Hverjir ættu að hafa kosningarétt?
  • Eru mannréttindi nægilega tryggð í íslensku stjórnarskránni?

Meðal þess sem kom skýrt fram á þinginu var að stjórnarskráin ætti að vera læsileg, aðgengileg og á einföldu og skýru máli og einnig að efni hennar yrði kynnt börnum og unglingum. Meðal þeirra sem fylgdust með niðurstöðum þingsins voru um tíu stjórnlagaráðsfulltrúar. Niðurstöður þingsins verða afhentar Stjórnlagaráði og Alþingi.

 

Fara í fréttalista