Skýrsla stjórnlaganefndar

06.04.2011 17:18

Skýrsla stjórnlaganefndar

 

FRÉTTATILKYNNING STJÓRNLAGANEFNDAR

Stjórnlaganefnd sem Alþingi kaus 16. júní 2010 hefur lokið störfum og gefið út skýrslu með niðurstöðum vinnu sinnar. Nefndin afhendir Stjórnlagaráði skýrsluna miðvikudaginn 6. apríl 2011.

 

Stjórnlaganefnd var falið að standa að þjóðfundi um stjórnarskrá þar sem kalla skyldi eftir meginsjónarmiðum og áherslum almennings um stjórnarskrá lýðveldisins og taka saman niðurstöður hans. Þjóðfundur var haldinn 6. nóvember 2010 í Laugardalshöll og er gerð grein fyrir undirbúningi, framkvæmd og niðurstöðum hans í skýrslu nefndarinnar. Nefndinni var einnig falið að  leggja fram hugmyndir um breytingar á stjórnarskrá. Loks var stjórnlaganefnd falið að  taka saman gagnasafn um stjórnarskrármálefni. Gagnasafnið er að finna á vefsíðunni www.stjornlagarad.is

 

Af meðferð frumvarps um stjórnlagaþing og nefndarálitum má ráða að eitt helsta markmið með stofnun stjórnlaganefndar hafi verið að vega upp á móti skömmum starfstíma stjórnlagaþings og flýta fyrir störfum þess með vönduðum undirbúningi sem nýtast myndi við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Nefndin leit sérstaklega til þeirra viðfangsefna sem stjórnlagaþingi var ætlað að fjalla um lögum samkvæmt og setti fram rökstudda valkosti um breytingar á stjórnarskránni. Í þeirri vinnu var tekið mið af viðhorfum og meginsjónarmiðum sem fram komu á Þjóðfundi 2010, og eru þau fléttuð inn í alla umfjöllun og tillögugerð nefndarinnar.

 

Atriði sem stjórnlaganefnd tók einkum til umfjöllunar og gerði tillögur um voru:

 

  • Hvernig festa megi í stjórnarskrá ákveðin grunngildi sem íslensk stjórnskipun er reist á og kynna jafnframt helstu einkenni lands og þjóðar. Hvernig tryggja megi að stjórnarskráin sé skýr, auðlæsileg og aðgengileg almenningi.
  • Hvernig skerpa megi á skyldu stjórnvalda til að koma þjóðréttarsamningum um mannréttindi í framkvæmd með löggjöf og tryggja virkni þeirra með öðrum ráðstöfunum.
  • Hvort, og þá hvernig, binda megi í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum og hvernig tryggja megi rétt allra til heilnæms umhverfis.
  • Hvaða rök hnígi með og á móti því að landið verði eitt kjördæmi eða atkvæðisréttur að fullu jafnaður með öðrum hætti. Hvernig styrkja megi lýðræðislega þátttöku og aðhald almennings gagnvart stofnunum ríkisins og auka heimildir til þjóðaratkvæðagreiðslu.
  • Hvernig unnt sé að styrkja stöðu Alþingis og stuðla að skýrari aðgreiningu löggjafarvalds og framkvæmdarvalds m.a. með því að kanna kosti þess að ráðherrar sitji ekki á þingi.
  • Hvort ástæða sé til að leggja til breytingar á stjórnskipulegri stöðu forseta Íslands og persónulegum valdheimildum hans svo sem við stjórnarmyndun, synjun staðfestingar laga og aðhaldi hans gagnvart Alþingi að öðru leyti.
  • Hvernig marka megi stjórn ríkisins skýrari reglur, til dæmis um skipun og lausn ríkisstjórnar, hlutverk forsætisráðherra og stöðu ráðherra.
  • Hvernig styrkja beri sjálfstæði dómstóla svo sem með reglum um skipun dómara og skýrari ákvæðum um eftirlitshlutverk dómstóla með löggjöf og stjórnvaldsákvörðunum.

 

 

Skýrsla stjórnlaganefndar er 700 blaðsíður og í tveimur bindum. Auk þáttar um undirbúning, framkvæmd og niðurstöður Þjóðfundar 2010 er meginefni fyrra bindis umfjöllun um helstu efnisþætti stjórnarskrár og hugmyndir um breytingar á núgildandi stjórnarskrá. Í þrettán köflum er leitast við að varpa ljósi á helstu sjónarmið og röksemdir um afmarkaða þætti. Þeir eru: Uppbygging og kaflaskipan stjórnarskrárinnar, Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök, Náttúruauðlindir og umhverfismál, Mannréttindi, Hlutverk og staða forseta Íslands,  Alþingiskosningar, kjördæmaskipan og alþingismenn, Hlutverk og störf Alþingis, Ríkisstjórn, störf forseta og ráðherra og verkefni framkvæmdarvalds, Sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds, Stjórnlagaráð, Samningar við önnur ríki og utanríkismál, Lýðræðisleg þátttaka almennings - beint lýðræði, og loks Staða sveitarfélaga.

 

Uppsetning kaflanna er að mestu samræmd. Í stuttum inngangi er greint hvernig ákvæðum um efnið hefur verið hagað í stjórnarskrá til þessa. Næst er lýst helstu áherslum og viðhorfum Þjóðfundar 2010. Þá er gerð grein fyrir áliti sérfræðinga og umræðum stjórnlaganefndar. Í lok hvers kafla er svo að finna tillögur um breytt ákvæði, oft fleiri en einn valkost, ásamt stuttum skýringum.

 

Stjórnlaganefnd leggur áherslu á að hér er ekki um að ræða eiginlegan frumvarpstexta eða skýringar sem venjulega fylgja lagafrumvörpum, heldur grunn sem nefndin ætlar að Stjórnlagaráð geti unnið úr að vild. Í skýrslunni eru auk þess sett upp tvö heildstæð dæmi um hvernig stjórnarskrá gæti litið út, þar sem valkostum er raðað saman til að gefa heildarmynd.

 

Nefndin fékk til liðs við sig sérfræðinga í stjórnskipunar- og stjórnmálafræðum til að rannsaka ákveðna þætti sem þyrftu nánari greiningar eða umfjöllunar við. Í V. þætti skýrslunnar eru tólf úttektir: Stjórnarskrárákvæði um stöðu íslenskrar tungu, Stjórnarskrárákvæði um auðlindir, - lögfræðileg álitaefni, Umhverfi í stjórnarskrá, Samband ríkis og kirkju, Áhrif þess að jafna vægi atkvæða, Tillögur um að ráherrar sitji ekki á þingi, Eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu, Reglur um ábyrgð ráðherra, Stjórnarskrárákvæði um dómstóla og hugmyndir um breytingar á stjórnarskránni, Gerð þjóðréttasamninga og meðferð utanríkismála í íslenskri stjórnskipun, Þjóðaratkvæðagreiðslur í erlendum rétti: samanburðarrannsókn, og loks Sjálfsstjórn sveitarfélaga og stjórnarskrá.

 

Síðara bindi skýrslunnar er þrískipt: Í VI. þætti eru skýringar við gildandi stjórnarskrá, þar sem öll ákvæði núgildandi stjórnarskrár eru skýrð, ásamt forsögu þeirra og túlkun.  Í VII. þætti er gerð grein fyrir tillögum um breytingar á  stjórnarskránni frá 1944 til 2010, og VIII. þáttur fjallar um stjórnarskrárfestu og þróun stjórnskipunar í Evrópu.

 

Skýrsla stjórnlaganefndar er öllum opin á www.stjornlagarad.is og er einnig fáanleg í Bóksölu stúdenta.

 

Það er von stjórnlaganefndar að skýrslan komi að gagni við þá endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands sem nú er hafin.

 

 

6. apríl 2011

 

Guðrún Pétursdóttir formaður

Aðalheiður Ámundadóttir, Ágúst Þór Árnason, Björg Thorarensen, Ellý Katrín Guðmundsdóttir,

Njörður P. Njarðvík og Skúli Magnússon

 

Fara í fréttalista