Þingsályktunartillaga um Stjórnlagaráð samþykkt

24.03.2011 12:24

Þingsályktunartillaga um skipun Stjórnlagaráðs var samþykkt á Alþingi í dag með 30 atkvæðum, 21 þingmaður var á móti og 7 sátu hjá. 5 þingmenn voru fjarverandi atkvæðagreiðsluna.  25 fulltrúar verða skipaðir í ráðið. Alþingi býður þeim sem landskjörstjórn úthlutaði sæti í kosningu til stjórnlagaþings sem fór fram 27. nóvember 2010 sæti í ráðinu, en að öðrum kosti þeim sem næstir voru í röðinni sbr. upplýsingar um niðurstöður talningar sem landskjörstjórn birti. Verkefni Stjórnlagaráðs er að taka við og fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar og gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.  Stjórnlagaráð ber að skila tillögum sínum til Alþingis í formi frumvarps til stjórnskipunarlaga. Vefsíða Stjórnlagaráðs verður stjornlagarad.is og verður hún opnuð innan skamms.

 

Fara í fréttalista