Síðari umræða um skipun stjórnlagaráðs

15.03.2011 10:38

Síðari umræða um skipun stjórnlagaráðs

Síðari umræða um skipun stjórnlagaráðs fer fram á Alþingi í dag. Þingfundur hefst klukkan 14.00 og er málið þriðji dagskrárliður á fundinum. Allsherjarnefnd Alþingis afgreiddi þingsályktunartillögu um skipan stjórnlagaráðsins í gærmorgun.  Í tillögunni er áfram gert ráð fyrir að Alþingi skipi þau tuttugu og fimm sem hlutu mestan stuðning í kosningum til stjórnlagaþings í stjórnlagaráð. Ráðið fái það verkefni að fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar og gera tillögur um breytingar á stjórnarskránni og skila tillögum sínum í formi frumvarps til Alþingis eigi síðar en í lok júní 2011. Stjórnlagaráð á sjálft að setja sér starfsreglur. Lagt er til að fundir ráðsins verði opnir en það er talið mikilvægt þegar litið sé til þess sjónarmiðs sem lagt var til grundvallar endurskoðun stjórnarskrárinnar, þ.e. að almenningur geti fylgst með vinnu stjórnlagaráðs. Hér er hægt að nálgast nefndarálit allsherjarnefndar og breytingartillögur nefndarinnar.

 

Fara í fréttalista