Kosning til Stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 er ógild samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar
25.01.2011 15:57
Hæstiréttur ákvað í dag að ógilda kosningar til Stjórnlagaþings í dag. Í lokaorðum ákvörðunarinnar kemur eftirfarandi fram: Dæmi eru um að í réttarframkvæmd hafi kosningar verið ógiltar þegar framkvæmd þeirra hefur verið í andstöðu við lög og til þess fallin að rjúfa kosningaleynd. Þannig var til dæmis kosning í Helgafellsveit um sameiningu sveitarfélaga ógild þar sem kjörseðill var þannig úr garði gerður að skrifst sást í gegnum hann þótt hann væri brotinn saman, sbr. dóm Hæstaréttar frá 8. desember 1994 í máli nr 425/1994, sem birtur er á blaðsíðu 2640 í dómasafni réttarins sama ár. Framangreindir annmarkar á framkvæmd kosninga til Stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 verða við úrlausn málsins metnir heildstætt og er það niðurstaða Hæstaréttar að vegna þeirra verði ekki komist hjá því að ógilda hana.