Landskjörstjórn tilkynnir á morgun hvenær talningu lýkur

29.11.2010 16:54

TILKYNNING FRÁ LANDSKJÖRSTJÓRN:

Landskjörstjórn kom saman til þess að telja atkvæði í kosningum til Stjórnlagaþings kl 9. sl. sunnudag. Um hádegi í dag var lokið við að skanna öll atkvæði og fara yfir fyrstu athuganir á vafaatkvæðum með fulltrúum landskjörstjórnar. Að þessari athugunni lokinni þarf að fara öðru sinni yfir öll vafaatkvæði og ganga úr skugga um að meðferð þeirra hafi verið rétt.Vegna þess hversu hátt hlutfall atkvæða hefur reynst þurfa frekari athugunar við hefur þessi hluti talningarinnar dregist nokkuð. Fulltrúar landskjörstjórnar vinna áfram að þessu verkefni ásamt starfsmönnum Skyggnis og hins breska undirverktaka DRS. Fullljóst er nú orðið að talningunni getur ekki lokið í dag. Landkjörstjórn mun á morgun birta tilkynningu um hvenær þess er að vænta að talningu ljúki og úrslit verða birt.

 

Fara í fréttalista