Þátttakendur á Þjóðfundi 2010 hvetja Stjórnlagaþing og Alþingi til að virða niðurstöður fundarins

17.11.2010 11:07

Þátttakendur á Þjóðfundi 2010 hvetja Stjórnlagaþing og Alþingi til að virða niðurstöður fundarins

Öllum þátttakendum Þjóðfundar 2010 var í fundarlok boðið að koma á framfæri ábendingum til stjórnlagaþings, Alþingis, fjölmiðla eða annarra. Flestir nýttu sér þetta og margir komu með tvær eða fleiri ábendingar, en samtals urðu þær 2759. Þær, ásamt öðrum niðurstöðum fundarins, má nú nálgast hér á vefsíðunni undir- Ábendingar frá gestum Þjóðfundar.

Langflestar ábendinganna, eða 1389, eru til sjálfs Stjórnlagaþingsins. Algengast er að Stjórnlagaþing sé hvatt til að virða eða nýta niðurstöður þjóðfundarins, en 230 ábendingar voru af þeim toga. Þá voru tilmæli um breytta og bætta starfsemi eða starfshætti Alþingis, en 100 sinnum var minnst á Alþingi í ábendingunum um breytingar á stjórnarskránni. Oftast er lagt til að þingmönnum verði fækkað og að ráðherrar sitji ekki sem þingmenn.

Þátttakendur beindu um 900 ábendingum til Alþingis. Oftast var rætt um vinnubrögð þingmanna og þeir hvattir til að vinna meira og betur saman. Einnig voru þingmenn hvattir  til að virða niðurstöður Þjóðfundar 2010 og Stjórnlagaþings.  

Ábendingar til fjölmiðla voru 429. Oftast, eða 44 sinnum, er fjölmiðlum bent á að að vera jákvæðari í umfjöllun um menn og málefni og að þeir eigi að fjalla á jákvæðan máta um Þjóðfund 2010 og Stjórnlagaþing. Þá er lögð áhersla á að fjölmiðlar séu faglegir og gagnrýnir en slíkar ábendingar voru 35 talsins.

Forseti Íslands fékk 12 tólf ábendingar og tíu ábendingum var beint til ráðherra.

Fara í fréttalista