Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hafin
10.11.2010 10:19
Utankjörfundaratkvæðagreiðsla til stjórnlagaþings hófst í morgun kl 10 í Laugardalshöll og hjá sýslumönnum um land allt. Á höfuðborgarsvæðinu verður utankjörfundaratkvæðagreiðsla í Laugardalshöll frá 10 að morgni til 10 að kvöldi til 26. nóvember nema að lokað verður um næstu helgi. Kosið verður til stjórnlagaþings 27. nóvember . Kosið er með nokkuð öðrum hætti en í venjulegum þing- og sveitarstjórnarkosningum. Eins og fram hefur komið verður kosið um einstaklinga og hver kjósandi má kjósa allt að 25 frambjóðendur. Það tekur lengri tíma en venjulega að fylla út kjörseðil. Gott er að mæta undirbúinn á kjörstað en upplýsingar um frambjóðendur má finna á vefnum www.kosning.is. Þann 16. nóvember verður kynningarefni borið í hvert hús, það er 96 blaðsíðna kynningarblað um frambjóðendur, kynning á kjörseðlinum og skýringar á því hvernig á að kjósa.