Þjóð til þings-Ingrid Kuhlman
10.11.2010 09:27
Ég var svo lánsöm að fá að taka þátt í Þjóðfundinum um stjórnarskrá sem haldinn var 6. nóvember sl. í Laugardalshöll. Gestir voru nær 1000 Islendingar úr litrófi samfélagsins, ungir sem gamlir, konur og karlar, alls staðar að af landinu og valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Á þjóðfundinum fengu fulltrúar heillar þjóðar tækifæri til að kynnast viðhorfum og lífssýn hver annars og koma sjónarmiðum sínum á framfæri um gildi þjóðarinnar og stjórnarskrána sem grundvöll laga og réttar í víðum skilningi. Fundurinn var magnaður og sýnir hvað við getum gert þegar við rökræðum á uppbyggilegan hátt og leyfum öllum skoðunum að koma fram. Greinilegt var að meðal þátttakenda er mikill áhugi til úrbóta í samfélaginu. Maður fann einlægan vilja þeirra til að horfa fram á við og skiptast á skoðunum á uppbyggilegan og jákvæðan hátt. Hugmyndaauðgi var ríkjandi og andrúmsloftið einkenndist af virðingu-virðingu fólks hvers fyrir öðru og virðingu fyrir skoðunum annarra. Þátttakendur settu sig í spor annarra, spurðu uppbyggilegra spurninga og hlustuðu af athygli. Það var fyrir mig ómetanlegt að fá að heyra fólk ræða hugmyndir,hugsanir, lífssýn og skoðanir. Fólk fór með bros á vör inn í framtíðina að fundinum loknum. Það ríkti jákvæðni, bjartsýni og samhugur. Niðurstöður Þjóðfundarins munu veita stjórnlagaþingmönnum leiðsögn í öllum þeim málum sem varða almannahag og framtíð lands og þjóðar og verða þeim án efa gott veganesti. Með Þjóðfundinum varð þjóðin beinn þátttakandi í mótun sinnar framtíðar og sýndi svo ekki verður um villst að henni er vel treystandi.