Fjörugir borgarafundir

22.10.2010 10:41

Fjörugir borgarafundir

Sjöundi og síðasti borgarafundur stjórnlaganefndar um endurskoðun stjórnarskrárinnar var haldinn í Súlnasal hótel Sögu í gær. Fundurinn var sendur út beint og fylgdist hópur fólks með honum á stjornlagathing.is.  Margir frambjóðendur voru staddir á fundinum í gær og greinilegt að kosningabaráttan er að einhverju leiti hafin. Menn veltu fyrir sér kostum og göllum STV kosningakerfisins og ljóst er að þessi aðferð sem er nú notuð í fyrsta skipti hér á landi vefst fyrir einhverjum. Helstu kostur aðferðarinnar eru sagðir að hún fangi vel vilja kjósenda og atkvæðin nýtast til fulls. Aðferðin hefur aðalega verið notuð í Skotlandi og Írlandi og hefur verið í stöðugri þróun. Á fundinum var jafnframt bent á að fjölmiðlar þyrftu að standa sig í kynningum á frambjóðendum þrátt fyrir mikinn fjölda þeirra. Stjórnlaganefnd hefur á síðustu vikum kynnt fyrirhugað stjórnlagaþing og Þjóðfund 2010 á Ísafirði, Egilsstöðum, Sauðárkróki, Bifröst, Hvolsvelli, Akureyri og loks í Reykjavík í gær. Á öllum þessum fundum hafa miklar og fjörugar umræður skapast milli fundargesta og stjórnlagnefndar og greinilegt að það er mikill áhugi í samfélaginu á fyrirhuguðum endurbótum á sjálfri stjórnarskránni. Hægt er að nálgast upptöku á fundinum í gær hér:

Fara í fréttalista