Vel heppnaður borgarafundur á Vestfjörðum
05.10.2010 11:51
Stjórnlaganefnd og Fjórðungssamband Vestfjarða héldu í gærkvöld vel heppnaðan borgarafund um endurskoðun stjórnarskrárinnar samtímis á Ísafirði og á Patreksfirði með aðstoð fjarfundarbúnaðar. Formaður stjórnlaganefndar, Guðrún Pétursdóttir, kynnti fyrirhugaða endurskoðun stjórnarskrárinnar og Aðalheiður Ámundadóttir sem sæti á í nefndinni sagði frá sögu stjórnarskrárinnar og helstu álitamálum um breytingar á henni. Fundarstjóri var Eiríkur Finnur Greipsson. Góð mæting var á fundinn og sköpuðust líflegar umræður bæði um stjórnarskrána og hlutverk hennar og ekki síður um fyrirhugaðar kosningar, en framboðsfrestur rennur út á hádegi þann 18.október. Næsti borgarafundur um endurskoðun á stjórnarskránni verður haldinn á Hótel Héraði á Egilsstöðum í kvöld, 5.október, og hefst klukkan 20:00. Allir eru velkomnir.