Spurt og svarað
Hvað er Stjórnlagaráð?
Alþingi samþykkti hinn 24. mars 2011 að skipa 25 manna Stjórnlagaráð. Verkefni þess er að taka við og fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar og gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Stjórnlagaráði ber að skila tillögum sínum til Alþingis í formi frumvarps til stjórnskipunarlaga fyrir lok júní 2011, en er heimilt að óska eftir framlengingu um allt að einn mánuð.
Hverjir eru skipaðir í Stjórnlagaráð?
Alþingi bauð þeim 25 sem landskjörstjórn úthlutaði sæti í kosningu til Stjórnlagaþings sem fór fram 27. nóvember 2010 sæti í Stjórnlagaráði, en að öðrum kosti þeim sem næstir voru í röðinni sbr. upplýsingar um niðurstöður talningar sem landskjörstjórn birti. Af þessum 25 tóku 24 boði Alþingis um skipun í Stjórnlagaráð. Íris Lind Sæmundsdóttir var 26. einstaklingurinn á lista landskjörstjórnar og var henni þá boðið sæti í Stjórnlagaráði í stað Ingu Lindar Karlsdóttur sem þáði ekki boðið. Alls eru 10 konur og 15 karlar í ráðinu.
Þarf að breyta stjórnarskránni?
Eftir hrun efnahagslífsins var skýr krafa í samfélaginu um að endurskoða þyrfti grunngildi þess og þar með stjórnarskrá landsins. Fólkið krafðist lýðræðisumbóta. Þá hafa allir flokkar og eða þinghópar lýst því yfir að þeir telji slíka endurskoðun brýna.
Hvaða viðfangsefni eru til umræðu í Stjórnlagaráði?
Verkefnanefndir Stjórnlagaráðs eru þrjár, A,B,C, og skiptast fulltrúar í ráðinu jafnt niður á þær. Nefndirnar hafa til umfjöllunar þá þætti sem koma fram í þingsályktunartillögu um Stjórnlagaráð auk tillagna í skýrslu stjórnlaganefndar. Nefndunum ber að gera ráðsfundi reglulega grein fyrir framvindu starfs síns.
Hvernig starfar Stjórnlagaráð?
Stjórnlagaráð setti sér eigin starfsreglur sem samþykktar voru á ráðsfundi 13. apríl sl. (sjá hér á vefsíðunni. Þar kemur m.a. fram að ráðið kýs sér stjórn sem samanstendur af formanni (Salvör Nordal), varaformanni (Ari Teitsson) og formönnum þriggja verkefnanefnda (Katrín Fjeldsted, Pawel Bartoszek og Silja Bára Ómarsdóttir. Ráðið mun fyrst og fremst vinna í þessum þremur verkefnanefndum sem skipast eftir málefnaflokkum. Ráðið kemur saman í heild á fimmtudögum kl. 13 á opnum ráðsfundum. Þar greina nefndir frá framgangi starfa sinna og leggja inn efni í svokallað áfangaskjal en í því safnast saman sá texti sem ráðið vinnur með í átt að frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár. Textinn í áfangaskjalinu er aðgengilegur hér á vefsíðu ráðsins og getur tekið breytingum fram til þess tíma að frumvarpið verður til. Þá er almenningi boðið að gera athugasemdir við skjalið.
Vikulegir ráðsfundir eru öllum opnir meðan húsrými leyfir, jafnframt geta nefndir ákveðið að opna sína fundi fyrir gestum og verða þeir fundir þá sérstaklega kynntir á vefsíðunni. Unnt er að fylgjast með vikulegu ráðsfundunum í beinni útsendingu á vef ráðsins og þar er jafnframt hægt að nálgast eldri útsendingar. Þá eru fundargerðir allra funda, sem önnur skjöl ráðsins, vistuð og birt á vefnum.
Getur almenningur sent inn erindi?
Hér á vefsíðu ráðsins er hægt að gera athugasemdir og koma með ábendingar við áfangaskjal ráðsins. Almenningur getur einnig sent ráðinu erindi hér á síðunni undir hnappnum Almenn erindi. Unnt er að beina erindinu á eina nefnd af þremur (skipt eftir málefnum) eða senda það á ráðið. Nefndarritarar flokka innsend erindi og beina þeim til þeirrar nefndar sem næst er málefninu. Æskilegt er að erindi til ráðsins fari gegnum erindakerfið hér á vefnum. Innsend erindi, undirrituð með nafni sendanda, eru birt hér á vefsíðunni eftir að hafa verið send til nefndar. Á hverjum nefndarfundi eru erindi sem borist hafa skráð í fundargerð. Almenningi gefst einnig kostur á að gera athugasemdir eða koma með ábendingar varðandi innsend erindi.
Hvar fer starfsemi Stjórnlagaráðs fram?
Starfsemi Stjórnlagaráðs fer fram í leiguhúsnæði að Ofanleiti 2, 103 Reykjavík (þar sem Háskólinn í Reykjavík var til húsa). Húsnæðið var leigt frá og með 1.1. 2011. Uppsetning og fyrirkomulag húsnæðisins var í verkahring undirbúningsnefndar. Á 5. hæð hússins er skrifstofa ráðsins, almenn afgreiðsla og starfsaðstaða fulltrúa ráðsins. Á 2. hæð er fundaraðstaða. Stór fundarsalur er á hæðinni þar sem vikulegir ráðsfundir Stjórnlagaráðs fara fram á fimmtudögum kl. 13. Lögun og fyrirkomulag salarins réð nokkru um uppsetningu hans, en fulltrúarnir kusu að sitja í hálfhring. Gegnt fulltrúunum situr formaður (fundarstjóri) og varaformaður ásamt starfsmanni ráðsins. Fundarstjórinn situr ofar svo hann hafi yfirsýn yfir salinn. Það var ákvörðun fulltrúanna að þeir tjáðu sig almennt úr sætum sínum á ráðsfundum. Þeir geta jafnframt tjáð sig í ræðustól ef þeir kjósa. Ráðsfundir eru opnir almenningi og sýnt er beint frá fundunum á vef ráðsins. Þá eru þrjú stór nefndarherbergi á hæðinni þar sem málefnavinna ráðsins fer fram. Hæðin er lokuð og ekki opin gestum nema þegar ráðsfundir fara fram.
Hvaða fundir eru opnir almenningi?
Ráðsfundir Stjórnlagaráðs eru haldnir á fimmtudögum kl. 13 og eru opnir almenningi og sýndir beint hér á vefsíðunni. Ákveðnar reglur gilda um gesti og eru þær helstar að þeir eru skráðir inn, fá gestapassa og afhenda umsjónarmönnum yfirhafnir. Vinnufundir nefnda eru almennt ekki opnir áhorfendum nema í sérstökum tilfellum og er það þá kynnt á vefnum.
Hver er kostnaður við Stjórnlagaráð og hver greiðir hann?
Í þingsályktun um Stjórnlagaráð kemur fram að kostnaður við störf Stjórnlagaráðs greiðist úr ríkissjóði samkvæmt nánari ákvörðun Alþingis. Í greinargerð með frumvarpi ályktunarinnar kemur fram að gert er ráð fyrir að áður samþykktar fjárheimildir vegna stjórnlagaþings verði færðar með fjáraukalögum til að mæta kostnaði vegna Stjórnlagaráðs. Í fjárlögum ríkisins fyrir 2011 vegna tveggja mánaða stjórnlagaþings var gert ráð fyrir um 272 milljóna króna fjárveitingu til þess og í áætlunum þar með var hver umfram mánuður áætlaður um 70 milljónir króna. Í endurunninni fjárhagsáætlun fyrir 3 mánaða Stjórnlagaráð sem unnin var fyrir og send allsherjarnefnd þegar nefndin var að fjalla um frumvarpið til þingsályktunar um skipan Stjórnlagaráðs í mars sl. kom fram að kostnaðurinn er áætlaður 270 milljónir króna og að framlenging um einn mánuð gæti kostað um 50 milljónir króna.
Er Stjórnlagaráði skylt að fara eftir niðurstöðu þjóðfundarins 2010?
Þjóðfundurinn 2010 var undanfari þeirrar vinnu sem Stjórnlagaráð hefur tekið að sér. Stjórnlaganefnd vann úr niðurstöðum þjóðfundar og lagði fyrir Stjórnlagaráð á fyrsta fundi þess þann 6. apríl. Niðurstöður þjóðfundarins eru þannig fyrst og fremst leiðarvísir um vilja þjóðarinnar fyrir fulltrúa í Stjórnlagaráði.
Er ekki hætta á að frumvarp Stjórnlagaráðs breytist í meðferð Alþingis?
Alþingi samþykkti að fela ráðgefandi Stjórnlagaráði að gera tillögur um breytingar á stjórnarskránni í formi frumvarps til stjórnskipunarlaga. Stjórnlagaráð er hins vegar ráðgefandi og því getur frumvarp ráðsins breyst í meðförum Alþingis. Endurskoðuð stjórnarskrá verður að lúta lagafyrirmælum núgildandi stjórnarskrár og samkvæmt henni hefur Alþingi síðasta orðið í tveimur afgreiðslum með almennum þingkosningum á milli.
Hvaða munur er á stjórnlagaþingi og Stjórnlagaráði?
Sá grundvallarmunur er að ekki er lengur byggt á því að kjörnir fulltrúar sitji á þingi sem er skipulagt með svipuðum hætti og Alþingi og njóti sömu verndar og Alþingi gerir samkvæmt stjórnarskrá. Þeir sem taka sæti í Stjórnlagaráði hafa því ekki sömu stöðu og gert var ráð fyrir að þingfulltrúar á stjórnlagaþingi hefðu. Stjórnlagaþing hefði starfað samkvæmt starfsreglum sem Alþingi setti því. Stjórnlagaráð fer hins vegar eftir starfsreglum sem ráðið sjálft setur sér. Stjórnlagaráði er þannig ætlað sjálfdæmi um skipulag vinnu sinnar. Ráðið hefur því meira frelsi um innra starf sitt en stjórnlagaþingið hefði haft, en lýtur þó ákveðins rekstrarlegs eftirlits af hálfu undirbúningsnefndar.
Hvaða laun þiggja fulltrúar í Stjórnlagaráði?
Fulltrúar í ráðinu njóta á starfstíma þess (frá setningu ráðsins til þess dags sem frumvarpinu er skilað, þó innan tímaramma ályktunarinnar) launa sem samsvara þingfararkaupi alþingismanna, eða um 520 þúsund krónur á mánuði. Formaður ráðsins nýtur samsvarandi launa og forseti Alþingis og ber fjármálalega ábyrgð á störfum ráðsins gagnvart undirbúningsnefnd.
Hvert var hlutverk stjórnlaganefndar?
Stjórnlaganefnd var skipuð á fundi Alþingis hinn 16. júní 2010 um leið og lög um stjórnlagaþing voru samþykkt. Í nefndina voru kjörin þau Guðrún Pétursdóttir formaður, Björg Thorarensen, Skúli Magnússon, Njörður P. Njarðvík, Ellý K. Guðmundsdóttir, Ágúst Þór Árnason og Aðalheiður Ámundadóttir. Verkefni nefndarinnar voru m.a. að taka saman gagnasafn um stjórnarskrármálefni, standa að Þjóðfundi 2010 um stjórnarskrána og leggja fram hugmyndir að breytingum á stjórnarskrá (sbr. lög nr. 90/2010). Stjórnlaganefnd afhenti skýrslu sína um tillögur að breytingum á stjórnarskránni á fyrsta fundi Stjórnlagaráðs 6. apríl og var störfum nefndarinnar þar með lokið.
Hvað gerir undirbúningsnefnd Stjórnlagaráðs?
Undirbúningsnefnd stjórnlagaþings starfaði samkvæmt lögum um stjórnlagaþing, nr. 90/2010. Samkvæmt þingsályktun um Stjórnlagaráðið er starfstími nefndarinnar framlengdur og nefnist nú undirbúningsnefnd Stjórnlagaráðs. Í nefndinni eru Þorsteinn Magnússon formaður, Sigrún Benediktsdóttir og Páll Þórhallsson. Hlutverk hennar er að ganga frá setu fulltrúa í ráðið og undirbúa fyrsta fund ráðsins. Enn fremur sér undirbúningsnefndin ráðinu fyrir starfsaðstöðu, starfsliði og nauðsynlegri sérfræðiaðstoð. Eftir fyrsta fund ráðsins er hlutverk undirbúningsnefndar fyrst og fremst eftirlitshlutverk með rekstri ráðsins, en formaður ráðsins ber fjárhagslega ábyrgð á starfi ráðsins gagnvart undirbúningsnefnd og forsvar starfsmannamála ráðsins eru í höndum nefndarinnar og þar með framkvæmdastjóri ráðsins.