Breytingatillaga #107

Við 31. grein. Náttúruauðlindir

Flytjendur:
  • Þorkell Helgason
BreytingartillagaÁkvæði eftir breytinguÁkvæði í frumvarpsdrögum

Lagðar eru til breytingar á 1. og 3. mgr. greinarinnar. Í 1. mgr. er aðeins um textalagfæringu að ræða, en í 3. mgr. eru efnislegar breytingar:

a) Ekki mgr. taki ekki aðeins til auðlinda heldur allra takmarkðra almannagæða.

b) Og að í stað "fulls verðs" sé talað um markaðsverð.

Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og má aldrei selja þær eða veðsetja.

Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.

Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.

Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn markaðsverði og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

 

Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja.

Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.

Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.

Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

Skýringar:

Lagðar eru til tvenns konar breytingar á 31. gr. frumvarpsdraganna um náttúruauðlindir. Þær hafa það að markmiði að gera greinina skýrari og líklegri til að komast til raunverulegrar framkvæmdar.

Breytingarnar eru þessar:

1. mgr. Hér er aðeins um textalagfæringar að ræða. Að í stað „þær“ í upphafi 2. málsl. komi auðlindirnar. Og að orðið „því“ síðar í sama málslið falli brott, enda er því ofaukið. Tilvist orðsins gefur til kynna að niðurlag málsliðarins sé einungis til skýringar og ætti þá fremur heima í greinargerð. Með brottfalli orðsins fær niðurlagið sjálfstæða merkingu eins og væntanlega var til ætlast.

4. mgr. Annar málsl. mgr. er umskrifaður allnokkuð. Málsliðurinn fjallar um leyfi til að nýta takmarkaðar auðlindir í almannaeigu og gjaldtöku fyrir nýtingu þeirra.

Í fyrsta lagi er andlag málsliðarins útvíkkað þannig að það eigi ekki aðeins við um auðlindir heldur öll þau takmörkuðu gæði sem almannavaldið þarf að takmarka aðgengi að. Auk auðlinda á borð við orkulindir eða fiskimið eru hér höfð í huga þau önnur gæði sem þarf að takmarka aðgang að og fá þar með á sig verð á markaði, eins og fjarskiptarásir eða losunarheimildir fyrir gróðurhúsalofttegundir svo dæmi séu tekin. Auk þess er viðbúið að hin hraða þróun á öllum sviðum leiði til æ fleiri takmarkana á heimiluðum umsvifum. Vitaskuld á það sama við um þessi gæði eins og náttúruauðlindir.

Í öðru lagi er lagt til að í stað orðanna „fullt gjald“ komi markaðsverð. Fyrra orðasambandið er sótt í ákvæði um einkaeignir sem teknar eru eignarnámi, sbr. 1. mgr. 72. gr. gildandi stjórnarskrár eða 1. mgr. 10. gr. þessara frumvarpsdraga. Fram hefur komið ábending í ráðinu þess efnis að orðalagið úr eignarnámsákvæðinu geti ekki átt við hér, enda þótt því sjónarmiði hafi einnig verið andmælt. Þykir rétt að taka af allan vafa í þessum efnum og vísa til þess verðs sem fæst eða fást mundi á frjálsum markaði. Séu umrædd takmörkuð gæði boðin upp þá er hér átt við það verð sem fæst á þeim uppboðsmarkaði. Ákveði löggjafinn að takamarka uppboðin með einhverjum hætti, svo sem að bjóða upp fiskkvóta bundna með einhverju móti við löndunarsvæði er hér að sjálfsögðu átt við það markaðsverð sem myndast á hverjum þvílíkra markaða.

Flutningsmaður hefur íhugað hvort bæta ætti við viðbótarmálsgrein um að heimila vissa hóflega aðlögun að breytingum. Annars vegar væri tilgangurinn sá að forsendum og stöðu þeirra sem hafa fengið að nýta sér hin takmörkuðu gæði verði ekki kollsteypt fyrirvaralaust þegar fyrirkomulagi er breytt, heldur sé veitt hæfileg og eðlileg aðlögun hvort sem er í tíma eða með öðru móti. Sem dæmi má nefna þá leið sem sumir hafa stungið upp á varðandi fiskveiðikvóta og nefnd hefur verið fyrningarleið. Þar er veitt aðlögun að því að innkallað sé fullt markaðsverð fyrir þá sem hafa aflaheimildir þegar fyrirkomulaginu væri komið á. Benda má á að Evrópusambandið hefur lagt til og að hluta innleitt slíka fyrningarleið við innleiðingu kvótakerfis við losun gróðurhúsalofttegunda. Stjórnarskrárákvæði má ekki hindra beitingu slíks aðlögunarferils. Engu að síður verður að taka það skýrt fram að slíkt hugsanlegt aðlögunarferli má ekki vera úr hófi. Það verður líka að vera sanngjarnt gagnvart þjóðinni, eiganda auðlindanna.

Jafnframt og ekki síður væri ákvæði það sem hér er reifað leiðsögn um að dómstólar þurfa ekki og geta ekki beitt hefðarrétti til að veita aðlögun eða jafnvel að leggja innleiðingu breytts fyrirkomulags til jafns við eignarnám.

Á móti aðlögunarákvæði koma þau rök að þau sé óþörf þar sem þau séu sjálfgefin. En þá kann það um of að vera á valdi dómstóla að túlka hvað sé hæfileg aðlögun.

Flutningsmaður leggur til að þessi tillaga fari í nefnd og að hún meti sérstaklega hvort ástæða sé til að hafa það aðlögunarákvæði í frumvarpsgreininni sem hér um ræðir.