Breytingatillaga #87

Við 30. grein. Náttúra Íslands og umhverfi

Flytjendur:
  • Örn Bárður Jónsson
  • Þorvaldur Gylfason
  • Ómar Þorfinnur Ragnarsson
  • Katrín Oddsdóttir
  • Katrín Fjeldsted
  • Andrés Magnússon
BreytingartillagaÁkvæði eftir breytinguÁkvæði í frumvarpsdrögum

Við upphafsorðin Íslensk náttúra er undirstaða lífs í landinu bætist:

,dýrmætur arfur kynslóðanna og býr yfir fágætum undrum.

Íslensk náttúra er undirstaða lífs í landinu, dýrmætur arfur kynslóðanna og býr yfir fágætum undrum.
Öllum ber að virða hana og vernda.

Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda.

Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru. Í því felst að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og náttúruminjar, ósnortin víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum.

Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur.

Með lögum skal tryggja rétt almennings til að fara um landið í lögmætum tilgangi með virðingu fyrir náttúru og umhverfi.

Skýringar:

Upphafsorðin í núverandi texta Íslensk náttúra er undirstaða lífs í landinu...eiga að útskýra orðin, sem koma í framhaldinu: Öllum ber að virða hana og vernda.

Þessi upphafsorð vísa hins vegar aðeins til eins af þremur gildum náttúrunnar, en gildin þrjú eru þessi:

Í fyrsta lagi hreint nytjagildi, nýting auðlinda náttúrunnar.

Í öðru lagi gildi náttúrunnar í sjálfu sér.
Af því getur leitt nýting hennar ferðamennsku og til að efla álit og virðingu landsins og þar með viðskiptavild.
Þetta gildi hennar nýtur vaxandi viðurkenningar í löggjöf víða um lönd, allt upp í það að náttúruna geti verið sérstakurlögaðili.

Í þriðja lagi gildi hennar gagnvart jafnrétti kynslóðanna og sjálfbærri þróun. Þar er um að ræða hrein mannréttindi, sem eiga heima með öðrum mannréttindum.

Gildi íslenskrar náttúru sem einstæðrar á heimsvísu hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu hin síðustu ár.

Á fundi umhverfisráðherra heimsins í Nairobi fyrir nokkrum árum, sem þáverandi umhverfisráðherra, Jónína Bjartmarz, sat, var því slegið föstu að íslensk náttúra væri eitt af undrum veraldar.

Í vandaðri vísindalegri samantekt á 100 helstu undrum veraldar fyrir nokkrum árum var tæpur helmingur þeirra náttúruundur.
Af þeim voru sjö í Evrópu, þar af tvö á Norðurlöndum, hinn eldvirki hluti Íslands og norsku firðirnir.

Til samanburðar má nefna að frægasti og elsti þjóðgarður heims, Yellowstone, sem svipar um margt til Íslands hvað varðar jarðhitasvæði og fossa, komst ekki á blað í þessari samantekt.

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur hefur kynnt sér sérstaklega helstu eldfjallasvæði heims og komist að þeirri niðurstöðu að svæðið norðan Vatnajökuls eitt og sér sé stærsta, fjölbreyttasta og magnaðasta eldfjallasvæði heims.

Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur benti líka á það að samspil elds og íss á Íslandi væri einstætt á heimsvísu og sama má segja um áþreifanleg og sjáanleg merki um það hvernig meginlandsflekarnir reka hvor frá öðrum og upp kemur nýtt land.