Breytingatillaga #76
- Þorvaldur Gylfason
- Illugi Jökulsson
- Ástrós Gunnlaugsdóttir
- Andrés Magnússon
Breytingartillaga | Ákvæði eftir breytingu | Ákvæði í frumvarpsdrögum |
---|---|---|
Inn kemur: og stuðla að jafnræði. | Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu og stuðla að jafnræði. Óheftur aðgangur að netinu og upplýsingatækni skal tryggður. | Öll erum við frjáls skoðana okkar og sannfæringar og eigum rétt á að tjá hugsanir okkar. Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu. Óheftur aðgangur að netinu og upplýsingatækni skal tryggður. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Þó má setja tjáningarfrelsi skorður með lögum til verndar börnum, öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, svo sem nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi. Hver og einn ber ábyrgð á framsetningu skoðana sinna. |
Skýringar:
Þetta ákvæði er hugsað til þess að vega móti einokun á fjölmiðlamarkaði.
Áhrif peninga hefur hvílt eins og skuggi yfir öllum tilraunum til lýðræðis og hamlað þeim úrbótum sem að var stefnt . Grikkir voru mjög meðvitaðir um þetta og reyndu ýmsar aðferðir til þess að koma í veg fyrir hin óheillavænleg áhrif peninga á lýðræðið. Í Grikklandi ræddu menn af ákafa um þann ágalla við lýðræðið að fjöldi manna, gjarnan ræðusnillingar, voru tilbúnir til að selja þjónustu sína til að vinna almenning á band ákveðnum skoðunum, ættuðum frá þeim er greiddu fyrir. Í dag eru fjölmiðlar komnir í stað keyptra ræðusnillinga á torgum. Saga tuttugusta aldarinnar er full af hroðalegum dæmum um hvað getur gerst þegar einokun á upplýsingamiðlun og umræðu kemst á. Til er vægari form á einokun á upplýsingamiðlun sem styðst ekki við boð og bönn heldur þess í stað yfirburðastöðu á fjölmiðla- og upplýsingamarkaði. Skulu hér nefnd tvö nýleg dæmi, annað innlent og hitt erlent.
Í Bólunni voru svo til allir íslenskir fjölmiðlar á markaði í eigu eigenda banka. Það var hluti af skýringunni á því hveru langt var hægt að ganga. Dagana eftir fall Glitnis var mikið rætt um hvort Kaupþing myndi ekki yfirtaka Glitni, almenningur áleit að Kaupþing stæði það styrkum fótum, enda voru það skilaboðin úr fjölmiðlunum. Í fjölmiðlum nágrannaríkja var umræðan þveröfug. Þar var skrifað: Mat markaðarins á stöðu Kaupþings er þannig að ef Kaupþing vill fá lán þá verður það aðeins veitt með fyrsta veði. Þrátt fyrir fyrsta veðrétt fær bankinn aðeins í sínar hendur 40% af lánsupphæðinni. Vextir eru þar á ofan háir. En á Íslandi var semsé rætt um að þessi geysisterki banki myndi koma Glitni til bjargar. Þetta er nýlegt innlent dæmi um hvernig er hægt, í landi þar sem fjölmiðlun er frjáls en ekki gætt jafnræðis, að villuleiða almenning um mikilvæg málefni er varðar brýna hagsmuni hans.
Hitt dæmið er enn nýrra, frá Bretlandi. Þar er mikil samþjöppun á fjölmiðlamarkaði og lengi hefur verið rætt um að fjölmiðlaveldi Robert Murdocks hafi mjög mikil áhrif á hver verði forsætisráðherra landsins. Þetta vandamál hefur nú krystallast, og er vart annað meira rætt í fjölmiðlum í dag, innanlands sem erlendis. Fyrirsagnirnar eru; Er hægt að kaupa skoðanir fólks? (Mbl. 17. Júli, þrjár greinar í því blaði um þetta eina mál). Því er hiklaust haldið fram að Murdock hafi ráðið hverjir hafi orðið forsætisráðherrar Bretlands undanfarna áratugi, og bent að núverandi forsætisráðherra hafi haft mikil tengsl við fjölmiðlaveldi Murdocks. Bretland er eitt stærsta fjármála- og hernaðarveldi heims. Þetta er enn eitt dæmi um hvað getur gerst ef ekki er gætt jafnræðis í frjálsri, opinni og upplýstri umræðu. Þess vegna er það fjöregg lýðræðisins að jafnvægi og jafnræði í þjóðfélagsumræðu sé í heiðri haft.
Á næstu árum verður hugsanlega tekist á um eignarhald á auðlindum. Það þarf aðeins lítið brot af afrakstri þessara auðlinda til þess að ná að kaupa yfirburðarstöðu á fjölmiðlamarkaði, fjárfesting sem myndi marg borga sig ef hægt væri að hafa áhrif á skoðanir almennings í því máli.
Framkvæmd: Þetta ákvæði leggur stjórnvöldum þá skyldu á hendur að huga að því hvort mikið valdaójafnvægi sé á upplýsingamiðlun og reyna þá að koma á framfæri að svo sé, eða t.d. að koma andstæðum sjónarmiðum að í ríkisfjölmiðlum.
Ákvæðið mun t.d. hafa áhrif á „Útvarpslög frá mai 2000; IV kafli; skyldur útvarpsstöðva, 9gr. „lýðræðislegar grundvallarreglur" en þar segir m.a. „Útvarpsstöðvar skulu í öllu starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur. Þeim ber að virða tjáningarfrelsi og stuðla að því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi skoðunum í umdeildum málum".
Ákvæðið hefur einnig áhrif á Fjölmiðlalög frá 2011, t.d. 26. gr. Lýðræðislegar grundvallarreglur en þar segir: „Fjölmiðlaveita skal í starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og standa vörð um tjáningarfrelsi. Hún skal virða mannréttindi og jafnrétti auk þess að hafa í huga friðhelgi einkalífs. Fjölmiðlaveita skal gæta þess að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni í umfjöllun sinni um fréttir og fréttatengt efni og gæta þess að mismunandi sjónarmið komi fram, jafnt karla sem kvenna".