Breytingatillaga #65

Við 36. grein. Alþingiskosningar

Flytjendur:
  • Örn Bárður Jónsson
  • Þorvaldur Gylfason
  • Þorkell Helgason
  • Vilhjálmur Þorsteinsson
  • Lýður Árnason
  • Katrín Oddsdóttir
  • Illugi Jökulsson
  • Guðmundur Gunnarsson
  • Erlingur Sigurðarson
BreytingartillagaÁkvæði eftir breytinguÁkvæði í frumvarpsdrögum

5. mgr. orðist svo: „Kjósandi velur með persónukjöri frambjóðendur af listum í sínu kjördæmi eða af landslistum, eða hvort tveggja. Honum er og heimilt að merkja í stað þess við einn kjördæmislista eða einn landslista, og hefur hann þá valið alla frambjóðendur listans jafnt.“

Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri kosningu til fjögurra ára.

Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt.

Heimilt er að skipta landinu upp í kjördæmi. Þau skulu flest vera átta.

Samtök frambjóðenda bjóða fram lista, kjördæmislista eða landslista eða hvort tveggja. Frambjóðendur mega bjóða sig fram samtímis á landslista og einum kjördæmislista sömu samtaka.

Kjósandi velur með persónukjöri frambjóðendur af listum í sínu kjördæmi eða af landslistum, eða hvort tveggja. Honum er og heimilt að merkja í stað þess við einn kjördæmislista eða einn landslista, og hefur hann þá valið alla frambjóðendur listans jafnt.

Þingsætum skal úthluta til samtaka frambjóðenda þannig að hver þeirra fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu. Þau samtök koma ein til álita við úthlutun þingsæta sem hlotið hafa minnst fjögur af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.

Í lögum skal mælt fyrir um hvernig þingsætum skuli úthlutað til frambjóðenda út frá atkvæðastyrk þeirra.

Í lögum má mæla fyrir um að tiltekinn fjöldi þingsæta sé bundinn einstökum kjördæmum, þó ekki fleiri en 30 alls. Tala kjósenda á kjörskrá að baki hverju bundnu sæti skal ekki vera lægri en meðaltalið miðað við öll þingsætin.

Í kosningalögum skal mælt fyrir um hvernig stuðla skuli að sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla á Alþingi.

Breytingar á kjördæmamörkum og tilhögun á úthlutun þingsæta, sem fyrir er mælt í lögum, verða aðeins gerðar með samþykki 2/3 atkvæða á Alþingi.

 

Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri kosningu til fjögurra ára.

Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt.

Heimilt er að skipta landinu upp í kjördæmi. Þau skulu flest vera átta.

Samtök frambjóðenda bjóða fram lista, kjördæmislista eða landslista eða hvort tveggja. Frambjóðendur mega bjóða sig fram samtímis á landslista og einum kjördæmislista sömu samtaka.

Kjósandi velur frambjóðendur af kjördæmislista eða landslista sömu samtaka, eða af þeim báðum. Honum er og heimilt að merkja í stað þess við annan listann og hefur hann þá valið alla frambjóðendur listans jafnt. Heimilt er að mæla fyrir um í lögum að kjósandi geti valið frambjóðendur af listum fleiri en einna samtaka.

Þingsætum skal úthluta til samtaka frambjóðenda þannig að hver þeirra fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu. Þau samtök koma ein til álita við úthlutun þingsæta sem hlotið hafa minnst fjögur af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.

Í lögum skal mælt fyrir um hvernig þingsætum skuli úthlutað til frambjóðenda út frá atkvæðastyrk þeirra.

Í lögum má mæla fyrir um að tiltekinn fjöldi þingsæta sé bundinn einstökum kjördæmum, þó ekki fleiri en 30 alls. Tala kjósenda á kjörskrá að baki hverju bundnu sæti skal ekki vera lægri en meðaltalið miðað við öll þingsætin.

Í kosningalögum skal mælt fyrir um hvernig stuðla skuli að sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla á Alþingi.

Breytingar á kjördæmamörkum og tilhögun á úthlutun þingsæta, sem fyrir er mælt í lögum, verða aðeins gerðar með samþykki 2/3 atkvæða á Alþingi.

Skýringar:

Tillagan felur í sér breytingu á 5. mgr. 36. gr. frumvarpsdraganna þess efnis að kjósendum verði fortakslaust gert kleift að velja frambjóðendur þvert á lista, þ.e. persónukjör þvert á lista. Tillaga C-nefndar sem samþykkt var inn í áfangaskjalið á 14. ráðsfundi 24. júní fól í sér þetta ákvæði. Almenn samstaða var á ráðsfundi þann dag um tillögu C-nefndar í heild sinni og margir lýstu yfir stuðningi við umrætt ákvæði sérstaklega.

C-nefnd breytti tillögu sinni á 16. ráðsfundi 12. júlí um þetta atriði og takmarkaði val kjósenda við frambjóðendur á tveimur listum sömu samtaka, kjördæmislista og landslista. Þannig fór skjalið inn í fyrirliggjandi frumvarpsdrög.

Með þessari breytingartillögu er ákvæðið efnislega fært til fyrra horfs. Lægi þá beinast við að taka orðrétt upp ákvæðið úr fyrri gerð áfangaskjalsins. C-nefnd hafði gert ýmsar aðrar breytingar á ákvæðum frumvarpsgreinarinnar sem ekki er lagt til að breytist. Má þar nefna sérstaklega að kjósandinn verður að einskorða sig við frambjóðendur í sínu kjördæmi einu auk þeirra sem eru á landslistum. Flutningsmenn vilja ekki hrófla við því samkomulagi sem lá hér til grundvallar. Því er breytingartillagan reist á orðlaginu í fyrirliggjandi frumvarpsdrögum. Þar með er ekki gengið jafnlangt til baka og var í fyrra skjali frá 24. júní, þar sem kjósandi getur, samkvæmt tillögunni, að vísu valið af öllum framboðslistum innan síns kjördæmis en ekki úr öðrum kjördæmum. Í reynd er þetta þó lítil þrenging þar sem flestir þeir sem keppa að þingsæti munu setja sig á landslista auk kjördæmislista og landslistarnir munu standa öllum kjósendum til boða.

Gagnrýni

Ástæða þess að C-nefnd dró í land mun einkum hafa verið sjónarmið eins af gestum ráðsins sem taldi vali þvert á lista það til foráttu að með því væri kjósandinn að skipta atkvæði sínu á milli flokka svo að fylgissveiflur milli flokka yrðu minni en ella. Kjósandi sem væri óánægður með þann flokk sem hann kaus síðast kynni að láta duga að minnka lítillega stuðning sinn við flokkinn og veita öðrum flokkum (eða frambjóðendum þeirra) hlutdeild í atkvæði sínu í stað þess að skipta alfarið um flokk.

Þótt sveiflur milli flokka myndu e.t.v. minnka kæmi á móti að persónukjöri er ætlað að auka fjölbreytni í þingmannavali.

Flutningsmenn hafa gert líkindafræðilega athugun á því hvort skipting atkvæða milli lista kynni að draga úr fylgissveiflum. Svo kann að vera en þá því aðeins að forsendur séu djarfar og allir kjósendur velji þvert á lista sem virðist ólíklegt.

Önnur mótbára er sú að með vali þvert á lista verði kerfið óheyrilega flókið. Svo er ekki. Kjörseðillinn verður nákvæmlega eins og sá sem fyrirliggjandi frumvarpsdrög kalla á. Það verður ívið flóknara að telja saman atkvæðin en það verður hvort eð er gert í tölvum og skiptir því engu máli.

Þriðja mótbáran gegn því að veita kjósendum frelsi til að velja sér þá frambjóðendur sem þeir telja besta er að slík skipan tíðkist óvíða. Það er ekki rétt. Tína má til fjölmörg dæmi, hvort sem er úr þingkosningum, fylkisþingakosningum, héraðskosningum eða sveitarstjórnarkosningum. Hér verður að hafa í huga að við Íslendingar erum jafnmörg og íbúar miðlungsstórrar borgar í kringum okkur.

Ný erlend fordæmi

Nýjustu dæmin um slíkt fyrirkomulag eru frá landsþingkosningum í Bremen og Hamborg 2011. Í báðum tilvikum er fyrirkomulag allt mjög líkt því sem lagt er til í frumvarpsdrögunum, svo sem að bæði er um kjördæmi að ræða en líka landslista. Kjósendur fara með 5 atkvæði í Bremen en 10 atkvæði í Hambog og mega í öllum aðalatriðum dreifa þeim á milli allra lista og frambjóðenda þeirra. Þar er gengið lengra en í tillögu flutningsmanna að því leyti að kjósendur mega verja atkvæðum sínum að hluta til að kjósa persónur og að hluta lista. Svigrúmið er mikið.

Varð eitthvert hrun í þessum sambandslöndum Þýskalands við það að leyfa val þvert á lista? Um þetta hefur þegar verið skrifað og skal hér fyrst vitnað í ritgerð prófessors í stjórnmálafræði við Háskólann í Bremen, Lothar Probst [1].

Könnun í Bremen 2005 [2]

 

Í könnun sem gerð var 2005 í Bremen meðal 150 kjósenda þegar núverandi fyrirkomulag var fyrst rætt sögðust um 70% telja persónuval mjög gott eða fremur gott fyrirkomulag en tæp 20% heldur slæmt eða afleitt. Aðrir voru óvissir.
Almennt var ánægja var með fyrirhugaða kerfisbreytingu, 70%, en um 10% leist illa á.


Kosningar til landsþinga í Hamborg í Bremen 2011 eftir nýjum kerfum með vali þvert á lista [3]:

 

Í báðum borgríkjunum nýttu kjósendur krossa sína (10 í Hamborg og 5 í Bremen) í ríkum mæli. Það gerðu yfir 96% kjósenda.
Kjósendur skiptust því sem næst til helminga að því leyti að velja einstaka frambjóðendur eða kjósa heila flokkslista.
Í Hamborg notaði tæplega fjórðungur kjósenda sér það að velja frambjóðendur þvert á lista. Í Bremen var hlutfallið hærra eða um 30%.


Þá má vísa í aðra athugun teymis frá Háskólanum í Hamborg á kosningunum þar í borg. Byggt er á spurningum á kosningadag. Hér nokkur atriði í skýrslu þeirra [4]:

 

Um 60% kjósenda taldi sig vera vel upplýsta um kosningakerfið. (Frambjóðendur voru verr að sér!)
40% kjósenda í þessari könnun kusu aðeins flokkslista, en 60% merktu alfarið eða líka við frambjóðendur. (Raunverulegt meðaltal var um 50:50.)
Um 7% þeirra sem ekki kusu (en þeir voru margir eða um 43% kjósenda) töldu kosningakerfið, eða skort á skilningi á því, vera meginástæðu þess að þeir kusu ekki. Sumir aðrir töldu það meðal ástæðna.


Vitaskuld setja þeir sem ekki kjósa sig lítið inn í kerfið. Einungis helmingur vissi hve marga krossa mátti nota og aðeins 40% gátu nefnt einhvern aðalframbjóðanda.

Af þeim sem ekki kusu töldu samt nær 45% nýja kerfið gott, tæp 30% hvorki né og afgangurinn, um 30%, töldu það nýja verra en það gamla. Nær 55% þessa sem hirtu ekki um að kjósa töldu samt að nýja kerfið „færði kjósendum vald".

Kjósendur eiga að fá að ráða vali sínu

Kosningar eru til þess að kjósendur geti valið sér fulltrúa til að starfa í þeirra þágu. Kjósendur eiga að fá að velja þá sem þeir treysta best. Það er ekki með nokkrum hætti unnt að segja að ein kosningaúrslitin séu öðrum betri. Spurningar um hvort eitt kerfið leiði til meiri sveiflna en annað eiga ekki við. Það er kjósenda að ákveða hvað þeir vilja, ekki kerfisins.

Með þetta í huga er fróðlegt að horfa á þær ráðleggingar og spurningar sem koma fram í handbók kosningafræðistofnunarinnar IDEA þar sem er brugðið upp lista um ráð sem hafa megi í huga við hönnun kosningakerfa. Í þessi ráð er vitnað í greinargerð C-nefndar með lokatillögum sínum. [5]

Handbókarhöfundum er tíðrætt um að treysta beri kjósendum, að þeir séu ekki eins heimskir og margir haldi o.s.frv. M.a. er sagt:

 

Hræðist ekki nýmæli.
Vanmetið ekki getu kjósenda.
Reynið að leyfa kjósendunum að hafa eins mikil áhrif og unnt er. (Persónukjör, jafnvel þvert á lista, er nefnt sérstaklega.)
Verið ekki þrælar gildandi kerfis.


Í kjölfarið er lagður fram tossalisti handa smiðum kosningakerfa þar sem m.a. er spurt:

 

Er verið að vanmeta kjósendur?
Tekur kerfið tillit til eins margra atriða og unnt er?
Finnst kjósendum þeir fá vald?


Varnagli

Að lokum skal þeim sem óttast breytingar á það bent að samkvæmt frumvarpsdrögunum getur 5/6 hluti þingmanna breytt stjórnarskránni. Telji Alþingi upp til hópa að stórslys sé í vændum eða hafi orðið getur þingið kippt margumræddu ákvæði út.

 

Niðurstaða

Það er því niðurstaða tillöguflytjenda að það væri mjög til lýðræðisauka að gera þá breytingu sem hér er lögð til, og að kallað sé á breytingar í þessa vegu í samfélaginu. Kosning þvert á lista þekkist annars staðar frá og virðist ganga þar ágætlega og án vandkvæða. Því er lagt til við Stjórnlagaráð að samþykkja breytingartillögu þessa.

 

[1] Sjá www.lotharprobst.de

[2] Sjá http://www.focus.de/politik/deutschland/wahlen-2011/bremen/parteienforscher-lothar-probst-die-bremer-sind-stolz-auf-ihre-unabhaengigkeit_aid_630197.html?drucken=1

[3] Sjá http://www.lotharprobst.de/fileadmin/user_upload/redakteur/Aktuelles/2011/Textdateien/Analyse_Effekte_Wahlsysteme_HH_HB_AWAPP1.pdf.

[4] Sjá líka http://www.hamburgische-buergerschaft.de/cms_de.php?templ=presse_detail.tpl&sub1=61&sub2=&sub3=&cont=4603.

[5] Sjá http://www.idea.int/publications/esd/upload/ESD_Handb_low.pdf, 6. kafla: „Advice for Electoral System Designers".