Breytingatillaga #62
- Þorvaldur Gylfason
- Gísli Tryggvason
Breytingartillaga | Ákvæði eftir breytingu | Ákvæði í frumvarpsdrögum |
---|---|---|
Orðið "venju eða" í 96. gr. falli brott | Sjálfstæði dómstóla skal tryggt með lögum. Dómstólum verða ekki falin störf sem samkvæmt eðli sínu heyra undir aðra valdþætti ríkisins. | Sjálfstæði dómstóla skal tryggt með lögum. Dómstólum verða ekki falin störf sem samkvæmt venju eða eðli sínu heyra undir aðra valdþætti ríkisins. |
Skýringar:
Flutninsmaður hefur rökstutt það á ráðsfundum að ekki eigi að stjórnarskrárbinda venju, sem flutningsmaður telur ósið, að fela dómstólum - einkum Hæstarétti - með lögum eða öðrum hætti að skipa oddamenn eða aðra fulltrúa sérstakar í úrlausnarstofnanir eða varanlegar. Haldist orðið "venja" inni er ætt við að sá ósiður, sem er alltof algengur eins og yfirferð yfir gildandi lög sýnir, ríki áfram, festist í sessi og færist jafnvel í aukana.
Sem dæmi um slík lagaákvæði má nefna 2. málslið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna með síðari breytingum en samkvæmt því ákvæði tilnefnir Hæstiréttur einn mann í nefnd til að ákveða hvernig vísitölur samkvæmt nýjum breyttum grundvelli skulu tengdar eldri vísitölum. Annað dæmi má finna í 2. málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof með síðari breytingum en samkvæmt því ákvæði tilnefnir Hæstiréttur tvo í úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.
Þessi hlutverk eru stjórnarathafnir og samrýmast að mati flutningsmanns ekki sjálfstæði dómstóla og síst Hæstaréttar sem æðsta dómstóls ríkisins, sbr. 98. gr. frumvarps þessa. Sé þörf á floksspólitískt óháðri skipun oddamanna eða annarra fulltrúa í fastar eða sérstakar úrlausnarstofnanir er m.a. unnt að fela slíka skipun forseta Íslands eða forseta Alþingis sem samkvæmt frumvarpi þessu á að hafa stuðning 2/3 alþingismanna og væri eðlilegra að tilnefndi óháða aðila í þingræðisskipulagi eins og okkar.